lady gaga[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 9. nóvember, 2013]

Eru klærnar enn á krúnunni?

• Lady Gaga gefur út plötuna Artpop
• Alvöru poppdrottning eða loddari?

 
Lady Gaga fór mikinn um og eftir útgáfuna á sinni fyrstu plötu, The Fame (2008) og rætt var um hana sem hinn eina sanna arftaka Madonnu. Ekki síðan að sá mikli popplistamaður var upp á sitt besta hafði annars eins ugluspegill komið fram; list Lady Gaga var fjölþætt eins og svo gjarnan hjá farsælustu dægurtónlistarmönnunum í dag, snerist bara að hluta til um tónlist og jafn mikil vigt (jafnvel meiri myndi einhver segja) var sett á ímyndarsköpun og fjölmiðlafimleika. Lady Gaga hagaði sér oft og tíðum eins og gjörningalistamaður og mörkin á milli ruslkenndrar, einnota hversdagslistar og framsækinnar nútímalistar óskýr á köflum.

Warhol-ískt ferðalag

Lady Gaga hefur haldið þessari stöðu sinni, eiginlega rétt svo, þar sem önnur plata hennar, Born this Way (2011), reyndist ekki það drottnunartæki sem listamaðurinn var greinilega að reyna að sníða til. Ei er Gaga þó af baki dottin, og nú eftir helgi kemur þriðja breiðskífan, Artpop, út. Titillinn er stórkarlalegur og virkar eins og yfirlýsing; ýjað er að því að list Gaga risti dýpra en hefðbundið, fjöldaframleitt popp samtímans og er ýmsum brögðum beitt til að undirstrika þetta. Umslag plötunnar er t.a.m. hannað af Jeff Koons og plötunni lýsir Gaga sjálf sem „ljóðrænu tónlistarferðalagi.“ Þá lýsti hún því yfir í bloggi sínu að platan yrði „warhol-ískt ferðalag með öfugum formerkjum,“ hvað sem það nú þýðir.
Gaga vann plötuna með fjölda upptökustjóra; Madeon og Zedd koma við sögu en einnig RedOne og DJ White Shadow sem hafa unnið þónokkuð með henni áður. Gestir eru m.a. R. Kelly, T.I., Twista og Too Short. Plötunni hefur verið seinkað nokkuð en í febrúar á þessu ári fór Gaga í mjaðmaraðgerð sem hafði þónokkur áhrif á alla framvindu. Hún útskýrði sköpunarferlið í viðtali við Women’s Wear Daily, þar sem hún rýndi í bókmenntir sem og tónlist ásamt teymi sínu í drykklangan tíma og dýrkaði upp andagiftina sem aldrei fyrr: „Ég fór yfir plötuna á nýjan leik og tíminn eftir aðgerðina var vel nýttur í að melta plötuna og stara rækilega inn í það sem ég hafði gert upp að þeim tíma,“ lýsir hún. „Svo kom að því að þessi dásamlega tilfinning, sem segir manni að maður sé á réttri leið með eitthvað, helltist yfir mig.“

Húðflúrað app

Eins og lög gera ráð fyrir hefur markaðssetning plötunnar ekki verið með eðlilegum hætti. Fyrir það fyrsta er söngkonan búin að húðflúra heiti hennar á sig og auk hefðbundinnar plötuútgáfu kemur Artpop einnig út sem app sem hannað hefur verið af tæknideild Haus of Gaga, en Haus of Gaga er nokkurs konar listiðju/hugmyndateymi sem vinnur í anda Verksmiðju Andy Warhol. Enn eitt dæmið um hversu upptekin Gaga er af því að krossa yfir í „alvöru“ list með popplist sína eins og Warhol sjálfur gerði á sínum tíma. Haus of Gaga er giska áhugavert fyrirbæri; samsafn ljósmyndara, hönnuða, myndlistarmanna o.s.frv. og sér um fatnað, muni, förðun, myndbönd og annað sem tengist Gaga. Kjötkjóllinn frægi er t.d. runninn undan rifjum þessa batterís. Einn af meðlimum Haus of Gaga er t.d. ljósmyndarinn umdeildi Terry Richardson og er hann með heimildarmynd í smíðum sem varpar ljósi á vinnsluferlið í kringum Artpop.
Gaga hefur þá verið að troða upp á ýmsum stöðum að undanförnu til að kynna gripinn. M.a. kom hún fram á G-A-Y næturklúbbnum í London þar sem hún afklæddist óforvarandis, fólki til hrellingar sem og ánægju. Nekt nútíma kvenpoppstjarna hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu en í tilfelli Gaga hlýtur að vera dýpra á slíkum æfingum. Verðum við ekki að gefa okkur það, eða vona það a.m.k.?

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: