Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 20. nóvember.

Maðurinn er alltaf einn

Ég gleymi því ekki er ég, fjórtán eða fimmtán ára, setti Nebraska fyrst undir nálina. Af stað fór tónlist sem var dökk bæði og krómuð, strípuð og hrá, þung og nánast kæfandi. Það var eins og ég hefði ratað inn á löngu horfnar útvarpsbylgjur og væri að heyra tónlist úr fortíðinni sem var samt fullkomlega tímalaus. Og þetta frá manninum sem tók „pabbadansinn“ í hinu ægihressa „Dancing in the Dark“!? Þegar ég rifja þetta upp finnst mér eins og myndbandið við eitt laganna, „Atlantic City“, hafi rekið mig í átt að plötunni. Ég átti vídeóspólu með myndböndum Springsteens og þetta myndband var ólíkt öllum hinum. Svart/hvítt, skreytt melankólískum myndskeiðum frá téðri borg. Lagið var gott, það var ákefð í því blandin sorg sem náði mér. Þetta var ekkert langt frá þessari þunglyndisnýbylgju sem ég var svo hrifinn af á þessum tíma.

Umslag Nebraska náði mér líka strax. „Ömurleg“ mynd prýðir það, næsta níhílísk, mynd sem vekur hugarvílið sem einkennir þessa ótrúlegu plötu sem var tekin upp með tilstuðlan fjögurra rása græju sem stillt var upp í svefnherbergi húss sem Springsteen leigði í smábænum Colts Neck í New Jersey. Upptökurnar fóru inn á kassettu hvers innihald var svo gefið út sem næsta plata Springsteens, ósnert með öllu.

Afar vel heppnuð kvikmynd
Þessi ákvörðun Springsteens þótti í senn huguð og fífldjörf og hefur sagan í kringum Nebraska tekið á sig mynd goðsögu. Árið 2023 kom út bókin Deliver Me from Nowhere, hvar farið er í saumana á þessu tímabili, og fyrir stuttu var kvikmyndin Springsteen: Deliver Me from Nowhere, sem byggist á bókinni, frumsýnd, en leikarinn Jeremy Allen White fer með hlutverk Stjórans eins og hann er einatt kallaður. Tilurð þessara skrifa er þessi mynd, sem er ekkert minna en stórkostleg. Myndinni tekst að lýsa þessum erfiðu tímum í lífi Springsteens fullkomlega, þunglyndið sem marar undir öllum hans gjörðum er knúið fram á skjáinn með glæsilegum hætti. Ég átti von á því að ég gæti speglað myndina í nýlegri Dylan-kvikmynd hvar Timothée Chalamet fer með hlutverk skáldsins. Báðar þessar myndir eru einstaklega vel lukkaðar en þær eru ólíkar. Dylan-myndin er sprúðlandi og spennandi en Springsteen-myndin er þyngri, án Hollywood-væmni, og framvindan er listavel tempruð. Það eru senur sem næstum kalla á hysteríska, ýkta draumaverksmiðjuhanteringu en það er aldrei farið þangað inn. Þetta er styrkur myndarinnar. Hún er jarðbundin og þess vegna sannfærandi.

Kvöl og pína listamannsins
Jeremy Allen White er magnaður sem Springsteen og hann ber myndina. Hann nær að leiða okkur inn í hugarástand þessa heimsfræga söngvaskálds hvar efi, óöryggi og vangeta til að taka til í eigin ranni fylgja honum hvert skref. Myndin fjallar um þetta, en líka kvöl og pínu hins sanna listamanns. Myndin er líka saga um vináttu. Öflugustu senurnar eru þegar Springsteen og umboðsmaður hans og vinur, Jon Landau (frábærlega leikin af Jeremy Strong), eiga stundir saman. Þeirra tenging, og atgervi Landaus almennt, snertir mann. Myndin tekst líka á við samband Springsteens og föður hans, nokkuð sem er miðlægt í lífi Springsteens, þá og nú. Hann skrifar sjálfur ótrúlega djúpan og næman texta um þetta í sjálfsævisögu sinni, Born to Run, og sú frásögn í bland við óveðursskýin sem einkenndu Nebraska-tímabilið leiðir þessi mál í ljós, á fallegan og ægisorglegan hátt. Það var ekki þurr hvarmur í salnum getum við sagt en myndina sá ég á dögunum í Kringlubíói. Kvikmynda- sem tónlistaráhugafólk ætti að stinga sér á bólakaf í þessa gefandi laug.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: