Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 7. janúar, 2023.

Ár íslensku tónlistarkonunnar

Óhemju sterkt ár er um garð gengið í íslenskri tónlist ef framlag kvenfólks er tekið sérstaklega út fyrir sviga. Er það vel.

Ég stal þessari fyrirsögn kinnroðalaust frá RÚV, úr grein þaðan sem fjallar um íslenskt tónlistarár, enda kokkaði ég hana upp sjálfur með menningarvefritstjóranum þar á hlaupum og það í gegnum Messenger „audio-call“ (já, maður elskar adrenalínið þegar maður vinnur við blaðamennsku).

En nóg um það! Mig langaði til að nota þessi fyrstu skrif ársins í að horfa yfir síðasta ár með estrógen í eyrum, líta sérstaklega til þeirra platna sem tónlistarkonur gáfu út. Ég hef hamrað á því í ræðu og riti að vettvangurinn sé allt þegar kemur að því að styðja við þessa tilteknu efnisframleiðslu, saman með athygli, bakklappi og hvetjandi umræðu. Með því að hjálpast að við að búa til skaplegar aðstæður til tónlistarútgáfu úr þessum ranni getur þetta svið blómstrað meira og þessir hlutir orðið sjálfbærir, vonandi, með tíð og tíma. Að ganga til verka, hamra út „ófullkomin“ verk og taka plássið skammlaust og án afsakana er algert lykilatriði. Og svei mér þá, árið 2022 var bara skratti gjöfult verður að segjast. Eru hlutirnir að þróast í aðeins hagstæðari áttir eftir allt saman?

Það var bara ekki fjöldinn sem vakti hjá mér kátínu, heldur voru fjölskrúðugheit til staðar líka. En stærstu fréttirnar þetta árið voru líka einfaldlega frá konum. „Sigurvegari“ ársins að mínu mati er Una Torfa, mér finnst önnur plata gugusar, 12:48 , ein best heppnaða „önnur plata“ listakonu sem ég hef heyrt og KUSK, Kolbrún Óskarsdóttir, sigurvegari Músíktilrauna, lét kné fylgja kviði glæsilega og snaraði út sannfærandi frumburði í líki plötunnar Skvaldur . Þessu tengt áttu þær Árný Margrét og Laufey „stærstu“ útspil ársins og spennandi verður að sjá hvernig þessum frábæru – en ólíku – listakonum á eftir að reiða af á árinu.

Og fáir geirar voru látnir í friði. Sjá t.d. djassinn. Á síðasta ári voru Stína Ágústs, Marína Ósk, Rebekka Blöndal, Anna Sóley, Kjass og Silva Þórðardóttir (ásamt Steingrími Teague) með plötur. Silva og Steingrímur hafa gert það virkilega gott á lagaspottum streymisveitna og Marína og Rebekka ómuðu títt á öldum ljósvakans. Klassíkin var og sterk. Umbra hin æðislega átti Bjargrúnir í sumar, Halla Steinunn Stefánsdóttir gaf út stórt og mikilúðlegt verk ( Strengur ) og Víddir eftir Báru mína Gísla kom út, upptaka úr Hallgrímskirkju, plata ársins í fyrra að mínu mati.

Móðins, glerhart r og b? Og með því? Brynja, Fríd, Lexzi, MariaLing, Siggy og Tara Mobee voru allar með plötur, langar sem stuttar, að ógleymdum meistara þessarar nálgunar, Unu Schram. Viltu eitthvað aðeins skældara og skrítnara? Deiliplata frá Rakel, ZAAR og Salóme Katrínu var vel þegin, eins og ofurpoppið/nætur­teknóið frá Ronju og þeremínsnilld Heklu. Lilja María Ásmundsdóttir gerði þá og vel ásamt hinum portúgalska Ines Zinho Pinheiro (platan/verkið kallast Internal Human ) og plata siggi0lafsson (Berglind Ágústsdóttir) er frábær. Stefanía Pálsdóttir átti þá feikisterkan frumburð, Monstermilk , og svo drottning þessarar tónlistar og drottning okkar allra auðvitað, Björk. Höfum það á hreinu, Fossora er algerlega framúrskarandi verk á alla lund. Efnilegar listakonur, Áslaug Dungal og Iðunn Einars, komu og á óvart með sínum fyrstu verkum. Reynsluboltar eins og Elíza Newman, Lára Rúnarsdóttir og Markéta Irglová létu þá ekki sitt eftir liggja.

Mitt allra uppáhalds „hvaðan kom þetta?“ á síðasta ári er hin frábærlega skemmtilega Lipstick On eftir Fríðu Dís og ég verð líka að nefna grallarana í The Boob Sweat Gang. Ég minni líka á að tvö kvikmyndaskor eftir Hildi Guðna eru komin út ( TÁR og Women Talking ) og enn ein Óskarsverðlaunatilnefningin meira en möguleg.

Þessi útlistun er langt í frá tæmandi, gleðilegt að geta sagt frá því, og einhverju gleymdi ég alveg ábyggilega. Það er pottþétt. Svo ég taki eigið meðal og stundi það sem ég hvet til, þessi pistill er ekki fullkominn, er eins góður og banastikan leyfir mér, en hér er hann! Alveg eins og þessi tónlist sem listakonurnar ryðja blessunarlega unnvörpum frá sér og vefja með því lýð og láð bæði farsældum og hljómaflóði.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: