Kjörnun Justin Bieber slakar á norður í landi. Stilla úr myndbandi við lagið „First place“.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 25. september.

„Skelfist ekki, hann er upprisinn …“

Fá ef einhver poppævintýri ná að slaga upp í allt það sem Justin Bieber hefur upplifað á löngum ferli. Tvær nýjar plötur komu út fyrir stuttu og Íslandstenging hans er auk þess allrar athygli verð.

Hljóðverið heitir Flóki Studios, staðsett á miðjum Tröllaskaga, nánar tiltekið í Fljótunum sem er nyrsta byggðarlagið í austanverðum Skagafirði. Hjá hljóðverinu eru svo Deplar, ríkmannleg gistiaðstaða þar sem Justin Bieber dvaldi í byrjun maí auk þess að nýta sér téða hljóðversaðstöðu. Þar vann hann að plötunni Swag m.a. sem út kom í júlí. Bieber var duglegur að uppfæra Instagram-reikninginn sinn þegar hann dvaldi þarna og það var hægt að finna fyrir rósemdinni og kjörnuninni sem átti sér stað. Hvort sem framsetningin var að einhverju leyti meðvituð eður ei fann maður ákveðinn frið í gegnum myndirnar. Það er enda erfitt að dvelja á þessum slóðum án þess að verða fyrir slökun (tala af reynslu).

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem poppstirnið heimsækir Ísland en árið 2015 tók hann upp myndband í íslenskri náttúru og sama gerði hann núna en myndbandið við lagið „First Place“, þriðju smáskífuna af plötunni Swag, inniheldur myndbrot úr Fljótunum og nágrenni.

Ferill Justins Biebers hefur verið magnaður. Hann sló í gegn í upphafi annars áratugar þessa árþúsunds, 2010, þá sextán ára, og varð stærsta unglingastjarna þess tíma. Seinna átti hann eftir að selja plötur í bílförmum, raka inn verðlaunum og telst ein stærsta poppstjarna allra tíma í dag. Á einhvern ótrúlegan hátt hefur hann haldið sér sæmilega við hvað bransastærð varðar, þrátt fyrir alls kyns sveiflur og dýfur. Tónlistarlega hefur hann ekki staðið kyrr og stefnum eins og r og b og rafpoppi hefur verið kippt inn kinnroðalaust í gegnum tíðina og það með ásættanlegum árangri. Plöturnar vissulega missterkar en í gegnum þær hefur Bieber þó haldið sjó og hefur forðast endurvinnslu á tilþrifum fyrri ára.

Því fylgir álag að vera stanslaust í sviðsljósinu, álag sem Bieber hefur ekki farið varhluta af. Hann hefur komist í kast við lögin, misnotað vímugjafa og glímt við þunglyndi sem kvíða, hlutir sem hann hefur verið nokkuð opinn með þegar allt er samanreiknað. Undanfarin ár hefur fólk þó haft áhyggjur af honum, lífsstíll hans hefur þótt undarlegur – sérstaklega í ljósi þess að hann er nýorðinn faðir – og á papparassa-myndum sést hann oft reikull í spori og inn í sig, jafnan í fylgd með eiginkonunni Hailey Bieber. Þessar myndir minna á einhvern hátt á myndirnar sem maður sá af Kurt Cobain og Courtney Love á tíunda áratugnum, Love þá í fararbroddi með bein í nefi á meðan Cobain hékk í taumi hennar eins og óöruggt barn.

Nýútkomnu plöturnar, Swag I og II, hafa gefið tilefni til að ætla að okkar maður sé á ögn betri stað. Innihaldið er samtíma popp og r og b að hætti hússins og tugir upptökustjóra koma að verkunum svo þau sleppi nú inn í móðins ramma. Dómar hafa verið volgir, fyrri platan þykir fjarri því eitthvert meistaraverk þó að eitt og annað sé til prýði. Seinni skammturinn fékk sýnu verri dóma, eitthvað sem var fyrirséð, og svona ofskömmtun þjónar sjaldnast hlustendum. Taylor Swift gerði svipað á The Tortured Poets Department sem náði að slaga upp í 35 lög í gegnum aukalög sem aukaplötu.

Að einhverju leyti er Bieber hetja fyrir það eitt að vera uppistandandi en um leið er hann líka fórnarlamb, grey, og manni finnst hann stundum ekki ráða neitt við neitt. En þetta er bransinn sem hann er í, hvar góðir menn deyja eins og hundar á meðan plastmennskunni er hampað linnulaust.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: