Ljósberi Sunna Friðjóns hefur nú gefið út sína aðra plötu

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 20. mars, 2021.

Og það varð ljós

Á Let The Light In fylgir tónskáldið Sunna Friðjóns nokkurn veginn tónspori fyrstu plötu sinnar en breiðir um leið úr sér. Fyrri platan vísaði í eitthvað afgirt og jafnvel erfitt en nú flæða ljósgeislarnir inn…

Fyrsta plata Sunnu, Enclose , kom út í janúar 2018 og slapp einhverra hluta vegna í gegnum net þeirra sem helst fylgjast með útgáfu hér á landi. Góðu heilli „uppgötvaðist“ platan. Næm og natin nútímatónlist, dansandi á mörgum kammerlistar og dægurtónlistar. Síðklassík („post-classical“) þar sem fólk er lítt upptekið af mærum og mörkum en þess þá heldur að knýja fram hrífandi andrúm – sama hvernig það er svo flokkað.

Þegar ég ræddi við Sunnu fyrir u.þ.b. tveimur árum sagði hún mér að hún hefði verið að taka skref inn í heim laga- og tónsmíða, ferli sem hún lýsti sem nokkuð snúnu. „Já sú breyting og ákvörðun var að sjálfsögðu erfið,“ sagði hún mér í grein sem ég vann upp úr spjallinu. „Að byrja að elta draum sem maður hefur alltaf verið hræddur við – semsagt hræddur við að mistakast eða vera ekki nóg – var mjög ógnvekjandi en svo spennandi á sama tíma.“

Þá var hún þegar byrjuð að vinna að annarri plötu, þessari hér. Á henni vinnur hún úr sarpi að einhverju leyti á meðan aðrar smíðar eru nýrri. Fjöldi fólks kemur að spilamennsku en Sunna (píanó og söngur) vinnur náið með þeim Ingva Björgvinssyni (bassar) og Ísidór Jökli Bjarnasyni (slagverk) en saman mynda þau Hljómsveit Sunnu Friðjóns. Aðrir sem koma við sögu eru þær Yara Polana, Agnes Eyja Gunnarsdóttir, Katrín Arndísardóttir, Heiður Lára Bjarnadóttir og Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir sem sjá um strengi, brass og fleira. Albert Finnbogason hljóðblandaði, Sigurdór Guðmundsson hljómjafnaði og Úlfur Alexander Einarsson upptökustýrði.

Enclose er hrífandi verk og sigldi í farvatni klassíkur að mestu leyti þó að krappar og vel til fundnar beygjur væru teknar. Let The Light In er um margt fjölskrúðugari en Sunna sagði í samtali við albumm.is að hana hafi langað í meiri hávaða, meiri kraft og meiri epík. „Minn bakgrunnur er mjög klassískur og eftir að ég gaf út Enclose fór mig virkilega að langa að dýfa tánum út í meira „plug-in“, meira rokk. Á Let the Light in má því heyra trommusett, rafbassa, rafmagnsgítar og syntha sem fylla upp í þetta nýja rými.“

Þetta heyrist t.a.m. afar vel í laginu „Inni í skugganum“ hvar lagt er í hart rokk, nánast þungarokk, í bland við klingjandi töfrapíanó. Minnir dálítið á Eivöru þegar hún hækkar upp í ellefu, t.d. á plötunni Larva og því sem hún hefur verið að gera að undanförnu. Lag þetta er ansi haganlega samið. Kaflar eru margir og mismunandi en jafnvægið er gott. En svo er hér dimma og djúp, t.d. í „Momentum I“ og „Momentum II“, ógnandi stilla sem er áhrifarík en Sunnu er leikið að búa til vissa stemningu og andblæ. Það er eitthvað norrænt við þetta líka, því er ekki að neita. Sá andi leikur t.d. um umslagið en einnig á milli hljóðrásanna. Titillagið er einslags ballaða, dramatískt og „stórt“ og sama má segja um lokalagið, „Melt“, hvar særingarþula umbreytist smátt og smátt í áhrifaríka smíð af rokkkyni. Eigindi plötunnar allrar kjarnast eiginlega í þessum lokahnykk.

Ég hef virkilega notið þess að hlusta á þessar tvær plötur Sunnu. Hún býr yfir hæfileikum sem hún ræktar vonandi áfram á næstu árum. Það borgar sig að elta drauma sína …

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: