Ekki bara fyrir börn final

Rétt fyrir jól en þó af meiri krafti eftir áramót kom (loksins) platan Ekki bara fyrir börn út. Um er að ræða verkefni sem Halldór Warén (Vax o.fl.) hefur verið með í farvatninu í fjölda ára og var því landað í góðu samstarfi við Charles Ross og fjölda annarra söngvara og hljóðfæraleikara. Ross þessi vann t.a.m. með Halldóri að hinni stórfenglegu plötu Kjuregej.

Halldór var svo vinsamlegur að senda mér plötuna hingað út til Skotlands, í böggli fagurlega skreyttum Loch Ness skrímslinu. Ég sá strax líkindi með Lagarfljótsorminum en Halldór er búsettur í nálægð við hann og staðfesti hann það í tölvupósti til mín með þessum orðum: „Já, þú veist að Lagarfljótsormurinn og Loch Ness eru frændur …“

Platan er byggð á plötu Jerry Garcia og David Grisman, Not for kids only, og er tónlistin amerískt ættuð þjóðlagatónlist; allt vaðandi í fiðlum, kassagíturum, banjóum og fótvissri hrynjandi. Maður sér hlöðuballið í Kentucky fyrir  sér. Textum öllum hefur verið snarað lipurlega af Sævari Sigurgeirssyni. Austfirðingurinn Magni Ásgeirsson er áberandi í söngnum en einnig koma þau Esther Jökulsdóttir,  Eyrún Huld Haraldsdóttir, Bára Sigurjónsdóttir og Freyr Eyjólfsson við sögu.

Áferðin er hrá og lifandi og öll framvinda fjörug og skemmtileg. Annar og þakkarverður vinkill á barnaplötubransann sem á það til að vera of straumlínulagaður. Umslagið fylgir þessari forskrift, lífrænt og notalegt þar sem textablað er og nokkurs konar litabók. 

Það er list að gera svona hluti svo vel sé. Og eins og segir í titli, fullorðnir geta einnig haft gagn og gaman af þessu (minnir mig óhjákvæmilega á innreið hins mæta leikara og tónlistarmanns Guðmundar Inga í þennan bransa, en barnaplata hans, Sagan af Eyfa, var bönnuð börnum!)

Nánari upplýsingar má nálgast í gegnum meðfylgjandi hlekki:

www.warenmusic.com
www.facebook.com/warenmusic
www.youtube.com/warenmusic

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: