Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 6. nóvember.

Hátt upp í geim

Sæmilega sviplegt fráfall Ace Frehley, gítarleikara Kiss, þann 16. október kom af stað öflugri höggbylggju um rokkheima en ég átti von á. „Shock me“ eins og segir í frægu lagi hans. Fólk á vissum aldri, X-kynslóðin svonefnda, tók þessar fréttir virkilega inn á sig og dagana eftir andlátið hrönnuðust upp fleiri og ítarlegri minningargreinar. Ljóst er að Frehley, sem gítarleikari, hafði gríðarleg áhrif á yngri spilara og eins og einn társtokinn blaðamaðurinn sagði: „Þegar ég var níu ára þekkti ég bara tvö tónlistarnöfn. Bítlana og Kiss.“

Erfiður uppvöxtur
Frehley fæddist í Bronx-hverfi New York-borgar árið 1951. „Bara drengur frá Bronx,“ eins og segir í einni minningargreininni. Hann ólst upp í tónlistarfjölskyldu og kenndi sér á gítar. Unglingsárin voru erfið, Ace var í senn ódæll og villtur og var rekinn úr fjölda skóla. Þegar tónlistin fór að taka meira pláss sljákkaði hins vegar í okkar manni. Hann var í hinum og þessum sveitum þar til hann gekk í Kiss, í janúar 1973, er hann var á tuttugasta og öðru ári. Restin er í sögubókunum. Fljótlega eftir útgáfu Destroyer (1976) varð Kiss að vinsælustu hljómsveit heims og allir skalar sprengdir. Fólk hafði aldrei upplifað nákvæmlega þetta í popp/rokksögunni. Alls kyns varningur var settur í sölu, fjórar sólóplötur sama dag árið 1978, kvikmynd, fígúrur, teiknimyndablöð og ég gæti þulið endalaust upp. Þetta var ólíkt Bítlum, Presley og Zeppelin á þá vegu að þetta var altækt poppmenningarlegt fyrirbæri sem smeygði sér inn í öll möguleg og ómöguleg horn hennar og krossað var á milli kynslóða. Frábær tónlist og stemningin, andinn og áran í kringum þetta allt saman var með ómótstæðilegum hætti. Þetta var „ástand“ sem fólk hreinlega sogaðist inn í. Allir þekktu Kiss. Amma þín líka.

Kiss í Kópavoginum
Svo ég spegli társtokkna blaðamanninn að ofan þá er ein af fyrstu æskuminningum mínum úr Kópavoginum um þessa sveit. Ég fæddist 1974, sama ár og frumburður sveitarinnar kemur út, og ég man eftir heimsóknum til vina þar sem þeir sýndu mér Destroyer-umslagið. Ég var hræddur. Ég teiknaði myndir af Kiss og hlustaði á uppspunnar sögur af ævintýrum þeirra (eins og þegar Kiss þurftu að flýja upp í þyrlu undan byssukúlum á meðan Gene Simmons varði þær allar með axarbassanum sínum). Ég hafði ekki heyrt nótu af tónlistinni samt.

En þeir sem drukku þær í sig á þessum mótunarárum, meðlimir Kiss-hersins, eru að kveðja vin, það stappar næst því.

Einstakur gítarleikur
Margir stíga nú fram og ræða gítarleik Frehleys. Þykkur, voldugur, eins og jarðýta undir allri framvindu. Á sviði var Frehley holdgervingur rokksins, laus í reipum, „lifandi“ og hrár. Sem aldrei fyrr hefur honum verið teflt fram sem „hjarta“ Kiss og ég tek undir það heilshugar. Það er bara þannig. Paul Stanley og Gene Simmons, með rokksköddun upp á 0%, og svo Peter Criss trymbill, sem jú, var um margt áþekkur Frehley en samt átti enginn séns í þennan algera rokkara sem lifði sem slíkur uppi á sviði og utan þess. Bakkus bróðir sat kirfilega á öxlum Frehleys lengi vel og það svall tók eðlilega sinn toll. Komið var að skuldaskilum árið 1982, samband Frehleys við leiðtogana Stanley og Simmons var vont en breyttar tónlistarlegar áherslur voru honum auk þess ekki að skapi. Það ár hætti hann í sveitinni og hann beið ekki boðanna, hóf sólóferil og var giska virkur í þeim efnum fram á síðasta dag. Slóst meira að segja í raðir Kiss á nýjan leik á 10. áratugnum (1996-2002). Fljúgðu frjáls, Geim-Ace!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: