sigur ros kveikur

[Dómurinn var skrifaður fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 22. maí, 2013]

Á jaxl, við bítum…

 

Sigur Rós – Kveikur

4/5

Sigur Rós (Georg Holm, Jón Þór Birgisson, Orri Páll Dýrason) samdi og upptökustýrði. Hljóðritað í Sundlauginni af Birgi Jóni Birgissyni, honum til aðstoðar var Elisabeth Carlsson. Rich Costey hljóðblandaði ásamt Sigur Rós og Alex Somers.
Sigur Rós (Georg Holm, Jón Þór Birgisson, Orri Páll Dýrason) samdi og upptökustýrði. Hljóðritað í Sundlauginni af Birgi Jóni Birgissyni, honum til aðstoðar var Elisabeth Carlsson. Rich Costey hljóðblandaði ásamt Sigur Rós og Alex Somers. Chris Kasych, Eric Isip og Laura Sisk aðstoðuðu við hljóðblöndun. Eiríkur Orri Ólafsson útsetti blástur og blés ásamt Bergrúnu Snæbjörnsdóttur og Sigrúnu Jónsdóttur. Daníel Bjarnason útsetti strengi, Valgeir Sigurðsson hljóðritaði þá og á þá léku Borgar Magnason, Margrét Árnadóttir, Pálína Árnadóttir, Una Sveinbjarnardóttir og Þórunn Ósk Marinósdóttir. Ted Jenssen hljómjafnaði. XL Recordings gefur út og dreifir. 2013.

Ég er orðinn hundleiður á þessum hippum,“ sagði ónefndur ungur tónlistarmaður við mig að haustlagi 1994. Við vorum staddir í Undirheimum Fjölbrautaskólans í Breiðholti, sem var þá giska vinsæll tónleikastaður er kom að neðanjarðartónleikum, og sá pirraði, sem var að fara að spila þarna um kvöldið, var að vísa í mosfellsku rokksveitina Victory Rose. Tónlistarmaðurinn sem um ræðir var einnig í hljómsveit og það gekk víst ekki þrautalaust hjá meðlimum Victory Rose, síðar Sigur Rós, að hljóðprufa sig. Tafir, eða kannski sú vandvirkni sem átti eftir að einkenna sveitina síðar meir, settu ýmislegt úr skorðum þetta kvöldið. Þegar ég sá svo Jón Þór Birgisson álengdar í fullum skrúða, síðhærðan og skeggjaðan í mussu, glottandi við tönn með gítarinn sinn sem var vandlega skreyttur indjánakögri skildi ég vel hvaðan sá ónefndi var að koma.
Fyrir á að giska tveimur vikum rambaði ég inn á amazon.co.uk og tékkaði á þeim plötum sem voru vinsælastar hvað forsölu varðar. Efst á lista var Kveikur með Sigur Rós. Íslenska hjartað hamaðist, eðlilega.

Vandvirkni hippanna hundleiðinlegu hefur skilað sér svo um munar, svo rækilega reyndar að manni finnst það á köflum ótrúlegt.

Kveikur er nýjasta varðan í þessu ótrúlega ferðalagi rokksveitarinnar mosfellsku sem er aftur orðin að tríói en þannig var uppstillingin í árdaga. Ekki að platan sé einhvers konar afturhvarf til upphafsins vegna þessa, en hún ber þó með sér vissan hráleika og beinskeytni sem var ekki í forgrunni á síðustu plötu t.a.m. Aldeilis ekki reyndar og síðustu tvær plötur, þessi hér og Valtari sem út kom í fyrra eru ágætis dæmi um þá fjölbreytni sem þrífst í Sigur Rósar heimi. Valtari var „stór“ og epísk, eins og mikilúðleg, hægrísandi alda. Áferð þessarar plötu er hins vegar allt öðru vísi, er meira eins og þegar áðurnefnd alda skellur með tilþrifum á berginu. Hér eru meiri læti og ærslagangur, eitthvert „trukk“ sem knýr hana áfram. Ef Valtarinn rúllaði á flaueli stekkur Kveikurinn um á sandpappír.

„Brennisteinn“ setur tóninn fyrir Kveik; bjagaðar, skóglápslegar gítarlínur streyma fram undir hörðum trommuslögum og víruðum raftöktum. Söngrödd Jónsa liggur yfir, í senn ákveðin og tilfinningarík og hann stekkur á milli bassa, tenórs og falsettu eins og að drekka vatn. Lagið er á einhvern furðulegan hátt bæði epískt og hnitmiðað, gengur fullkomlega upp og er eins og sýnidæmi um mátt og megin Sigur Rósar. Þú þarft að vera orðinn sæmilega sjóaður til að geta snarað svona hlutum upp en lagið er líka til marks um að hungrið, ástríðan er þarna ennþá. „Hrafntinna“ tekur þennan bolta svo á lofti, hlykkjast áfram af sömu festu og upphafslagið; skreytt brassi, strengjum og klingjandi, „industrial“ áslætti. Kinnroðalaus keyrsla á upphafsmetrunum!

Þetta er undirtónninn en lögin búa yfir mismunandi blæbrigðum engu að síður. „Yfirborð“ er höfug stemma og sveimkennd á meðan titillagið er nokkurs konar Sigur Rósar pönk. „Rafstraumur“ minnir á poppaðar smíðar eins „Inni í mér syngur vitleysingur“ en næstsíðasta lagið, „Bláþráður“, trukkast áfram af því harðgera listfengi sem einkenndi fyrstu lög plötunnar. „Var“ er svo nokkurs konar útgöngustef en sveitin hefur lokað nokkrum plötum sínum á svipaðan máta.

Þetta er að verða eins og með hina glæstu sveit The Fall. „Alltaf öðruvísi…alltaf eins“. Kveikur er vitnisburður um hljómsveit sem býr enn yfir sköpunarkrafti, er enn að leita en hefur um leið fullkomið vald á þeim tækjum og tólum sem hún hefur verið að skerpa til á síðustu áratugum. Ég kemst núorðið sjaldan í að rita opinberlega um gulldrengina og ætla því að ljúka þessum skrifum með setningu sem ég nota gjarnan um þessa einstöku hljómsveit: Það er engu upp á hana logið.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: