Maður fólksins Bruce Springsteen, eða Stjórinn eins og rýnir nefnir hann, á tónleikum í Kaupmannahöfn árið 2023. — Ljósmynd/Thomas Rungstrom, Wikimedia Commons.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 28. ágúst.

Um ókunna stigu

Þegar Bruce Springsteen gefur út heilar sjö plötur með áður óheyrðu efni fara gömul hjörtu á yfirsnúning og einhver yngri líka. Rekjum aðeins efni platnanna og tilurð þeirra.

Ég er einn af þeim sem tilbiðja á altari Stjórans og mitt hjarta er því eitt af þeim sem tóku aukaslag er fréttir af útgáfunni bárust. Er hún í formi kassa sem kallast Tracks II: The Lost Albums og kallast nafnið á við annan kassa, Tracks, sem út kom 1998 (fjórir geisladiskar og 66 lög þar). Tracks II er hins vegar skipt upp í sjö, frístandandi plötur, allar með efni frá ákveðnu tímabili á upptökuferli Springsteen. Tímabilin eru reyndar misþétt, fyrsta „platan“, LA Garage Sessions ´83, inniheldur upptökur frá því ári eingöngu á meðan síðasta platan, Perfect World, er prýdd lögum sem spanna árin 1994-2011.

Ég vissi af einhverju af þessu, hafði t.d. lesið um heila plötu sem var tekin upp í kringum lagið „Streets of Philadelphia“ sem var burðarlagið í kvikmyndinni Philadelphia (1994). Og hér er hún loks komin, Streets of Philadelphia Sessions, tíu lög. Þrátt fyrir að Stjórinn hafi lýst því yfir í magnaðri ævisögu að hún væri uppi í hillu og þar yrði hún!

Það er ljúft að renna þessu efni þó misgott sé. Spenntastur var ég fyrir Philadelphia-efninu enda eina lagið sem við höfum fengið að heyra úr þeirri lotu ekkert minna en stórkostlegt. Þarna er Springsteen að prófa sig áfram með trommulykkjur o.s.frv. og þetta hljómar vel, það er enginn kjánagangur þarna. Misgott, þá er ég að vísa í að margt af þessu rúllar átakalaust í gegnum mann, sem sýnir að það er eðlilega ástæða fyrir því að ekkert af þessu kom út formlega. Og athugum, langmest hérna hljómar fullklárað. Segir líka sína sögu um stundum lamandi fullkomnunaráráttu okkar manns.

Einn af „mínum“ pennum er Stephen Thomas Erlewine, fyrrverandi ritstjóri Allmusic.com. Hann skrifar á Substack-bloggið sitt um safnið og hittir nokkra nagla á höfuðið að vanda. Hann nefnir réttilega að þó að Springsteen sjálfur tali um að hann sé sívinnandi þá er örðugt fyrir okkur að greina það, sérstaklega á 10. áratugnum þegar einungis þrjár plötur komu út. Tvær sama dag, 1992 (hinar löku Human Touch/Lucky Town) og svo The Ghost Of Tom Joad (1995).

Rúllum í gegnum Tracks II. L.A. Garage Sessions ’83 situr á milli hinnar lágstemmdu og nöktu Nebraska og leikvangarokksins á Born in the U.S.A. Platan er nær þeirri fyrri, róleg, en ekki jafn þunglyndisleg getum við sagt (tek það fram, Nebraska er það besta sem Springsteen hefur gert að minni hyggju). En þetta efni er ekki beint til að hrópa húrra fyrir svo ég sé heiðarlegur. Streets of Philadelphia Sessions heldur merkilega vel eins og ég nefni. Minnir smá á Tunnel of Love, þetta er íhugult og giska dökkt efni. Faithless (2005-2006) ku hafa átt að vera tónlist fyrir „andlegan vestra“ sem var svo aldrei gerður og tónlistin eftir því. Kántrí og gospel og nikkað til Paris, Texas Ry Cooders. Somewhere North of Nashville var tekin upp 1995, samhliða The Ghost of Tom Joad, og inniheldur kántrírokk sem færi vel með laugardagskvöldi á krá í Texas. Inyo var tekin upp 1995-1997 og er lágstemmd og þjóðlagaskotin. Twilight Hours var tekin upp á sama tíma og Western Stars (2019) og Perfect World er eina platan hér sem er nokkurs konar samtíningur.

„Þessar plötur eru „plötur“ og sumar hverjar fullhljóðblandaðar,“ segir Springsteen sjálfur. „Ég hef verið að spila þetta sjálfum mér til ánægju auk þess sem nánir vinir hafa fengið að hlýða á líka. Og nú fáið þið líka að heyra. Ég vona að þið njótið.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: