indridi-promomynd

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 29. október, 2016

Í draumrofi

Indriði Arnar Ingólfsson hefur gefið út sólóplötu undir nafninu Indriði. Hann hefur helst verið þekktur sem einn meðlima öfgarokkssveitarinnar Muck en færir sig hér inn á nokk tilraunakenndara svið.

Tildrög þessarar plötu eru athyglisverð. Indriði, sem hefur verið giska áberandi í tilraunasenu landsins; leikið með jaðarbundnum, hörðum rokksveitum (Muck, The Heavy Experience) en einnig tilraunatónlistarfólki á borð við Úlf Hansson og Jófríði Ákadóttur ákvað að vinna verkið utan Íslands, einfaldlega vegna þess að hann var orðinn þreyttur á landi elds og ísa (trúið mér, það er gott að fara aðeins í burtu stundum). Hugmyndin fæddist fyrir þremur árum er hann og Kristín Anna Valtýsdóttir unnu verk fyrir innsetningu í New York. Það haust sneri Indriði aftur og kom sér fyrir í sveitinni norðan við New York. Þar lagðist hann í upptökur ásamt vinum sínum, þeim Aaron Roche og Alexöndru Drewchin. Ferlið tók tíu daga en vinirnir fóru auk þess í göngutúra, máluðu og spjölluðu. Upptökur voru viljandi hráar, menn voru að læra á græjurnar meðfram lotunni og Indriði var þá að syngja í fyrsta skipti en hann hafði fram að því lagt til öskur í nefndum þungaböndum. Stefnt var að því að fanga augnablik, töfra, frekar en að vinna í efninu fram og aftur. Lögin samin á gítar og ein taka látin nægja, þrýst á upptökuhnapp einhvern tíma eftir miðnætti, og það skynsamlega kæruleysislega. Einum hljóðnema var meira að segja beint út um gluggann til að leyfa náttúrunni að syngja með.

Og platan ber þessa merki, svo sannarlega. Það er þægilegur hangsarablær yfir og listamenn eins og Kurt Vile og Mac DeMarco koma upp í hugann. Makril, eins og platan nefnist, hljómar eiginlega eins og ef Captain Beefheart hefði komist í að stýra upptökum hjá þeim herramönnum, tónlist Indriða er áhlýðileg eins og þeirra en um leið mun súrari og hendist óforvarandis í óvæntar áttir. „Dreamcat“ þyldi t.d. dagspilun í útvarpi; það er hæfilega flippað en hæfilega grípandi, er á þessu rófi sem meistarar eins og Beck og Mugison starfa á. Flippað jafnvægi!? Draumakötturinn hefur röltið sitt rólega, rafgítar er strömmaður á fremur einfaldan hátt en er á líður fer vitleysan á stjá, lagið endar t.a.m. í brass-orgíu. „Paradisa“ er í svipuðum gítarströmmgír og Indriði togar og teygir ónotuðu söngröddina sína skemmtilega.

„Guitarplay“ brýtur flæðið upp, „ambient“-leg, ósungin stemma en á „Djésenda“ hefst hrátt gítarpikk að nýju og upptakan er „skítug“, alls kyns hljóð fljóta inn og út úr rásunum. Svo má telja, „Apar“ gerir út á gítarlykkju og styðst við ókennilegan rytma, sérstakt en á undarlegan hátt þægilegt – eitthvað sem lýsir plötunni sem heild vel.

Mér finnst þetta flott stöff hjá Indriða. Efnið kom mér dálítið á óvart. Ég átti allt eins von á því að hann færi út í brjáluð þyngsli eða taumlausa geðveiki. Þess í stað fáum við nokkurs konar trúbadúraplötu sem er yndislega á skakk og skjön við formið. Vel gert.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: