Íslenskur svartmálmur 1987 – 2025: Þróun og staðan í dag
Höfundur: Viktor Árni Veigarsson

Hér er á ferðinni námsritgerð sem mér, Arnari, barst á vettvangi Listaháskóla Íslands. Höfundurinn, Viktor Árni, veltir hér ýmsum skeiðum íslenska svartþungarokksins fyrir sér og samantektin er að mörgu leyti stórgóð. Skrif af þessu tagi eru fátíð og ég, sem kennari Viktors, fannst synd að skrifin færu beint ofan í skúffu eins og langalgengast er með svona ritgerðir.  

Ég fór því fram á það við hann að birta þetta hér, einfaldlega til að koma þessu út og gera þetta „dreifanlegt“. Gaf hann góðfúslegt leyfi til þess.

Ég lagfærði og snikkaði til á völdum stöðum og setti inn athugasemdir ef þurfti. Athugið vel að þetta er námsritgerð og ber að lesa textann þannig.  Þetta er ekki fullbúið handrit enda aldrei ætlað að fara út fyrir augu kennarans.

Ritgerðin heitir upprunalega Andleg óreiða og óhljómur: Tónlistargreining á íslensku black metali og var skrifuð á vorönn 2025 fyrir námskeiðið Saga dægurtónlistar sem kennt er við Listaháskóla Íslands.

***

Andleg óreiða og óhljómur: Tónlistargreining á íslensku black metali

Íslenskt black metal hefur á undanförnum árum vakið athygli víða um heim fyrir einstakan hljóðheim og myrkari, andlega dýpri nálgun en margt af því sem áður hefur heyrst innan greinarinnar. Þrátt fyrir að vera hluti af alþjóðlegri stefnu sem á rætur að rekja til Noregs snemma á tíunda áratugnum, hefur íslenskt black metal þróað með sér sérstöðu sem endurspeglar bæði náttúru landsins og þá andlegu spennu sem oft fylgir einangrun, myrkri og goðsögulegri fortíð. Í þessari ritgerð verður leitast við að greina hvað það er nákvæmlega sem lætur íslenskt black metal hljóma eins og það gerir — hvaða tónlistarlegu, menningarlegu og tilvistarlegu þættir sameinast í þessu einstaka formi óhefðbundinnar tónlistar.

Fire & Ice / Fire & Steel…

Það er almennt viðurkennt á alþjóðavettvangi að upphaf íslensks black metal byrjaði árið 1987 með plötunni “Fire and Steel” með hljómsveitinni Flames of Hell. Meðlimir Flames of Hell voru meira innblásnir af thrash metal og speed metal og hljómsveitin er stundum talin vera partur af fyrstu bylgjunni sem innihélt hljómsveitir eins og Bathory frá Svíþjóð, Celtic Frost frá Sviss og Venom frá Englandi. Árið 1997 svo kom út goðsagnakenndi safndiskurinn Fire & Ice. Þar má heyra í hljómsveitum eins og Ámsvartnir, Sólstafir, Forgarður Helvítis og Fields of the Filthy. Ámsvartnir og Sólstafir tóku klárlega mikinn innblástur frá senunni í Noregi á 10. áratugnum og Bathory. En það merkilega við Sólstafi er að það var fyrsta bandið sem var stofnað sem ætlaði að spila bara black metal til að byrja með, á meðan aðrar hljómsveitir frá þessum tíma voru líka innblásnar af dauðarokkinu og grindcoreinu. Eftir aldamót birtust hljómsveitir eins og Myrk, Curse (áður þekkt sem Thule) og Grief (Proto-Svartidauði) (AET: Það er annars mikið rætt um hver sé fyrsta alvöru íslenska svartmálmssveitin og Flames of Hell, Ámsvartnir og Sólstafir allar nefndar í því tilliti).

Taflan.org

Árin 1999-2010 var vefsíða undir nafninu taflan.org þar sem var spjallþráður fyrir áhugamenn um þungarokk sem gátu póstað um bönd sem þeir vildu segja frá. Á þeim tíma voru menn að deila hljómsveitum eins og Katharsis, Funeral Mist, Watain, Dead Congregation og Deathspell Omega. Hvað eiga þessar hljómsveitir sameiginlegt? Vissulega mun venjuleg manneskja giska að þetta sé allt öfgakennd, ofbeldisfull og dularfull tónlist, sem er að vissu marki ekki rangt. En menn sem kafa dýpra sjá tenginguna mjög skýrt; allar þessar hljómsveitir hafa verið gefnar út hjá plötuútgáfufyrirtækinu Norma Evangelium Diaboli. Eftir aldamót var black metal orðið úrelt og ekki talið lengur flott að herma eftir Norðmönnunum í Mayhem, Burzum, Darkthrone o.s.frv.. Norma Evangelium Diaboli (eða NoEvDia) hækkuðu standardinn almennt fyrir black metal.

Deathspell Omega og áhrif þeirra á íslenskt black metal

Norma Evangelium Diaboli er franskt plötuútgáfufyrirtæki sem var stofnað af MkM úr hljómsveitinni Antaeus og meðlimum Deathspell Omega. Flestar lykilpersónur í íslensku black metal senunni hafa talað um það að þegar Deathspell Omega gáfu út plötuna “Si Monumentum Requires, Circumspice” árið 2004 þá breyttist allt, ekki bara á Íslandi heldur líka á alþjóðlegan máta um hvað black metal getur verið. Þessi plata er byrjunin á “base line” fyrir hljóðheiminn sem öll helstu black metal böndin hafa fengið innblástur frá. Það sem einkennir Deathspell Omega frá öðrum black metal böndum á þeim tíma var að þetta var ekki einungis black metal. Á “Si Monumentum Requires, Circumspice” þá geturðu fundið dark ambient kafla, kirkjukór, virkilega kaffærandi kafla í tónlistinni sem leiða svo í losun, bæði andlega og tónlistarlega. Deathspell Omega gaf út þrjár plötur sem eru taldar vera mikilvægustu plötur á þeirra ferli. Þær eru:

1. Si Monumentum Requires, Circumspice (2004)

2. FAS – Ite, Maledicti, in ignem Aeternum (2007)

3. Paracletus (2010)

Þessar þrjár plötur eru mjög þungar í hlustun og þú annað hvort fattar þetta eða ekki. Dagur í aftökusveitinni Misþyrmingu orðaði þetta best:

„Þegar ég hlustaði á Deathspell fyrst þá skildi ég þetta ekkert. En ég hlustaði bara aftur og aftur þar til að ég skildi þetta.“

Deathspell Omega varð meira og meira avant-garde með hverri plötu. Á meðan Si Monumentum var meira black metal, þá varð Deathspell meira tilraunakennd með FAS og Paracletus. Virkilega hröð tónlist og melódíur sem hægt er að syngja við, melankólísk og kaffærandi, falleg en virkilega ljót tónlist. Deathspell Omega sækir ekki bara innblástur frá black metal, heldur líka frá klassískri tónlist 20. aldar og György Ligeti. Sama í hvaða átt þeir fóru þá varð hjartað alltaf svart og grimmt.

Hof Holdsins

Árið er 2010 og Svartidauði náði að afreka það sem engin black metal hljómsveit frá Íslandi hefur gert. Þeir spiluðu í útlöndum, sem var alveg stórkostlegt á þeim tíma. Þeir fengu að spila á hátíðinni Nidrosian Black Mass í Þrándheimi. Árið 2012 gefur hljómsveitin Svartidauði út sína fyrsta plötu, Flesh Cathedral, hjá norska útgáfufyrirtækinu Terratur Possessions (sama fólkið sem var með Nidrosian Black Mass). Þessi plata setti íslenskt black metal á kortið. Þá áttaði fólk sig á því að það væri í alvörunni hægt að skapa og gefa út góða black metal tónlist frá íslandi, en fyrir marga var þetta fjarlægur draumur.

„Bands that are active today, like Mannveira and Naðra…,“ Dagur (Misþyrming) relays to Hanna Jane Cohen, Reykjavik Grapevine journalist, “… were all in the idea stage at that point. The release of ‘Flesh Cathedral’ changed everything in the Icelandic black metal scene. Everybody realised it was possible to make a good black metal album in Iceland, even though it’s so isolated.” (Cohen, 2016).

Á Flesh Cathedral eru löng lög (stysta lagið, “The Perpetual Nothing”, er 10:34), notkun á ómstríðu í tónlistinni, svipað og Deathspell, til að mynda óþægilegar spennur. Líka þess virði að nefna að Deathspell Omega leggur rosalega mikinn áhersla á andlega og heimspekilega dýpt, sem og áherslur á post-módernískar og guðfræðilegrar pælingar sem eru oft byggðar á hugmyndum frá Bataille, Hegel og gnostískum textum. Svartidauði hefur sínar rætur í djúpri andlegri óreiðu og myrkum íhugunum um mannlega tilvist, niðurbrot og merkingarleysi. Textar þeirra eru jafnvel óræðari, en jafn djúpir. Báðar sveitir leggja upp með það að tónlist þeirra sé andleg upplifun, næstum helgisiður. Flesh Cathedral er líkt og ferð inn í hug andlegrar angistar, ekki ósvipað því hvernig Deathspell Omega býður hlustanda inn í heimspekilega, andlega eyðimörk. En Svartidauði er langt frá því að vera bara að herma eftir Deathspell Omega.

Hápunktur

Á árunum 2012–2016 verður vart við það sem margir fræðimenn og gagnrýnendur hafa kallað blómaskeið íslensks black metal, þar sem listræn dýpt, hljóðræn nýsköpun og alþjóðleg athygli ná hámarki í verkum hljómsveita á borð við Svartadauða, Misþyrmingu og Carpe Noctem. Íslenskt black metal sprakk út eftir að Misþyrming gaf út “Söngvar Elds og Óreiðu” 2015, eins og Flesh Cathedral, var líka gefin út hjá Terratur Possesions. Þessi ár tóku allir eftir því sem var að gerast. Fleiri og fleiri hljómsveitir voru að fá meiri athygli bara vegna þess að þær voru frá Íslandi, sveitir eins og Mannveira, Sinmara, Abominor, Naðra, Carpe Noctem og Núll. Dagur í Misþyrmingu er líka upptökumaður og á þessum tíma tók hann upp megnið af þessum böndum fyrir útgáfur á þessu tímabili og gerir enn í dag. Það leiðir til þess að þegar margar hljómsveitir taka upp í sama rými, með sömu græjur og sama fólkið, þá myndast eflaust ákveðinn hljóðheimur sem fólk fer að taka eftir, hvort það sé meðvitað eða ómeðvitað.

„No group, though, was exempt from criticism,“ writes Hanna Jane Cohen in her fine Grapevine article from 2016. She then quotes some musicians: „A lot of people are jumping on the bandwagon now. They’re just Svartidauði clones,“ one musician tells me (Hanna) when I ask about some smaller black metal projects in Iceland. Even popular bands like Misþyrming and Svartidauði aren’t left out. „They are just mimicking that French black metal sound. It’s not original,“ an unnamed black metaller says with a sigh. The French black metal sound refers to bands like Deathspell Omega, which have a rough dissonant style. He might have a point—Misþyrming and Svartidauði are all about dissonance. But Sturla (Svartidauði) scoffs when I mention this to him. “C’mon,” he tells me. “You do one discordant note and suddenly you are Deathspell Omega. Fuck that!” He puts down his beer and turns serious. „Great band though.“ (Cohen, 2016).

Kynslóðabil og notkun á hljómum/tónbilum

Í raun og veru var þessi sena bara lítill vinahópur af þungarokkurum að gera tónlist, ekkert ósvipað og Selfyssingarnir á Fire & Ice safndiskinum. Tómas Ísdal talar um það að það líða oftast um 5-7 ár á milli þangað til að næsta kynslóð tekur við (Shiiver, 2023).

Hljómsveitir eins og Forsmán voru með það markmið til að byrja með að semja “íslenska black metal plötu”, sem þeir gerðu vissulega. Með því að læra Misþyrmingar og Svartadauða lögin lærðu þeir að spila eins og þeir spila, maður getur litið á það eins og heimanám. Ekkert ósvipað og kapparnir í Skurðgoð (áður þekkt sem Vampíra, sigurvegarar músíktilraunir 2024) að læra lög eftir Forsmán og Meinsemd. Mikil notkun á skölum eins og frýgískum, lókrískum og hljómhæfum moll (harmonic minor). Hljómar eins og moll 9unda hljómar, Diminished hljómar, #5 hljómar og sérstaklega mikil notkun á óþægilegum tónbilum milli nótna eins og stækkaðar ferundir, litlar tvíundir og litlar/stækkaðar sjöundir.

Óhljóð og ómstríða

Hasjarl, einn meðlimur Deathspell Omega útskýrir hugtakið Neue Musik þegar hann var spurður út í þessa ómstríðu hljóma sem Deathspell og fleiri hljómsveitir notfæra sér í sinni tónlist:

„Neue Musik also forged the understanding that one does not necessarily have to reason in terms of traditional melodies, riffs, or scales but that music can be the expression of pure abstract emotion; that the moment you turn organic instruments into animals screaming to the death, as Penderecki did with the “Threnody to the Victims of Hiroshima”, you’ve reached a certain musical language that yields unadulterated truth“. (Göransson, 2019).

“Pure abstract emotion”. Þetta bendir til þess að öll þessi ómstríða og geðveiki sem maður heyrir í þeirra tónlist er ekki handahófskennt, þetta er allt gríðarlega útpælt, sem krefst þess að vera með eyrað í þetta til að geta skilið hvað er í gangi. Deathspell Omega og fleiri byrjuðu með þetta í black metalinu en íslenska senan hefur tekið þetta til sín og búið til eitthvað glænýtt og byggt ofan á allt þetta.

Niðurlag

Þegar litið er yfir þróun íslensks black metal frá frumstæðum upptökum á safndiskum eins og Fire & Ice, gegnum framsækin áhrif NoEvDia og Deathspell Omega, og yfir í Flesh Cathedral og Söngva elds og óreiðu, verður ljóst að þessi sena er ekki einfaldlega afrit af erlendum straumum, heldur sjálfstæð listræn hreyfing. Með þéttri vinatengingu, samvinnu á milli hljómsveita og upptökumanna, og sameiginlegum rannsóknargrunni í því hvernig óhljómur og ómstríða eru notuð sem dramatísk og huglæg hljóðform, hefur myndast séríslenskt tónmálskerfi innan black metalsins. Þetta kerfi byggir ekki eingöngu á tónbilum og hrynmynstrum, heldur á framleiðsluferli sem kallar fram tiltekin sérkenni sem birtast ekki aðeins í því sem er spilað, heldur hvernig efnið er hljóðritað og mótað í hljóðvinnslu. Margar af lykilplötunum voru teknar upp af sama fólki, í svipuðum rýmum, með sömu græjum, ekki vegna skorts á fjölbreytni, heldur meðvitaðri fagurfræðilegri ákvörðun. Það verður til þessi ákveðni hljómur, drungalegur, dofinn, djúpur og óþægilega nærgöngull. Það sem á yfirborðinu gæti virkað hrátt og lítið unnið, er í raun ákaflega útpælt og markvisst. Notkun á daufum rýmisgöllum, overdrive-um sem hljóma næstum eins og útnesjar í þokukenndu myrkri, og trommusettum sem eru mitt á milli ritúalískrar endurtekningar og ofbeldislegrar keyrslu, skapar þá hljóðmynd sem nú er nánast samofin hugmyndinni um íslenskt black metal. Tónlistin er ekki lengur aðeins tónlist — hún er hljóðræn heimspeki, andleg úrvinnsla og skynrænn helgisiður. Og þegar heyrist í daufum ómstríðum og sárum málmstrengjum, í vindsveipum yfir trommum og djúpum morknum röddum — þá heyrist ekki aðeins íslenskt black metal. Þá heyrist landslagið sjálft. Þá heyrist andinn sem varð eftir. Í dag stendur íslenskt black metal sem vitnisburður um hvernig jaðarhreyfing getur orðið að menningarlegu afli. Ekki í krafti magns, heldur gæðum, ekki í skugga norskrar arfleifðar, heldur eigin myrkri.

Heimildaskrá

Cohen, Hannah Jane. “Welcome to the Circle – Meet the Men Behind Iceland’s Thriving Black Metal Scene.” The Reykjavík Grapevine, February 5, 2016. https://grapevine.is/mag/feature/2016/02/05/9944685/.

Göransson, Niklas. “Deathspell Omega.” Bardo Methodology. June 23, 2019. https://www.bardomethodology.com/articles/2019/06/23/deathspell-omega-interview/.

Shiiver. “Ritual Soundscapes and the Icelandic Underground.” Arcane Archivist, no. 4 (Winter 2023): 22–29.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: