Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 9. október.

Stolt siglir snekkjan mín

Fréttaskýring vikunnar á tildrög í stórgóðri heimildarmynd sem út kom fyrir stuttu, Yacht Rock: A Dockumentary, þar sem fyrirbærið snekkjurokk er greint á fagmannlegan sem fumlausan hátt.

Stefnan, ef svo mætti kalla, reið röftum á árabilinu c.a. 1977-1983 og voru þekktustu nöfnin Doobie Brothers, Michael McDonald, Toto, Christopher Cross og Kenny Loggins. Dagskipunin var melódískt, ofurþægilegt popprokk með silkimjúku yfirbragði sem var hljóðversunnið upp í topp. Tónlistin eðlilega hötuð á þeim tíma af þeim sem þóttust vera með góðan smekk, tónlistin væri ofunnin, yfirborðskennd og líflaus. En síðan þá hefur fyrirbærið kúvenst. Fólk hafði ímugust á þessu, fór svo að „fíla“ þetta í gríni sem endaði með því, kannski óhjákvæmilega, að það fór að fíla tónlistina í alvöru án nokkurrar kaldhæðni eða skammar. Í stað þess að læðast meðfram veggjum var dálæti þess á „Africa“ með Toto úthrópað á torgum. Í dag er það svo að kornungir „hipsterar“ hlusta á þessa tónlist kinnroðalaust, lon og don. En hvaða furðufyrirbæri er þetta eiginlega?

Niðrandi, neikvætt heiti?
Það er í raun stórmerkilegt að tónlist, sem lá afskiptalaus í rökum plötubúðakjöllurum lengi vel og enginn vildi kannast við, vaxi upp í það að verða merki um fágaðan smekk og plús í töffarakladdann. Hvernig var þetta hægt? Tónlistarstíll/geiri sem á sér mikið líf og vinsældir, því næst hraksmánarlegan dauðdaga sem endar svo með glæstu framhaldslífi. Þetta snýst í raun réttu alls ekki um tónlistina sem slíka, heldur algerlega um þá merkingu sem hún öðlast hjá okkur, þeim sem hlusta, kaupa, spjalla og veifa sínu menningarlega auðmagni. Í dag eru haldnar hátíðir til heiðurs forminu, ábreiðusveitir reknar og nýir listamenn skírskota til tónlistarinnar í smíðum sínum. Lagaspottar (e. „playlist“) tileinkaðir snekkjurokkinu duna á veitingastöðum og í heimahúsum og lærðar greinar eru skrifaðar um hvað teljist vera undir þessum hatti og hvað ekki (dæmi: mynd af Steely Dan fylgir grein en þeir eru t.d. taldir meira til brautryðjenda en eiginlegra snekkjurokkara). Heitið sjálft er þá merkilegt því að það kom ekki fyrr en löngu síðar og þá í gegnum sjónvarpsþætti sem voru að gera grín að stefnunni! Snekkjurokk er því í raun niðrandi og neikvætt heiti þó að téðir þættir hafi verið gerðir af ástríki fremur en meinhornshætti. Þættirnir kallast einfaldlega Yacht Rock, voru sýndir á netinu 2005, og voru fimm til tíu mínútna langir.

Þakklæti og æðruleysi
Heimildarmyndin góða, sem ég mæli heilshugar með, skartar viðtölum við alla helstu páfana í snekkjurokkinu og það er athyglisvert að sjá hvernig þeir nálgast mál. Michael McDonald, sem eftir myndina er uppáhaldsdúllubangsinn minn, er fyrst og síðast glaður og þakklátur fyrir þá uppreistu æru sem þessar vendingar hafa haft í för með sér. Hann, og margir þeirra sem talað er við, rifja upp að þegar hljóðgervlar og myndbönd hófu innreið sína af krafti um miðbik níunda áratugarins hafi þeir orðið hallærislegir á einni nóttu eða svo gott sem. Þakklæti og æðruleysi svífur því yfir vötnum í myndinni auk þess sem mannskapurinn er einlæglega hissa yfir þróun mála. „Það er svalt að vera hallærislegur,“ kvað Huey Lewis skömmu eftir gullaldartíma snekkjurokksins. Orð að sönnu.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: