Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 14. október.

Ljósfaðir í raun og sann

Upptökustjórnandinn Quincy Jones lést 3. nóvember, saddur lífdaga, kominn á tíræðisaldur. Áhrif hans í tónlistinni ná langt út fyrir veggi hljóðversins hvar hann var rækilega á heimavelli.

Ég er á þeim aldri að ég hef alltaf vitað hver Quincy Jones er. Þetta nafn var sveipað ákveðinni helgi, vísaði til föðurlegs hljóð- og hljómlistarmanns með „hinni alvitru“ áru og hann virtist jafn mikill mágus í menningarheimi svartra og Sidney Poitier, Muhammad Ali, Duke Ellington og Nelson Mandela þess vegna. Nokkurs konar fóstri, ábyrgðarmaður að ekki bara smellum heldur hljóðheimi nokkurra tímamótaplatna úr þessum ranni. Ljósfaðir. Obi Wan Kenobi, væri hann svartur og byggi á plánetunni jörð.

Tvennt kom strax í hugann er ég frétti andlátið. Fyrir það fyrsta, þá var ég einhverju sinni að lesa mér til um Off the Wall (1979) og Thriller (1982) og var að reyna að fá dýpkun á því hvers vegna þetta væru jafn nafntoguð verk og raun ber vitni. Og þá las ég um hvernig þær báðar – sér í lagi sú fyrri – voru í raun heilagar, og já, hljómrænar krossferðir þeirra Michaels Jackson, höfundarins, og upptökustjórnandans, Quincys Jones. Þeir ætluðu að gera bestu plötur allra tíma og sumir, nei margir, eru á því að það hafi einfaldlega tekist. Annað hugskotið er í tengslum við frægar upptökur á laginu „We are the World“ (1985) en Quincy Jones stýrði upptökum lagsins með mildri en skýrri hendi. Það var vandræðagangur er átti að taka upp söng Bobs Dylan, hann var í senn feiminn og utanveltu, alls ekki áhugalaus eins og sumir vilja halda og grínast ótt og títt með. Nei, þarna var einfaldlega stressaður tónlistarmaður, óviss um hvort hann gæti skilað sínu. Söngvarar voru því reknir úr hljóðverinu og eftir voru Dylan, Quincy og höfundur lagsins, Lionel Richie. Dylan söng sinn part með glans og Quincy og Richie föðmuðu hann í lokin. Dylan lítur upp til Quincys, bókstaflega, og eins og lítill skólastrákur segir hann með vandræðalegu brosi: „Ef þú segir að þetta sé í lagi, þá er þetta í lagi.“ Sjálfur Bob Dylan að bíða eftir samþykki yfirkennarans. Svona virtur var Quincy Jones.

Hann hóf ferilinn sem djassisti (lék á trompet) og hóf fljótlega að útsetja og semja fyrir slíka og átti eftir að taka upp og koma að plötum með Ray Charles, Little Richard, Miles Davis, Arethu Franklin, Donnu Summer og auðvitað Michael Jackson eins og áður hefur komið fram. Hann samdi einnig kvikmyndatónlist og auk þess að vera jafnvígur á popp, rokk, fönk og sálartónlist vann hann t.d. með rómönskum tónskáldum eins og Brasilíumanninum Gilberto Gil. Ég gæti þulið upp dægurmenningarlega sigra Quincys Jones í allan dag en þess má m.a. geta að það var sjónvarpsframleiðslufyrirtæki hans sem kom The Fresh Prince of Bel-Air á koppinn á 10. áratugnum, þáttum sem gerðu Will Smith að stjörnu. Quincy Jones hefur verið tilnefndur til Grammy-verðlaunanna 80 sinnum (þriðju flestu í sögunni) og hreppt 28 en aðeins Beyoncé og George Solti eiga fleiri styttur.

„Quincy Jones gerði svarta menningu að amerískri,“ lét Joe Biden hafa eftir sér við andlátið og vinna hans í amerískum afþreyingariðnaði, þar sem rætur hans voru ávallt í forgrunni – hvort sem það var meðvitað eður ei – ýtti svartri list, af hvaða tagi sem er, í sviðsljósið. Að því leytinu til var hann fyrirmynd, eins og þeir risar sem ég nefndi í upphafi. Hann var t.a.m. fyrsti svarti tónlistarmaðurinn til að stýra hljómsveitinni á Óskarsverðlaununum (1971), hann var gerður að varaforseta Mercury-útgáfunnar 1961 (fyrsti svarti maðurinn til að komast í þá stöðu) o.s.frv. Hann var því sannur brautryðjandi að þessu leyti.

„Var eitthvað sem hann gat ekki gert?“ Þannig hljóma eftirmæli Jeremys O. Harris leikskálds (Slave Play). „Quincy Jones fæddist þegar svartir strákar gátu ekki látið sig dreyma um nokkurn skapaðan hlut. Hann kenndi okkur að það eru í raun engin takmörk fyrir því hvað við getum gert.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: