Risi Sean Combs hefur verið afar valdamikill í tónlistargeiranum
þrátt fyrir ásakanir um ýmis kynferðisbrot. — AFP/Stan Honda.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 17. október.

Risar á brauðfótum

Málefni Sean Combs (P. Diddy, Puff Daddy), sem hefur verið kærður fyrir margvísleg brot gegn réttvísinni, hafa skekið heim tónlistariðnaðarins svo um munar.

Ásakanir um margvísleg kynferðisbrot hafa hangið yfir Sean Combs í áratugi. Eftir að Cassie Ventura, unnusta hans frá 2007 til 2018, með hléum þó, kærði hann í nóvember í fyrra fór boltinn að rúlla. Eftir að myndband fór í loftið í maí á þessu ári, þar sem Combs ræðst á Ventura á hóteli (árið 2016) fór að þrengja enn frekar að honum. Kærur hafa hlaðist upp á árinu og var Combs handtekinn í New York, 16. september síðastliðinn, og hefur hann verið kærður fyrir mansal af kynferðislegum toga og rekstur glæpahrings og er ekki enn útséð með fjölda kæra eða af hvaða gerð þær kunna að verða. Réttarhöld verða í maí á næsta ári. Sean Combs er, eins og sakir standa, risi á brauðfótum hvers veldi virðist vera að hrynja til grunna.

Tónlistariðnaðurinn hefur enn ekki „eignast“ sinn Harvey Weinstein en mál hans hrundu af stað #metoo-byltingunni. R&B-stjarnan R. Kelly situr reyndar á bak við lás og slá fyrir svipaðar gjörðir og Combs er ásakaður um en stærð Kelly slagar seint upp í veldi Combs sem er að mörgu leyti einn áhrifamesti tónlistarmaður hipphoppsins.

Tónlistariðnaðurinn hefur oftlega sloppið undan þeim kröfum sem hafa verið gerðar á kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinn, svo við höldum fókusnum á afþreyingarmenningunni. Orðræðan sem þrífst innan poppsins/rokksins/hipphoppsins; að kynlífssvall, fyllerí og eiturlyfjaneysla sé einfaldlega eðlilegur hlutur af þessu öllu saman, verður æ þreyttari eftir því sem árin líða. Samt er það hún sem viðheldur því óeðlilega sem þarna þrífst.

Dr. Caroline Heldman hjá Sound Off – sem eru regnhlífarsamtök yfir bandarískar stofnanir sem takast á við kynferðisofbeldi innan tónlistariðnaðarins – segir að einmitt rokkstjörnur fái að vera „stikkfrí“ vegna þessa anda og samþykkis sem fylgir menningunni og lífsstílnum. „Margir þolendur tala um að þær hefðu átt að vita þetta, þar sem viðkomandi væri rokkstjarna,“ segir hún m.a. og kollegi hennar, Kate Grover, segir að hugmyndin um snillinginn sé ekki að hjálpa heldur. Grover bendir og á að mörg fórnarlamba Kelly hafi verið ungar, svartar konur sem voru ekki með sömu rödd og frægar leikkonur sem stóðu uppi í hárinu á Weinstein. Þannig að vandamálin eru margvísleg.

Og talandi um Weinstein, hann bjó við úthugsað og nákvæmt kerfi sem gerði honum kleift að ástunda sína glæpi, vitorðsfólk var í hverju horni sem hélt vélinni gangandi. Combs byggði upp – ef það mun reynast rétt – áþekkt kerfi, meðal annars fyrir atbeina valda sinna í iðnaðinum en hann á þátt í risi margra hipphopp- og R&B-stjarna. Mógúll og brúðumeistari og drambið því stutt undan, eðlilega. Lífsstíll Combs hefur líka alla tíð miðað að stórkarlalífsstíl þar sem teiti, kampavín og einkaþotur þykja hinir sjálfsögðustu hlutir. Ofgnótt af öllu sem brenglar öll gildi, hægt en sígandi.

Þrýstingur frá samfélaginu, hvar viðmið og siðir hafa breyst – að einhverju leyti – hefur spilað ákveðna rullu í viðstuggun á þessum mönnum. Það sem „mátti“ fyrir 50 árum er ekki í boði lengur. Á sjöunda og áttunda áratugnum, þegar hugmyndin um rokkstjörnuna og þeim stærilætum sem henni fylgir verður til, var háttsemi stunduð sem kæmi fólki í steininn á 0,1 í dag. Það sem er þó hvað skuggalegast er þetta óhöndlanlega kerfi sem fólk tekur þátt í ómeðvitað. Skepnan fer að dansa sjálf og „þátttakendur“ fría sig ábyrgð eða veifa réttlætingum nema hvort tveggja sé. Voðabundið járnbúr þar sem óeðlilegheit eru normalíseruð og þeim framfylgt í einhverjum samfélagslegum doða.

Sjáum hvort réttarhöldin í maí 2025 nái að dælda þennan veruleika eitthvað.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: