Sóló! Eddie Van Halen lætur gamminn geisa í upphafi ferilsins. Myndin er tekin á tónleikum í Coliseum-höllinni í New Haven í Bandaríkjunum.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 10. október, 2020.

Goslok hjá gítarguði

Einn merkasti rafgítarleikari sögunnar, Eddie Van Halen, lést í vikunni, aðeins 65 ára að aldri. Krabbamein lagði þennan snilling en áhrif hans og arfleifð hvað rokkgítarleik varðar munu lifa hann.

Vinur minn einn á Fjasbókinni, sem er þræltengdur inn í bandaríska tónlistarbransann, er í áfalli. Þegar fréttin um andlát Eddies Van Halens „gaus“ upp í vikunni (náðuð þið þessum?) fóru margir hans líkar, og rokkaðdáendur almennt af ákveðinni kynslóð, einfaldlega á hliðina. Risi fallinn. Og þessi vinur minn staðhæfir: „Það er Hendrix… og Edward.“

Hver var þessi maður eiginlega og hvers vegna er hann kallaður til sem einn áhrifamesti gítarleikari sögunnar? Fyrstu kynni almennings af honum voru í gegnum frumburð hjómsveitarinnar Van Halen, árið 1978, en sveitina hafði hann stofnsett ásamt stóra bróður sínum Alex árið 1972. Tímasetningin á nefndri plötu var fullkomin. Tónlistarlandslagið var uppfullt af töturslegum poppstjörnum frá sjöunda áratugnum og pönki sem var ekki endilega allra. Van Halen uppfærði og eiginlega endurreisti hart rokk eins og það kemur af kúnni. Stuðvænt og beint af augum en með sjarma og glitri frá söngspírunni mögnuðu David Lee Roth. Jú jú, Aerosmith og Kiss höfðu verið að gera gott mót en þessi fyrsta plata Van Halen er einstök. Engin ein plata átti eftir að reynast jafn áhrifamikil upp á þróun töffararokksins á níunda áratugnum, en allir þessir tappar; Guns‘n{lsquo} Roses, Mötley Crue, Poison, Bon Jovi o.s.frv. signdu sig við altari Van Halen. Nóg er að hlusta á hið óviðjafnanlega „Runnin’ with the Devil“, sem keyrir allt í gang, til að sannfærast um þetta. Gítarleikur Eddies er þó það sem gerir plötuna, fyrst og síðast. Byltingarkennd spilamennska („Eruption“) og tækni sem fékk rokkunnendur til að missa andlitið. Hendrix særður fram, að einhverju leyti, en stíllinn tilheyrði um leið Eddie og engum öðrum.

Eddie Van Halen fæddist árið 1955 í Amsterdam, mamman indónesísk en pabbinn hollenskur. Faðirinn var starfandi tónlistarmaður, lék á klarínett og saxófón og bræðurnir fengu tónlistarlegt uppeldi. Eddie var sjö ára er fjölskyldan fluttist til Pasadena í Kaliforníu. Móðirin starfaði sem þerna en faðirinn sem húsvörður og uppvaskari en svo lék hann tónlist um helgar. Eddie hefur sagt frá því að faðir sinn hafi ávallt fellt tár á tónleikum hjá sér enda lifði hann ameríska drauminn í gegnum syni sína. Van Halen átti eftir að verða afar vinsæl sveit, aðlagaðist vel MTV-áratugnum, og varð að rokkstofnun, ef svo mætti segja. Eddie Van Halen, enn undir þrítugu, var þegar orðinn goðsögn, gítarguð á pari við Hendrix og Clapton. Quincy Jones fékk hann t.a.m. til að spila gítarsólóið inn á smell Michaels Jacksons, „Beat it“.

Áfengissýki setti strik í reikninginn hjá okkar manni og grimm baráttan við Bakkus rataði einatt í fjölmiðla. Samkvæmt heimildum náði hann að halda sér þurrum frá árinu 2008 og Van Halen lék sína síðustu tónleika sem hljómsveit árið 2015. Það var síðan munnkrabbamein sem lagði hann að lokum.

Eftir stendur tónlistin. Van Halen var al-amerísk sveit og hafði engan tíma fyrir oft og tíðum dumbungslegt, jafnvel epískt rokk Zeppelin og Sabbath. Aerosmith var þá of mikið í skugga Stones til að komast inn á vetrarbraut Van Halen. Nei, þetta var rígbundið í kalifornísk viðhorf og lífsstíl, stuð og keyrsla í öllum regnbogans litum, skilgreint afkvæmi draumaverksmiðjunnar sem var úti á næsta horni. Og í stafni stóð Eddie Van Halen, „Mozart rafgítarsins“.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: