Gítarguð Thurston Moore er vel gíraður þrátt fyrir áratuga volk í neðanjarðartónlistinni. Ljósmynd/Vera Marmelo.

Í algjöru banastuði

Thurston Moore, fyrrverandi leiðtogi hinnar ástsælu Sonic Youth, mun halda tónleika hérlendis í Hljómahöllinni eftir rétt rúma viku. Morgunblaðið sló á þráðinn til hans og innti frétta.

Ég var fjórtán ára þegar ég stóð inni í herberginu mínu í Árbænum, hlustandi á útvarp Rót. Lag hófst, hart rokklag sem brotnaði svo niður um miðbikið í argandi, gargandi hávaða sem ég frétti svo að héti „feedback“ (viðgjöf, bjögun) og kæmi það úr rafmagnsgítarnum. Ég hafði aldrei heyrt svona hljóð áður og ég hváði. „Má þetta?“ Líf mitt breyttist á þessu augnabliki. Ég man enn gæsahúðina og furðuna einlægu. Lagið var „Silver Rocket“ af plötunni Daydream Nation . Hljómsveitin var Sonic Youth.

Að ég skuli svo, þrjátíu og fjórum árum síðar, vera með leiðtoga sveitarinnar og stofnanda, gítargoðið Thurston Moore, á „línunni“ er ekkert minna en ótrúlegt. Það verður styttra í aðdáandasnáðann við svona aðstæður. Eins gott að vanda sig. Ég ákvað því að reyna að spyrja Moore sem mest um ný verkefni enda tónlistarfólk oft lítið fyrir að velta sér upp úr fyrri frægð. En Moore var slakur, slakari en ég átti von á. Var alveg til í að spjalla aðeins um Sonic Youth, New York-sveitina sem veitti honum goðsagnarstimpilinn. Eina byltingarkenndustu rokksveit sögunnar, þar sem saman koma í einum skurðpunkti tilraunir án afsláttar, melódíunæmi og bullsveitt rokk og ról. Vopnuð þessu átti sveitin eftir að drottna yfir neðanjarðarrokkinu næstu áratugi og áhrif hennar á þróun þess vítt skilgreinda geira í raun ómælanleg. En nóg um það, færum okkur yfir í viðtalið!

Hugsjónafólkið og „hinir“

Ég var stressaður, já, m.a. vegna þess að ég hafði sent ítrekunarpóst á Thurston (köllum hann bara Thurston framvegis, það er svo svalt eitthvað) kl. 10.52 að íslenskum tíma sama dag og viðtalið var tekið. Þá var klukkan 6.52 að morgni í New York. Ég fékk til baka póst þar sem þetta var nefnt og ég dauðhræddur um að ég hefði vakið hann eða stuggað við honum (ekki bætti úr skák að ég sendi bangsa- og hjartatjákn með í einhverri koffínvímu). En sá var nú indæll, maðurinn sem tók við mér um kvöldið, þegar zoom-spjallið hófst. „Langar þig til að sjá mig?“ heyrðist á bak við svartan skjá, röddin auðþekkjanleg; hægur, letilegur baritón. Ég ætlaði að segja að þetta væri bara fínt (ég var í mynd, hann ekki) en þegar hann sagðist ekkert hafa á móti því að vera í mynd, hann þyrfti bara líklega að endurræsa tölvuna, ákvað ég að þiggja það. Þannig að þarna var ég. Dokandi í risi í Holtunum á meðan Thurston Moore var að endurræsa tölvuna sína í New York.
Viðtalið fór svo af stað. Ég var búinn að punkta hjá mér eitt og annað, með áherslu á nútímann, en þetta var eitt af þeim viðtölum sem fara fallega sína eigin leið. Þegar um korter var liðið, og við bara eitthvað að spá í Bandcamp, hugsaði ég: „Ókei, lesendur fá þetta þá bara. Hugleiðingar Thurstons Moores um eitt og annað. Verra gæti það verið.“ Thurston talaði hægt og í löngu máli. Lét hugann reika getum við sagt. Ég þurfti ekki að hafa mikið fyrir þessu, annað en að búa til skaplegt rými og styðja við hann með höfuðnikki. Ljúfasti fýr mætti mér þarna á skjánum. Íhugull… og bráðfyndinn.

Auk þess að búa til tónlist er Thurston líka mikill tónlistaráhugamaður. Nörd væri hægt að segja. Ég er t.d. í bol merktum íslensku svartmálmssveitinni Misþyrmingu, Thurston sér það, og það leiðir okkur í dágott spjall um þá senu. Sérstaklega hvernig íslenska senan er tengd, innanlands sem utan, nokkuð sem Thurston elskar. Við förum að tala um Bandcamp, streymisveitu sem Thurston er hrifinn af, og hann veltir því upp að tekjur tónlistarfólks séu að meirihluta til óstöðugar og innkoma af sölu á tónlist lítil, heilt yfir.

„Besta tónlistin heyrist mögulega aldrei,“ segir hann og kímir. „Ég man þegar geisladiskarnir komu til sögunnar, þá var fólk allt í einu með 80 mínúturnar til að spila úr og mörgum fannst eins og þeir þyrftu að fylla þær. Fólk fór að verða búið á því þegar allar nýjar plötur voru eins og þrefaldar vínilplötur! Lydia Lunch (samtíðarmanneskja Thurstons úr New York-senunni) sagði oft við mig: „Þó að þú getir eitthvað er ekki þar með sagt að þú eigir að gera það.“ Og hann hlær. Thurston fór svona úr einu efni í annað stundum, en hélt alltaf einhverri tengingu, þótt lausleg væri.

„Hún sagði líka að það væri hugsjónafólk og svo „hinir“, og „hinir“ væru alltof margir,“ bætir hann við og brosir að minningunni um þessa vinkonu sína.

Pönkið breytti öllu

Við snúum okkur aftur að Íslandi og tölum aðeins um listasamlagið post-dreifingu. Thurston segist í framhaldinu vera orðinn 64 ára og hlaupi ekki beint upp til handa og fóta þegar tónleikar séu annars vegar. „Ég bý í Lundúnum og Cafe OTO (hið lundúnska Mengi) er bara handan við hornið. Mjög góð dagskrá og það er erfitt að búa svona nálægt því dagskráin er svo spennandi! Ég fer minna á rokktónleika þar sem einhver kemur upp að þér og öskrar í eyrað: „Vá, ég sá þig spila árið 1987!“ Það er meiri friður á OTO. Hægt að einbeita sér að því að hlusta. Fylgjast með og fá innblástur.“
–Og hvernig nýtist það þér við þína sköpun?

„Ég veit það ekki,“ svarar hann dæsandi. „Ég veit ekkert hvað ég er að gera (brosir). Mér finnst þægilegt að spila á gítarinn og hljóðrita tilraunirnar. Bera þær svo undir bandið. Þetta er eiginlega alveg ný aðferð hjá mér, venjulega var allt barið saman í æfingahúsnæðinu af hljómsveitinni í samstarfi. En ég fíla einveruna. Er í friði, glamra og nota pedala, trommukjuða, skrúfjárn… garðsláttuvél þess vegna (hlær). Pikka upp einhver hljóð.“

–En nú ert þú ekki bara tónlistarmaður. Þú safnar tónlist og gefur út í gegnum merkið þitt, Ecstatic Peace. Ert einhvers konar sýningarstjóri eða „curator“ um margt. Eða hvað?

„Mér finnst gott að vera einn en á sama tíma er ég mjög mikil félagsvera og heillaður af því hvernig senur og tónlistarsamfélög virka (Thurston nær einhvern veginn að svara spurningunni alls ekki. En pælingarnar eru fínar). Þetta upplifði ég í rauntíma seint á áttunda áratugnum í New York. Þetta hafði mikil áhrif á mig og mig langaði til að vera hluti af þessu. Ég hreifst af því þegar allar þessar pönksafnplötur voru að koma út en Sonic Youth passaði ekki þar inn. Það var ekki fyrr en við fórum að kynnast sveitum eins og Butthole Surfers og Meat Puppets sem við fundum andans bræður og systur.“

Nú detta blaðamaður sem viðfang sæmilega djúpt ofan í nördaholu og líðanin er góð. Ó já!

–Þú fylgdist svo með þessu gerast þegar sveitir eins og Hüsker Dü og R.E.M. færðu sig ofanjarðar ef svo mætti segja, gerðu samninga við stór útgáfufyrirtæki. Hvað var í gangi eiginlega?

„R.E.M. voru dálítið sérstakt dæmi myndi ég segja. Þeir voru í samstarfi við Miles Copeland (eigandi I.R.S. Records), voru vissulega hluti af okkar heimi, þannig lagað, en komust fljótlega inn í meginstrauminn. Hitt dæmið er svo Hüsker Dü og það var mjög áhugavert þegar þeir skrifuðu undir hjá Warner Brothers. Mér fannst þetta hið besta mál, af hverju ekki að koma tónlistinni víðar og athugaðu að tónlistin þeirra breyttist ekkert. Þegar Geffen kom til okkar áttum við kost á einhverju öryggi, til dæmis sjúkratryggingum sem er alger hroði að eiga við í Bandaríkjunum. Þetta færðu ekki hjá óháðum útgáfum.“

Nirvana var frábær

Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar dregur Thurston ekki dul á að fólk verður tortryggið, hann þar á meðal. „Vígtennurnar eru teknar úr þér (leikur það fyrir mig í gegnum Zoom). Allt í einu ertu á mála hjá stórfyrirtæki. Það er bara þannig. Og það þykir aldrei kúl! Við fengum eitthvað í gegn (umslagið á Goo (1990) t.d.) en platan er samt á stóru merki. Því fylgir undarleg lykt.“
Blaðamaður skellir upp úr og stemningin er eitthvað svo ljúf að ég veit að ég er kominn með smá skotleyfi.

–Já, þetta segir þú núna Thurston!

„Rólegur (hlær). Ég vissi þetta alveg og mér leið svona þá líka. Og var eins hrokafullur í garð annarra banda og næsti maður. En það rjátlaðist hins vegar af mér fljótlega. Nirvana og Dinosaur Jr. færðu sig á sömu slóðir. Ég var rosalega hrifinn af Bleach (fyrsta hljóðversplata Nirvana) og ég skildi áhyggjur aðdáenda af næstu skrefum. Yrði þetta útvatnað á Geffen? En svo var alls ekki. Nevermind er frábær plata. Einhverjir sögðu: „þeir hafa selt sál sína“ en ég er ósammála. Þvert á móti; hún, við og fleiri gripum þarna tækifæri og komum okkur fyrir innan kerfis sem var ekki beint að hylla jaðartónlist. Þaðan gátum við breitt út boðskapinn í einhverjum skilningi.“

–Lítur þú á Sonic Youth sem trójuhest? Smygluðuð þið ykkur inn, svipað og þegar David Lynch læddi Twin Peaks inn á stofugólf „venjulegs“ fólks?

„Tja… nú veit ég ekki. Ég veit bara að margar hljómsveitir sem komu í kjölfarið á Nirvana heilluðu mig ekki. Ég meina, hversu margar Silverchair þarftu í þitt líf?“ Thurston hlær hátt. Silverchair er ein af fjölmörgum síðgruggssveitum sem riðu öldunni sem Nirvana kom af stað. „Nirvana var alvörudæmi, það var eitthvert „x“ þarna sem erfitt er að heillast ekki af. Og fullt af góðu stöffi á tíunda áratugnum. Royal Trux, Daniel Johnston, Pavement, Sebadoh.

Útgáfan sagði eitt sinn við okkur: „þið gætuð orðið næstu Stone Temple Pilots ef þið viljið,“ og ég sagði nei takk, ég hef ekki minnsta áhuga á að líkjast því bandi. Takk kærlega fyrir!“

Næst spjöllum við um Woodstock 99 og Thurston er hlessa yfir andanum sem þreifst þar, eitraðri karlmennsku og einhvers konar menningarlegu þroti. Ýmislegt fleira er rætt, margt af því get ég ekki sett inn plássins vegna, en ég viðra núna lokaspurninguna fyrir ykkur.

–Ég er hrifinn af því hvernig þú leggur áherslu á einveru en um leið alveg jafn mikla áherslu á samveru og samkennd.

„Já. Við gerum þetta með „a little help from our friends“ (hlær létt, vísandi í Bítlana). Ég var að klára nýju David Bowie-heimildarmyndina og þar talar Bowie mikið um mikilvægi einverunnar. En þarna var um leið maður sem þreifst á samstarfi við ólíkasta fólk.“

Nú erum við Thurston búnir að spjalla saman í 45 mínútur og ég þarf að stoppa hann. „Nú ætla ég að losa þig úr snörunni, Thurston („I will let you off the hook now, Thurston“),“ segi ég og hann hlær við. Ég þakka honum kærlega fyrir spjallið, þetta er ekki alltaf svona gott get ég sagt ykkur, kæru lesendur og hann lýsir yfir ánægju með væntanlega heimsókn, segir langt um liðið.

„Við mætum og verðum í banastuði („on fire“)!“ Og nú gerist dálítið merkilegt. Hálfri sekúndu eftir að Thurston lýsir þessu yfir springur hann úr hlátri. Eins og hann hafi sagt þetta í mjög meðvituðu sjálfsháði, sé bæði að pota í þessa þreyttu línu og jafnvel sjálfan sig um leið, 64 ára gamlan manninn. Hlaðið andartak og eiginlega algjör snilld. Frábær endir á einkar innilegri stund með þessari goðsögn.

Tónleikar Thurstons Moores fara fram sunnudagskvöldið 9. október í Hljómahöll. Miða má nálgast á tix.is.

***

Þrjár frá Thurston

Sonic Youth – Daydream Nation (1988)
Fullkomið jafnvægi á milli grípandi melódía, keyrslurokks og óheflaðrar, afdráttarlausrar tilraunamennsku. Þetta var platan sem færði sveitina upp úr neðanjarðarálmunum og inn í sviðsljós meginstraumsins. Síðasta platan á óháðu merki og sú næsta, Goo (1990), sló tóninn fyrir tíunda áratuginn hvar Sonic Youth-liðar urðu að helstu mektarbokkum „aðgengilegrar“ jaðartónlistar (sjá líka Björk, Beck).

Thurston Moore – Spirit Counsel (2019)
Eftir nægu var að slægjast er ég garfaði eftir helberri tilraunatónlist til að setja hingað inn. Thurston hefur gefið út plötur sem innihalda miskunnarlausa óhljóðalist, lauflétt sumarpopp (svona næstum því!) og allt þar á milli. Þetta þriggja diska box inniheldur löng verk, eitt þeirra sextíu mínútur, en tónlistin sem slík furðu aðgengileg þegar allt er saman tekið. Hér eru grip, laglínur og úthugsuð bygging og ofan á dansar einkennishljómur okkar manns.

Thurston Moore – By the Fire (2020)
Hér er á ferðinni „venjuleg“ rokkplata ef við getum sagt sem svo, Sonic Youth-legt rokk, tilkomið vegna lagasmíðaeinkenna og gítarhljóms höfundar. Hlaðið er í lög sem kæmust hæglega í dagspilun á Rás 2 en innan um eru tilraunakenndari sprettir, eins og í hinu sextán mínútna langa „Locomotives“. Nóg af ískri, látum og gítarviðgjöf („feedback“) frá okkar besta manni!Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: