Magnað Eilíf sjálfsfróun fór á miklum kostum. Ljósmynd/Brynjar Gunnarsson.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 27. maí, 2021.

Máttur Músíktilrauna

Hér fara stuttar umsagnir um allt það listafólk sem atti kappi á undanúrslitakvöldum Músíktilrauna þetta árið. Kvöldin fóru fram í Hörpu dagana 22.-25. maí.

Hún var ósvikin, gleðin sem fylgdi því að geta loks numið kraftinn og sköpunargleðina í grasrót íslenskrar tónlistar eins og hún birtist á hinum dásamlegu Músíktilraunum. Hefst nú yfirferð.

1. kvöld
Grafnár opnaði Tilraunirnar með bylmings-harðkjarnarokki, keyrslan ógurleg og allt sett í botn. Svona á að byrja þetta! Þétt spilamennska, geggjaður söngur hjá Hrafnsunnu og lagasmíðar lunknar. Engu að síður var þessi tiltekna framkoma sveitarinnar eilítið flöt. Hvað því olli er erfitt að segja til um. Fyrsta band á svið eða bara eðlilegt stress? Hin fjölskipaða Keikó lék órætt popp og var fyrsta lagið heldur brösótt og einkennalaust. Síðara lagið var betra og bjó yfir meiri dýpt. Það er eitthvað að gerjast þarna en reynsluleysið er enn hamlandi, eðlilega. Það vantaði ekki öryggið í hinn sextán ára gamla Konráð Óskar sem leiddi fjöldasöng eins og íslensk útgáfa af Ed Sheeran. Tónlistin sem slík þó temmilega meinlaus, í hefðbundnum söngvaskáldagír. Fógeti mætti sömuleiðis svellkaldur á sviðið, í slagtogi við bassaleikara sem hann kallaði „ukulele-spilarann“ sinn. Sjálfur lék hann á rafgítar og rappaði og söng. Fógeti hafði mikið að segja og gefa og reiddi það fram með nokkuð glúrinni tónlist sem mætti lýsa sem ástríðufullu og nett tilraunakenndu narðapopprokki. Fógeti hikaði ekki og það fleytti honum langt. Hin keflvíska DEMO lagði sig eftir dramatísku leikvangarokki að hætti Coldplay og Valdimars sem er samt ekki mikið meira en fokhelt á þessu stigi málsins. Innlifunin á sviði var hins vegar ósvikin og sérstaklega átti gítarleikarinn Sigurður stórleik í þeim efnum. Tær er ansi efnileg sveit en eins og með marga þátttakendur er hún tiltölulega stutt á veg komin samhristingslega séð. Kammerpopp sem minnti á Hjaltalín, brassið hugvitsamlegt og ef liðsmenn leyfa þessu að marinerast áfram er aldrei að vita nema þróunin verði farsæl. Hin kornunga Continue lék gegnheilt Músíktilraunarokk, þ.e. einfalt þriggja gripa rokk beinustu leið út úr bílskúrnum. Það er í raun lítið hægt að segja á þessu stigi málsins, sveitin er greinilega enn að fóta sig og lítið var um sérkenni eða sérstaka spretti (nema þegar trommarinn kom inn í bakrödd í seinna laginu, það var smekklega af hendi leyst). Rós er dúett þar sem Melkorka Rós Hjartardóttir sér um söng. Frábær söngkona og sýndi hún það svo um munaði. Lagasmíðarnar fremur hefðbundnar þó og studdu ekki nægilega við glæsisönginn. Little Menace lokaði svo þessu fyrsta undanúrslitakvöldi. Á borð var borið einslags sveitaballaþungarokk sem mátti hafa nokkuð gaman af. Síðara lagið var stórskemmtilegt, líkt og Mini-Pops hefði ákveðið að henda í Killing Joke-lag. Bassaleikarinn setti þá upp gasgrímu, borginmannlegur, og það stafaði sérkennilegur sjarmi af þessu öllu saman. Betur má þó ef duga skal og ef tekið er tillit til þess að sveitin er búin að vera starfandi í þrjú ár er ekki óvitlaust að ganga að teikniborðinu á nýjan leik. Salur valdi síðan Keikó áfram en dómnefnd veitti Fógeta brautargengi.

2. kvöld
Piparkorn hóf leika, djassbundin sveit og fjölskipuð. Samspil var með miklum ágætum og fyrsta lagið vel hugsað þar sem það reis upp hægt og rólega. Sveitir af þessum toga missa sig oft út í hljóðfærafimleika og á því bar að einhverju leyti. En mest var samt verið að leita að kjarna sjálfrar smíðinnar/lagsins, umleitun sem er merki um tónlistarlegan þroska. Piparkorn er á réttri og góðri leið. Hljómsveitin Rúnar Breki (!) minnti á losaralega útgáfu af Red Hot Chili Peppers í fyrsta laginu. Rapp og fönksprettir en framvindan undarlega óþétt. Seinna lagið var þá einslags sumarpönk með Botnleðjuívafi. Rúnar sjálfur var staffírugur í stafni en tónlistin, eins og ég lýsi, óþægilega upp um alla veggi. Krownest er firnaþétt þungarokkssveit og keyrði af eftirtektaverðu afli í gegnum fyrsta lagið. Lagasmíðar voru í senn bæði hugmyndaríkar og stefnulausar, þannig var annað lagið til muna síðra og riff og pælingar í súpu sem á eftir að þykkja til muna. En þarna er vissulega einhver neisti, eitthvað til að vinna með. Aria kom ein fram með rafgítar og rödd. Söngröddin var góð og textarnir með tíunda áratugar angistarblæ. Lögin voru þó heldur ófrumleg og gítarspil dálítið stíft á köflum. En ég kalla hana góða að hella svona úr hjartanu fyrir fullum sal. Límbandið var mikið flipparaband og meira gjörningur en hljómsveit. Forsöngvarinn var öruggur og sjarmerandi en gamanið kárnaði því miður með hverri mínútu, var farið að minna á skets úr árshátíðarmyndbandi einhvers menntaskólans undir rest.
The Parasols tók þátt sem Parasol árið 2019, vakti verðskuldaða athygli og fór alla leið í úrslit. Tónlistin óræð indítónlist, ýmislegt í hana spunnið og söngvarinn Tómas Árni með sterka nærveru. Ég varð því dulítið hissa yfir fyrsta laginu sem var einkennilega flatt og óspennandi. Djúsinn fór þó sem betur fer að flæða í seinna laginu, meiri broddur, meiri spenna og meiri sköpun. 7.9.13 kemur frá Akureyri, prúðmannleg og vel æfð eins og oft er raunin með sveitir þaðan. Tónlistin sérkennalaust popprokk, fyrra lagið í þynnra lagi og sama má í raun segja um það síðara, hvar þéttleiki í framfærslu hefði mátt vera mun meiri. Særún söngkona gerði þó vel í framlínunni, hélt þessu vel saman og býr yfir útgeislun sem vel er hægt að vinna með. Buttercups er strípaður dúett, píanó og söngrödd og Sóley söngkona beraði sálu sína fyrir stútfullum sal líkt og Aria hafði gert áður. Hetjulega gert og hún gekkst skemmtilega við kæfandi stressinu. Ég hrósa Sóleyju fyrir að standa keik en lögin runnu engu að síður heldur stirðlega verður að segjast. Hitt ber á að líta að dúettinn hefur bara verið starfandi í mánuð og því meira en nóg rými til bætingar. Tötrar brúkuðu m.a. melódíku í lauslegum, djassskotnum spuna hvar Canterbury-senan og áttunda áratugar geimdjass flugu í gegnum höfuðið. Súrir og nokk skemmtilegir sprettir skutu upp kolli en mestanpartinn var þetta heldur „töturslegt“ djamm, líkt og okkur hefði verið varpað inn á óundirbúna æfingu. Sleem rokkaði vel og vísaði skemmtilega í ýmsar fornfálegar áttir; Hawkwind, eðjurokk („sludge“), grugg, eyðimerkur- og „stoner“-rokk. Framreiðslan býsna góð, kraftmikill söngur, skemmtilegur hljóðgervill og heilt yfir nokkuð þétt. Bandið fór þó nánast út af teinunum í seinna laginu sem var vel ófókuserað, lagakaflar á tvist og bast. Oddweird lauk kvöldinu skemmtilega. Mér leið eins og ég væri að horfa á tékkneska kvikmynd um tvo víraða, snarbrjálaða vísindamenn sem leggja sig eftir því að dirka upp ýmis furðuhljóð. Flippið keyrði hins vegar um þverbak undir rest, tónlistin tók sér stöðu baksviðs mætti segja og betri og úthugsaðri samfléttun á tónlist og leik hefði verið ákjósanleg. Áhorfendur kusu svo Límbandið áfram en dómnefnd ákvað að senda Krownest í úrslit.

3. kvöld
Dopamine Machine rúllaði kvöldinu af stað með djassskotnu poppi undir sterkum áhrifum frá Moses Hightower (einkum sönglega séð). Skólagengið fólk og samspil með ágætum þó að rennsli kvöldsins væri með eilitlum losarabrag. Seinna lagið var betra og endaði á glúrinni skrumskælingu. Ælupestó lék „hreint og beint“ pönk og heyra mátti í sveitum eins og Rass og Blóðmör. Kraftmikið vissulega en heilt yfir var þetta þó lítt sannfærandi, aðeins of mikið flipp og aðeins of lítill fókus. Ólafur Kram var hreint út sagt framúrskarandi. Risaeðlan, Grýlurnar og Slits svifu yfir vötnum þar sem stúlkurnar sem bandið skipa (ásamt Sævari Andra trommara) léku frumlega, ástríðufulla og leitandi tónlist á samhentan og hrífandi hátt. Iðunn Gígja, hljómborðsleikari og söngkona, fór hamförum! YoYo69 er eitt af þeim fjölmörgu verkefnum sem Eli Frost Ara kemur nálægt þetta árið. Ég tek ofan fyrir viðleitni hans til að skekja kerfið aðeins, ýta á takka og keyra hluti fram af hengiflugi. Hann spilar á allt, og spilar allt, oft í dásamlegri óreiðu. YoYo69 var einmitt vettvangur fyrir slíkt, opin og hömlulaus sköpun.
Eilíf sjálfsfróun átti firnagóða innkomu árið 2019 en tók það allt saman á næsta stig núna. Það var þrælskemmtilegt að fylgjast með atinu sem boðið var upp á og Halldór Ívar forsöngvari fór gjörsamlega á kostum. Drengurinn er náttúrubarn þegar kemur að leikrænum tilþrifum í söng og sprelli og salurinn tókst hreinlega á loft undir gríðarlega skemmtilegu og vel útfærðu „setti“ þeirra pilta. Úthugsað, þaulæft og metnaðarfullt í hvívetna. Karma Brigade hefur sett mark sitt á Tilraunirnar undanfarin ár og iðulega farið í úrslitin. Fyrra lagið var nokkuð vel uppbyggt útvarpspopp með bandarísku sniði á meðan síðara lagið, sem reyndi sig við epíska uppbyggingu, féll flatt. Salamandra lék sér með hæggengt og dramatískt „goth“, minnti eilítið á Kæluna miklu. Gott flæði í fyrra laginu og Salóme söngkona gerði vel í seiðandi dansi. Seinna lagið var í svipuðum gír en kannski helst til yfirdrifið og langt. En efnilegt er það. Sauðkrækingurinn Atli kom einn fram með gítar og lykkjuvél („loopstation“). Fyrra lagið ámátleg Ed Sheeran-ballaða en gítarspil gott. Seinna lagið, hvar tónlykkjurnar fóru á fullt, var mjög flott og mikil stemning myndaðist í salnum. Það er meira en vert að fylgjast með pilti á næstu misserum. Laminar Flow kom örugg til leiks og mikil stemning í bandinu. Tónlistin tónaði því miður ekki við hressleikann á sviðinu, órætt popprokk eins og ég kalla það stundum og lítið að frétta í einstökum lögum. Cosmic Onion hljómaði dálítið eins og sveitarheitið gefur til kynna. Gott, hippískt „grúv“ á köflum en það vantaði alveg heildarhugsunina í lögin. Eins og góðum brotum hefði verið slengt einhvern veginn saman og svo vonast eftir því besta. Liðsmenn sjarmerandi og vel klæddir en það er því miður ekki nóg. Áðurnefndur Eli Frost lamdi húðir í Ballados sem lék vírað indírokk. Fyrra lagið heldur ódýrt en seinna lagið innihélt nokkurs konar kúrekaflipp og það mátti alveg heyra sniðugar hugmyndir krauma þar undir. Að öðru leyti virtist sveitin vera nokkuð skammt á veg komin. Dóra og döðlurnar lokuðu kvöldinu, dásamlegt band skipað 15 ára stúlkum að mestu. Það var augnablik kvöldsins er Bára Katrín, söngvari og gítarleikari, hvíslaði eitursvöl: „Let‘s rock this shit…“ Bandið var að koma fram í þriðja sinn og stóð sig frábærlega. Tónlistin fremur hefðbundið dramapopp en þetta var vel æft, samsöngurinn flottur og lögunum tveimur skilað með miklum bravúr. Salur léði síðan Eilífri sjálfsfróun flest sín atkvæði á meðan dómnefnd lagði blessun sína yfir Ólaf Kram.

4. kvöld
Indísveitin Kisimja opnaði þetta lokakvöld með býsna sannfærandi hætti. Meðlimir samstilltir í fatavali og söngvarinn minnti nokkuð á Brian Molko úr Placebo. Nokk svalir bara. Það var ýmislegt með bandinu, söngur flottur að mestu (sleppa öskrunum samt) og pælinga vart í lagasmíðum. Alls ekki vitlaust að slípa þennan stein aðeins áfram. Laugvetnska sveitin El Royalé lék nokkurs konar Suðurlandsþungarokk sem var því miður ekki upp á marga fiska. Lögin hálfköruð, hljómur vondur og þéttleika ábótavant. Bakraddasöngkonur fengu að skína síðustu tvær mínúturnar eða svo en hefðu mátt kom mun fyrr inn, þó ekki væri nema til að brjóta aðeins upp stirðbusalegt flæðið. Ólafur kom einn fram með gítar og lék fremur hefðbundna söngvaskáldatónlist. Fyrra lagið hresst, hið síðara ballaða og Ólafur gat vel mundað gítarinn. Lítið var um sérkenni í smíðunum en gefum Ólafi tíma, þetta var frumraun hans á sviði. Jengah átti nokkuð merkilegt innslag. Í raun eitt langt lag, „ambient“ smíð með vísunum í síð- og súrkálsrokk. Naumhyggjulegt, eintóna flæði og dálítið hugleiðslu- og kvikmyndalegt eins og meðlimir lýstu sjálfir. Ýmis hljóðfæri brúkuð, m.a. „Hang“. Þetta var vel útfært að langmestu leyti og bara giska vel heppnað. Það kemur ýmislegt upp á í Músíktilraunum og þannig mætti eingöngu Sindri úr dúettinum Sindri & Andri. Hann lét það ekki slá sig út af laginu, gekk brattur inn á svið og lék á gítar og hljómborð auk þess að syngja en Andri, sá er lét ekki sjá sig, er aðalsöngvarinn! Tónlistin miðja vegu á milli Mac DeMarco og Prins Póló og alveg ágæt sem slík. Þrautseigjuverðlaun Músíktilrauna, væru þau til, fara skuldlaust til Sindra. Æsa er skipuð fimm stúlkum úr FÍH og MÍT og stofnað var til sveitarinnar í kófinu. Stúlkurnar komu vel fyrir, voru öruggar en lögin sem slík voru ekki beinlínis að gera sig, voru sérkennilega tómleg eitthvað. Mér sýnist mannskapurinn vera til staðar en það þyrfti aðeins að líta betur til með þessum þætti. Sé miðað við nafnið hélt ég að Skullcrusher myndi rífa þakið af húsinu með grimmdarlegu dauðarokki og geitaslátrun á sviði. Tónlistin var hins vegar meira út í hreint pönk, hrátt bæði og skítugt. Ekkert að því og sú áferð kostur ef eitthvað er en sjálf spilamennskan var í óþéttara lagi og lagasmíðarnar lítt sannfærandi. Fjórir sveitastrákar fengu mann hreinlega til að standa á gati. Lögin voru svo gott sem fullkomlega stefnulaus og eiginlega ósamin, ef ég má orða það sem svo. Jú, ég heyrði smá djass, smá indí, gott og vel. En þetta var svo ómótað að það er í raun lítið um þessa einstöku framfærslu að segja. Ingo is an artist er efnisstúlka, hvar hún söng og lék á gítar. Ætli það hafi ekki verið stress sem flatti fyrsta lagið dálítið út en seinna lagið var hins vegar framúrskarandi, í raun besta lag kvöldsins, og einkar fallega sungið. Það vantaði tilfinnanlegan hnykk í þetta tiltekna gigg Ingo is an artist en um leið greindi maður að það verður vel þess virði að fylgjast með henni í framtíðinni. Mersier kom ágætlega fyrir, lék melódískt þungarokk með vísanir í þrass og NWOBHM. Söngur ágætur, minnti dálítið á Stefán Hilmarsson á yngri árum (!) en spilamennska bæði losaraleg og gruggug sem var ekki til hagsbóta. Benedikt færði okkur tandurhreint popp. Var með undirspil á símanum sínum (er söngvari og upptökustjórnandi) og tónlistin skammlaust og haganlega samið epískt popp, á köflum í hálfgerðum Eurovision-gír. Benedikt bar sig vel á sviðinu og fylgdi sínu eftir kinnroðalaust, með ástríðu og sannfæringu í fullum botni. Vel af hendi leyst og hressandi. Merkúr frá Vestmannaeyjum endaði kvöldið og þar með undanúrslitin í heild sinni. Merkúr er skemmtileg hljómsveit, tónlist vel þungt þungarokk með riffakássu og öskurbrjálæði í hárréttum skömmtum. Fyrra lagið var einkar þétt og öflugt en seinna lagið var hins vegar heldur þunglamalegt og langdregið. Fóru leikar svo þannig að Æsa fór áfram á sal en dómnefnd stillti fram Jengah. Auk þess þótti dómnefnd fernt frá fyrri kvöldum eiga erindi í úrslit. Grafnár, Piparkorn, Dóra og döðlurnar og Benjamín. Sigurvegari Músíktilrauna verður síðan valinn nú á laugardaginn.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: