Beyonce

 

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 21. desember, 2013]

Hin ótrúlega Beyoncé

• Fimmta plata Beyoncé er við það að slá öll sölumet
• Alvöru popp bundið heilmikilli hugmyndafræði

Það er ekki einfalt að vera stórpoppari í dag. Jú, það er til heilalaust popp sem er spýtt út af færiböndum án nokkurrar natni eða yfirlegu. En svo erum við með hluti eins Kanye West, Daft Punk og Lady Gaga; popplistamenn sem eru að kikna undan þunga póstmódernískra tilvísana og falinna skilaboða og vangaveltum um stöðu samfélagsins. Þessar áherslur eru sjálfsmeðvitaðar en svo stökkva gagnrýnendur og menningarvitar líka á þessa listamenn og toga þetta upp úr þeim – með eða án samþykkis! Beyoncé smellpassar í þennan flokk og hún á það sammerkt með áðurnefndum aðilum að auk þess að bera með sér slíka vigt þá selst tónlistin eins og sjóðandi heitar, póststrúktúralískar lummur. Eins og ég segi, þetta er ekki einfalt. Popp er ekki lengur „bara popp“. Þegar Bítlarnir komu fram á sínum tíma var þetta bara garg í eyrum fræði- og menningarelítunnar en nú líður vart sú vika að ekki komi út bók þar sem sú eðla sveit er krufin í öreindir.

Óforvarandis

En hægan. Við skulum ekki týna okkur í hausaklórshítinni alveg strax. Förum aðeins í staðreyndir málsins og tildrög pistilsins. Beyoncé, sem hefur um árabil verið ein vinsælasta poppstjarna heims, gaf fimmtu plötu sína út óforvarandis þann 13. desember síðastliðinn. Platan, sem er samnefnd söngkonunni, var aðeins til í stafrænu formi fram til gærdagsins og aðeins var hægt að nálgast hana í gegnum iTunes. Engu að síður hefur platan nú selst í yfir milljón eintökum á heimsvísu og engin plata hefur selst jafn hratt í sögu fyrirtækisins. Hugsið ykkur, og engin áþreifanleg eintök til staðar (þau fóru í búðir fyrst í gær). Nú hafa allar plötur Beyoncé frá upphafi hafnað beint í fyrsta sæti bandaríska Billboard-listans og er hún fyrsta konan sem nær þeim árangri. Og svo má telja. Allur þessi árangur hafðist án smáskífna og án hæggengrar upphitunar að hætti Daft Punk t.a.m.
Platan er fjórtán laga og eru myndbönd við þau öll (myndböndin eru reyndar alls sautján talsins). Upptökur hófust með mikilli leynd árið 2012 en við sögu koma m.a. Timbaland og Pharell Williams. Tónlistin þykir ögn tilraunakenndari og losaralegri en heyra má á fyrri plötum Beyoncé og í textum tekst hún m.a. á við fegurðarímyndir, móðureðlið og hugmyndir um kynveruna; allt saman með síðfemínismann sem hún hefur verið kennd við að vopni. Þetta er svo undirstrikað með myndböndunum sem voru tekin upp um heim allan og lögðu leikstjórar á borð við Jonas Åkerlund og Hype Williams gjörva hönd á plóg en einnig á hinn umdeildi Terry Richardson eitt myndband. Skemmst frá að segja hefur platan verið ausin lofi og til að gefa eitt dæmi lýsir Kitty Empire hjá Guardian því að Beyoncé hafi skotið samkeppnisaðilum eins og Lady Gaga, Katy Perry og Miley Cyrus rækilega ref fyrir rass með plötu sem beinlínis geisli af öryggi þess sem viti upp á hár hvað hann vilji og einnig hvernig beri að ná því fram. Beyoncé heyrist síðan segja í laginu „Haunted“, líklega til marks um sérkennilegheit útgáfunnar og til að styðja við heilindi hennar sem listamanns: „Soul not for sale. Probably won’t make no money off this. Oh well.“ Allt í lagi, ég get vel stutt þig í listamannsdæminu Beyoncé, en ég veit að þú ert ekki vitlaus. Þú vissir vel að platan myndi seljast og það vel. Þú gabbar engan hérna.

Ósamræmi

Þessi þversögn sem ég nefndi hér á undan er ein af mörgum sem lita plötuna. Og sitt sýnist hverjum. Ég gerði það að leik mínum að inna álits á Fésbókinni og ég held að ég hafi aldrei fengið viðlíka viðbrögð og jafn ólík. Sumir afskrifuðu söngkonuna sem drasl í einu orði á meðan aðrir héldu djúpvitrar, fræðilegar tölur um mikilvægi hennar í popplandslagi samtímans. Ólíkt Bítlunum eru Beyoncé og hennar líkar krufin í öreindir um leið, þökk sé miklu og öru aðgengi að miðlum hvers konar í dag.
Beyoncé er því umdeild. Til eru femínistar sem fagna henni og aðrir slíkir sem níða hana niður. Eins og snillinga er von og vísa er örðugt að sjá nákvæmlega fyrir hvað hún stendur – og er hún kannski að storka fólki meðvitað með háttsemi sem er í hrópandi ósamræmi, til þess eins að fá það til að hugsa? Eða er ég að ætla henni of mikið hérna? Á dögunum mætti hún t.d. í loðkápu á „vegan“-veitingastað og eðlilega má spyrja, er hægt að gagnrýna útjaskaðar staðalímyndir kvenna en hagnýta þær um leið? Ég er því miður búinn með plássið í bili, en persónulega finnst mér dásamlegt að geta varla hætt að skrifa um jafn „ódýran“ hlut og popp. Beyoncé er að hjálpa mér í krossferðinni löngu, baráttunni fyrir því að dægurtónlist eigi skilið pláss, virðingu og vangaveltur eins og hvert annað mannanna verk. Ég ætla líka að taka afstöðu hér í bláendann og segja að hvað þessa konu varðar hef ég verið „crazy in love“ frá degi eitt.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: