Skrifað upprunalega á FB 21. sept. Viðbættur texti og uppfærsla 9. okt.

Fór með frumburðinum á Birni í Laugardalshöll og skemmti mér vel. Þetta var einkar tilkomumikið verður að segjast. Gólfið stappfullt og upp í rjáfur og allir í megafíling. Ég tók meira að segja „rappspor“ sem dóttirin myndritaði hlæjandi. Áður en stjarnan sjálf steig á svið var landslið rappara á sviðinu, dælandi út slögurum hægri vinstri. Daniil, Flóni, Geisha Cartel, Alaska1867, Sturla Atlas, Logi Pedro og fleiri og fleiri. Joey Christ stýrði öllu eins og herforingi, MC kvöldsins. Og mikið gladdist ég að sjá minn mann, Sturlu Atlas, „the man who would be king!“

Þetta er hægt, Birnir kom á svið eins og sá sem valdið hefur og er auk þess með valdið. Það þarf líka að klæða viðburðinn upp þannig, að þetta sé eins og krýning eða „second coming“ og það var gert með ljósasjói, framstillingu, rennsli og tempói. Þessu var leikstýrt og leikstýrt vel. Algerlega hárrétt blanda af dramatískri opnunartónlist, myndskeiðum og myndum og gestum skemmt með epískum anda ef svo mætti segja. Við vorum í Laugardalshöll en hún var „Wembley“-uð ef svo mætti segja.

Birnir (kallaður Elvis af einum ungum aðdáanda veit ég) er með svona svala, nett fjarlæga áru. Það er ekkert gösl eða grall, bara „ég er með þetta“ andi sem er uppfullur af öryggi. Gestir komu á sviðið en annars voru þeir bara tveir á sviðinu. Og það er meira en að segja það að halda fólki á tánum þegar fyrirkomulagið er þannig en Birnir gerði það. Íslenska rappsenan hefur farið upp og niður síðan að seinni bylgjan hófst árið 2015. Þetta er ekki lengur lítil sena með brjáluðum broddi, rappið er löngu orðið hluti af meginstraumnum og í dag eru þeir tiltölulega fáir sem tróna.

Birnir og hans fólk er að keyra þetta af festu og sviðsljósinu er haldið með glæstum vínylútgáfum m.a., stórgóðri tónlist og svo viðburðum eins og þessum. Hlakka til næsta útspils, það er spennandi að fylgjast með þessum vendingum öllum. Gleymum því þá ekki að tónlistin er alltaf á endanum grunnurinn og allar þrjár plötur Birnis til þessa hafa verið sterkar, mikill stígandi, og sú nýjasta, Dyrnar, sú gerðarlegasta án efa, bæði innihaldslega og útlitslega (umslagið er ekki eðlilega flott).

Loka þessu með tilvitnun í dóm minn um Bushido (2021) sem lýsir ágætlega listrænum eigindum okkar manns: „Þessi þrjú ár sem platan hefur verið í vinnslu hafa greinilega verið vel nýtt. Platan er voldug, ekki bara vegna lagafjölda og lengdar heldur er þannig ára yfir henni, eitthvað sem virðist hafa verið hannað á meðvitaðan hátt. Ég skynja þetta ekki sem lagasarp, safn laga sem hafa safnast upp á undanförnum misserum, heldur miklu frekar sem úthugsað og heildstætt verk þar sem þráðurinn er skýr út í gegn þrátt fyrir að fjölbreytni sé fyrir að fara í lagasmíðum.“

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: