Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 22. mars.

Yfir mörk og mæri

Mörsugur er ópera fyrir rödd með rafhljóðum og myndbandsverki, byggð á ljóðsögu eftir Ragnheiði Erlu Björnsdóttur og unnin í samsköpunarferli með Heiðu Árnadóttur og Ragnheiði Erlu Björnsdóttur.

Það væsir ekki um gagnrýnandann mig og iðulega fæ ég heimsendingu hvar er að finna ný og spennandi íslensk tónverk. Verra gæti það verið! Þannig kom hin dásamlega, hæfileikaríka Heiða Árnadóttir færandi hendi í upphafi árs með glæsilegt bókverk sem tengist inn í verkið sem nefnt er í inngangi. Í fréttatilkynningu segir m.a.: „Ljóðsagan er brotakennd frásögn með útúrdúrum sem gerist í þjóðsagnakenndri íslenskri náttúru. Erkitýpurnar sem persónan er byggð á eru goðsagnakenndar kvenfyrirmyndir. Í verkinu er reynt að ná utan um þokukennt hugarástand konu sem er á milli heima, á milli ljóss og myrkurs og þar sem minningar og raunskynjun renna í eitt.“

Verkið var samið fyrir Myrka músíkdaga 2023 og frumflutt í Norðurljósum Hörpu 25. janúar það ár. Myndbandsverk eftir Ásdísi Birnu Gylfadóttur fylgdi flutningnum (og þess má geta að Heiða fékk Grímuverðlaunin fyrir sönginn auk þess sem tónlistin var tilnefnd til sömu verðlauna). Heiða var í hlutverki staðartónskálds Myrkra músíkdaga í þrjú ár og var Mörsugur síðasta framlag hennar til hátíðarinnar. Var það sviðsett líkt og um tónlistarleikhús væri að ræða, Heiða var ein á sviði í 50 mínútur á meðan rafhljóð og myndbandsverk léku um hana (ítarlegri upplýsingar, ásamt tón- og myndbandsdæmum má finna á síðu Ragnheiðar, rerla.at/morsugur).

Tónlistina má svo finna á Bandcamp (sláið inn Mörsugur, flytjandanafnið er Þrjátíu fingurgómar) og bókverkið góða undirstingur enn frekar hversu þverlistalegt – ef ég má orða það svo – þetta allt saman er. Bókin inniheldur ljóðsögu Ragnheiðar Erlu, grafíska útfærslu hennar unna af Ásbjörgu, stillur úr myndabandsverkum Ásdísar, teikningar Ragnheiðar Erlu auk handskrifaðra nótna að hlutum verksins.

Simon Cummings, sem skrifar fyrir hið áhrifaríka tónlistarblogg 5:4, sagði meðal annars um Mörsug: „Framvindan byggðist miklu fremur á breytilegu tilfinningarússi en línulegri frásögn. Heiða var til skiptis innileg og epísk, snertandi ský og takandi á sig hrafnsham, röddin þá rosaleg, bæði hrafns- og mannleg. Verkið gekk mikið út á stemningu, eins slags áferð, hvar hið náttúrulega var sem leiðarstef. Undir lokin varð það svo magnþrungnara, fjölkynngi upphófst, og var þetta satt að segja ógleymanleg stund.“

Það er óhætt að taka undir þessi orð Cummings. Metnaðurinn í kringum Mörsug er eftirtektarverður og allt það sem kemur saman í þessum flókna skurðpunkti leggst á eitt, myndar þessa djúpu, eiginlega stingandi upplifun sem áheyrendur tóku með sér á koddann. Þorgrímur Þorsteinsson sá síðan um upptökur og hljóðvinnslu tónlistar sem stendur vel ein og sér. Óperan hefst á mæltu máli en aftan við ljóðalestur Heiðu má heyra skuggalegar raddir sem bæði syngja og hvísla. Söngrödd Heiðu er miðlæg, þetta er tilraunaverk eins og nærri má geta og hún syngur fallega, ríkt, af tilfinningu en fer út í skringi þegar þess þarf, fettir sig og brettir eins og þurfa þykir. Aftan við sönginn marrar í dökkleitum rafhljóðum og niður aldanna er knúinn fram, þetta íslenska, þjóðlega – náttúran og sagan á þessu blessaða, harðgera skeri.

Þetta er „grípandi“ verk, ekki í skilningi laufléttra dægurflugna, eins dásamlegar og þær geta verið, heldur tekur verkið utan um þig, heldur þér, dregur þig að sér og það er ekki undankomuleið, sama hvaða skynfæri á í hlut. Er það vel.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: