Stjarna Rosalía á sviði í Síle árið 2022. — Ljósmynd/Andrés Ibarra, Wikimedia Commons.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 11. desember.

Áður óþekktar hæðir

Plata spænsku tónlistarkonunar Rosalíu, Lux (ljós á latínu), hefur vakið gríðarlega athygli að undanförnu. Ólíklegasta fólk er farið að stoppa mig úti á götu og lýsa með tilþrifum að þetta sé það besta sem það hafi heyrt í langan tíma. Það var því ljóst að það þyrfti að kafa í málið og það skjótt. Annar vinkill er þá aðkoma Íslendinga að verkinu en Björk syngur í einu laganna og Daníel Bjarnason stjórnar Sinfóníuhljómsveit Lundúna sem leikur undir í lögunum. Já, Ísland er víða í alþjóðaheimi poppsins!

Lux, fjórða plata Rosalíu, er mikil konseptplata. Gestkvæmt er á henni en auk Bjarkar koma þekkt nöfn eins og Charlotte Gainsbourg, Pharrell Williams og Venetian Snares við sögu. Þetta er feminískt verk og lögin eru innblásin af kvendýrlingum eins og Hildegard af Bingen, Rabiu Al-Adawiya og Miriam. Lögin, alls átján á efnislegum útgáfum (fimmtán á stafrænum), eru í fjórum hlutum („movements“) og textar eru á fjórtán tungumálum. Drjúgur tími fór í plötugerðina en Rosalía þurfti að setja sig inn í öll þessi tungumál til að geta sungið á þeim. Metnaðarfullt, heldur betur.

Ausin lofi alls staðar
Óhætt er að segja að um plötu ársins sé að ræða. Gagnrýni hefur nánast verið á einn veg: hér sé plata sem varpi upp nýjum hugmyndum um hvað popptónlist geti verið, samsláttur klassíkur og dægurtónlistar sé með hreinum ólíkindum og textalega sé platan einfaldlega á öðru plani. Það er sama hvar drepið er niður í miðlunum, allir hefja þeir Rosalíu upp til skýjanna. Þegar skrifin eru dregin saman liggur hrósið í því hvernig listakonan nær að samþætta ólíka hluti. Platan sé magnþrungin, „stór“ og epísk en um leið séu tilfinningar og einlægni í forgrunni. Hún sé nútímaleg um leið og byggt sé á gömlum grunni („proggrokkararnir eru öfundsjúkir,“ segir í einum dómnum).

Sumir rýnarnir fagna því að verkið sé andstætt tiktok-væðingunni, hér sé langt og ríkt verk, ekki 20 sekúndna skyndibiti. Kitty Empire, sem skrifar fyrir Observer, líkti Rosalíu kinnroðalaust við Björk og Kate Bush. „Lux er algerlega afdráttarlaus hvað metnað varðar,“ skrifar hún. „Þetta er marglaga verk sem tosar meginstraumshlustendur á staði sem þeir finna sig sjaldnast á.“

Er þetta svona gott?
Ég er hugsi yfir þessum viðbrögðum öllum, eðlilega, því þau eru svo afgerandi. Ég skil vel Bush- og Bjarkar-líkingarnar og þær má Rosalía eiga skuldlaust. Þetta er ótrúlega tilkomumikið verk og ég held að enginn hafi verið undirbúinn fyrir nákvæmlega þetta, ekki einu sinni þeir sem fylgst hafa með ferli hennar hingað til. Mikið af eldri karlmönnum úr íslensku bókmenntaelítunni eru í hæstu hæðum og þá fara grunsemdartilfinningar af stað innra með mér. Er nóg að syngja um dýrlinga, pæla í Biblíunni og skella í strengi til að heilla hökustrjúkarana? Athugið, ég er að gagnrýna þá, ekki Rosalíu.

Lux vekur líka almennar vangaveltur um poppplötur fyrri tíma sem krossa yfir í jaðarmenningu og klassísku deildina. Allt frá Sgt. Pepper og áfram. Ferðalag Scotts Walkers inn í þann heim og snilligáfu Brians Wilsons sem vottuð var af Leonard Bernstein. Merkilegt að poppið þarf alltaf samþykki frá „alvöru“ tónlistinni, ekki öfugt. Hvað Rosalía mun svo gera í framhaldinu er erfitt að spá fyrir um. En höfum það á hreinu, og ég vil vera skýr, að Lux er mikið meistaraverk, hvernig sem á það er litið. Blaður mitt og annarra breytir engu um kjarnann í þessu magnaða og sumpart óvænta útspili Rosalíu.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: