Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 27. febrúar.

Orrustan um Ameríku

Tólf mínútna atriði bandaríska rapparans Kendricks Lamar á liðinni Ofurskál var hlaðið merkingu, vísunum og boðskap. Eitthvað var fussað og sveiað yfir tiltækinu en var þetta ekki fyrst og síðast glæstur trójuhestur?

Í konungshöllum miðalda var það einatt hirðfíflið sem hafði skotleyfi á konung, gat dregið að honum dár í skjóli fíflagangs. Hálftímaskemmtunin í Ofurskálinni svofelldu, „Superbowl“, hefur verið að taka á sig þetta form á síðustu árum. Ofurskál þessi er úrslitaleikurinn í NFL-deild ­­ameríska fót­boltans og fór hann fram í New Orleans í ár, nánar tiltekið 9. febrúar síðastliðinn. Öttu þar kappi Philadelphia Eagles og Kansas City Chiefs en Ernirnir burstuðu höfðingjana (svo ég laumi inn dægurmenningartengingu: einn leikmanna Chiefs, Travis Kelce, er unnusti Taylor Swift).

Þessi skemmtiatriði, einatt tónlistaratriði, hafa verið miseftirminnileg en venjulega kemur vinsælasta tónlistarfólk heims fram, bandarískt venjulega í öndvegi. Atriðin eru mispólitísk, Beyoncé söng lag sitt „Formation“ árið 2016 og vakti gríðarlega athygli fyrir það. Dirfska er eiginlega of vægt orð til að lýsa því sem hún bauð upp á en dansatriðið var í senn táknrænt og marglaga þar sem femínismi og réttindabarátta svartra var undir. Beyoncé skaut bylmingsskotum á valdhafa, m.a. með sterkum vísunum í Svörtu pardusana, hin umdeildu vígasamtök sem fóru mikinn á sjöunda og áttunda áratugnum. Mikið var ritað og rætt um þetta tímamótaatriði listakonunnar.

Kendrick Lamar, einn áhrifaríkasti rappari samtímans, fetaði að vissu leyti í fótspor Beyoncé í atriði sínu. Eitthvað var rætt um fræga rimmu Drakes og Kendricks og sá síðarnefndi nýtti vettvanginn m.a. til að skjóta á þennan erkióvin sinn. En fyrst og fremst var um pólitískan gjörning að ræða. Andsvar við kjöri Trumps, hugleiðingar um aukna skautun í samfélaginu og meðfylgjandi rasisma. Svartur Sam frændi var á stjákli út atriðið (Samuel L. Jackson) og dansarar mynduðu bandaríska fánann – klofinn á kafla. Hér erum við með mann sem er viðurkenndur snillingur, með Pulitzer-verðlaun í rassvasanum, aðili sem hefur umbreytt hipphoppi á margvíslega vegu, glúrinn fulltrúi hinna niðurníddu en hann ólst upp við fátækt í Compton-hverfinu alræmda í Los Angeles. Hann hefði getað staðið á sviðinu hreyfingar- og mállaus og það eitt hefði verið sterk pólitísk yfirlýsing. Á leikvanginum var forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, og ku hann hafa farið í miðju atriði.

Við höfum vanist því að vera agndofa ansi reglulega þegar Donald Trump er annars vegar og nú síðast þegar hann bókstaflega sölsaði undir sig Kennedy-listamiðstöðina og er í þessum töluðum orðum að snúa öllu þar á hvolf. Eins og hann gerir. Ég skýt samt hér inn þeirri greiningu Noams Chomsky og fleiri að Trump sé réttilega tálbeita (einhvers konar hirðfífl í raun) svo að baneitaðrir skriffinnar Repúblikana geti hægt en sígandi skafið kerfið innan frá með lífshættulegum lögum og reglugerðum.

Orrustan um Ameríku er handan við hornið. „Hirðfíflið“ Lamar, maðurinn sem höndlaði um sannleikann á Ofurskálinni og lét Trump, „kónginn“, heyra það, mun að öllum líkindum ekki komast upp með neitt svona eftir nokkur ár. Fasískir tilburðir þarna vestur frá, sem er ótrúlegt að fylgjast með, munu sjá til þess. Hið lúmska afl dægurmenningarinnar ætti því aldrei að vanmeta, sérstaklega þegar jafn súrrealísk staða og raun ber vitni er komin upp í henni Ameríku. Gil Scott-Heron sagði að byltingunni yrði ekki sjónvarpað en mögulega hafði hann rangt fyrir sér því að aldrei hafa fleiri fylgst með Ofurskálarhálfleiknum.

 

One Response to Fréttaskýring: Kendrick, Trump, Ofurskálin o.fl.

  1. antok says:

    Sterk og áleitinn texti sem varpar ljósi á pólitíska vídd dægurmenningarinnar. Góð tenging við sögu, valdhafa og áhrif popplistamanna.
    Regard Unissula

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: