soak
Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 22. ágúst, 2015

Syngdu, unga ástin mín…

• Hin norður-írska SOAK hefur vakið athygli að undanförnu
• Aðeins átján ára en textar og lög á djúpum miðum

Maður kennir óneitanlega til aldursins þegar maður skrifar um tónlistarmann sem fæddur er árið 1997. Þegar Bretapoppið reið röftum og menn voru að tengja sig inn á internetið í fyrsta skipti var SOAK, sem fékk fæðingarnafnið Bridie Monds-Watson, ennþá bara hugmynd hjá foreldrunum. SOAK var aðeins fimmtán ára þegar fyrstu plötur hennar, stuttskífur, komu út og þær náðu fljótlega eyrum almennings og þeirra sem með völdin fara í tónlistarbransanum.

Snemma

Í ársbyrjun 2013 fjallaði Guardian t.a.m. um SOAK sem líklegt ungstirni og boltinn fór að rúlla fremur hratt í kjölfarið. Haustið 2014 setti BBC hana svo á lista yfir „Hljóm ársins 2015“ og þá er þetta meira og minna komið, athyglin sem tónlistarmenn fá í kjölfarið á slíkum úrskurði er iðulega gríðarleg, þó sumir falli reyndar á milli þils og veggjar. SOAK slapp við þau örlög, einfaldlega vegna þess að það er innistæða fyrir lofaustrinum. Tónlistin er lágstemmd og angurvær, melódísk bæði og heillandi. Og textalega séð er hún að fjalla um eitthvað sem skiptir máli. Eitt af elstu lögum hennar fjallar um vin sem var ofsóttur vegna kynhneigðar sinnar en SOAK sjálf kom út úr skápnum snemma á unglingsskeiði og hefur barist opinberlega fyrir réttindum síns fólks, hefur m.a. sagt að Írland og Norður-Írland séu ansi aftarlega á merinni hvað þessa hluti varðar.
Ímynd hennar (stráksleg), söngrödd og lög kalla fram söngkonur frá níunda áratugnum eins og Tracy Chapman, Tanitu Tikaram og Suzanne Vega; þegar útpældir, alvarlegir textar nutu útvarpshylli á einhvern ótrúlegan hátt er manni næst að segja. Sinead O‘Connor og byltingarkennd afstaða hennar til smárra sem stórra hluta svífur um leið yfir vötnum en samtímakonur, eins og hin tungulipra Kate Tempest og jafnvel Lorde eru þarna líka. Söngrödd SOAK er ekki ósvipuð Lorde, þægilega „unglingaleg“, innhverf og letileg, kæruleysisleg en um leið viðkvæmnisleg.

Seint

Eðlilega fer allt á hliðina þegar heimsfrægðin svo gott sem hrífur fólk með sér í einu hendingskasti. SOAK rétt náði að klára grunnskólaprófin en tónlistarnám þurfti að bíða. Hún skrifaði svo undir samning við hina goðsagnakenndu Rough Trade, „litla risann“, eftir að hákarlar frá stóru útgáfunum voru búnir að glefsa í hana í um tvö ár. Fyrsta breiðskífan, Before We Forgot How to Dream, kom svo út í vor og Tommy McLaughlin úr Villagers sá um að snúa tökkum og taka upp.
Þegar gluggað er í viðtöl við SOAK verður maður eiginlega hlessa yfir því að hún sé ekki fyrir löngu búin að tapa því, verandi á viðkvæmum unglingsaldri og í þessari „vél“. Blessunarlega virðist hún nokkuð upplýst um þetta allt saman og gleymum því ekki að saklausir og ennþá hjartahreinir unglingar eru oft og tíðum flugskarpir og lausir við allt „kjaftæði“. Og á þá vegu lýsir hún t.a.m. því hvernig hún nálgast textagerðina: „Orðin koma ósjálfrátt, ég gríp þau og raða þeim upp. Venjulega eru þetta mikið til heiðarlegar játningar og það er líkast til ástæðan fyrir því að fólki hugnast tónlistin. Ég er heiðarleg.“ Íslendingar geta upplifað þetta allt saman sjálfir von bráðar en SOAK treður upp á Airwaves í haust. Sé ykkur þar.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: