janelle monae

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 7. desember, 2013]

Hinn karllægi tónlistarheimur

• Mikil kynjaskekkja einkennir dægurtónlistina
• Aukin meðvitund um þessa staðreynd er nauðsynleg

Tónlistarritið Uncut fagnaði tölublaði númer 200 í mánuðinum og birti af því tilefni örmyndir af öllum kápum blaðsins fram að þessu. Þar var að finna fimm konur. Kate Bush, Joni Mitchell, PJ Harvey, Patti Smith og – undarlegt nokk – Shelby Lynne. Engin Björk, Tori Amos, Dolly Parton … Madonna. Og svo má telja. Meginkeppnisrit Uncut, Mojo, birti þá fyrir stuttu lista yfir bestu plötur ársins. Kona kemur ekki við sögu fyrr en í 20. sæti, og þá er það plata Lauru Mvula, Sing to the Moon, sem er heldur léttvæg plata miðað við svo margt annað sem hefur komið út á árinu úr þessari átt. Laura Marling, Cate Le Bon, (Alison) Goldfrapp, Neko Case, Julia Holter, Janelle Monáe, allar þessar konur og fleiri til áttu framúrskarandi verk á árinu. En þegar kemur að uppgjörum prýða þær nánast án undantekninga neðri sætin – ef þær eru þá á listunum yfirleitt. Og þetta er bara ein af fjölmörgum birtingarmyndum þess hvernig staða kvenna er í poppi samtímans.

Innræting

Nú er ljóst að hæfileikaleysi er ekki ástæða þess að konur eru sjaldséðari á svona listum. Nei, um er að ræða nokkurs konar lærða kerfisvillu, innrætingu sem við verðum öll fyrir frá því áður en við byrjum að geta gengið. En það að þetta sé ekki náttúrulögmál þýðir um leið að það er hægt að breyta þessu. En það gerist ekki nema með aukinni meðvitund, uppfræðslu og markvissum aðgerðum bæði innan frá (bransinn/tónlistarheimurinn) og utan frá (hlustendur/„móttakendur“).
Dæmi: Ég þarf að fylgjast með sjálfum mér í þessum pistlaskrifum því að áður en ég veit af er ég búinn að skrifa tíu pistla í röð um karlmenn. Dægurtónlistariðnaðurinn er það karllægur að maður sogast sjálfvirkt í þá átt. Fyrir stuttu gerði ég svo faglega gloríu sem tengist nákvæmlega sama hlut og var hún kveikjan að þessum skrifum. Helsta röksemdin gegn því sem ég er að reifa er að ef hæfileikar væru málið myndu þeir skila fólki í hæstu hæðir hvort sem er, og kynið skipti þá engu máli. En þetta er bara ekki rétt. Konum er haldið niðri í þessum heimi með flóknu samspili valdatækja sem hafa þróast í gegnum árþúsundir. Höfum það líka á hreinu, að flest erum við tiltölulega meðvitundarlaus gagnvart þessu, það vaknar enginn á morgnana og hugsar: „Nú ætla ég að gera mitt allra besta til að viðhalda þessu rangláta kerfi!“. Þessir hlekkir eru mikið til ósýnilegir en um leið mjög svo raunverulegir og hindra hæfileikaríka, kvenkyns tónlistarmenn í að ná sjálfsögðum markmiðum sem karlmenn hafa sjálfgefna flýtileið að. Í nákvæmlega þessu felst óréttlætið og ósanngirnin sem svo oft er rætt um í þessu samhengi.

Ormagryfja

Að þróa og þroska með sér meiri meðvitund að þessu leytinu til er því algerlega nauðsynlegt. Þetta virðist einfalt á pappír en þið þekkið líka öll ormagryfjuna sem opnast iðulega þegar svona mál ber á góma (þið takið líka eftir því að ég hef ekki einu sinni notað orðið sem hleypir öllu í bál og brand). Öll vinna og vakning að þessu leytinu til er jákvæð og ég nefni t.d. rannsókn Láru Rúnarsdóttur og Gyðu Margrétar Pétursdóttur á þessum efnum, „Konur í tónlist“ (hægt að sækja hér: skemman.is/handle/1946/16776).
Ég á mér draum, draum um að ritstjóri Uncut bakki tuttugustu forsíðunni af Bruce Springsteen á næsta ári og skelli inn mynd af Madonnu í staðinn ásamt yfirlitsgrein um merkan feril hennar. Leiðréttingarferlið þarf nefnilega að vera áþreifanlegt, ekki bara í pælingapistlum eins og þessum hér.

3 Responses to Hinn karllægi tónlistarheimur

  1. Frábær grein. Fagleg og fáguð.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: