kevin shields

 

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 9. febrúar, 2013]

Hljóðarkitektinn mikli

• Ný plata með My Bloody Valentine kom óvænt út um síðustu helgi
• Aðdáendur hafa beðið í nærfellt kvartöld eftir gripnum

Það var árið 1991 sem My Bloody Valentine, kóngar (og drottningar) hinnar svofelldu skóglápsstefnu (e. „shoegaze“) gáfu út Loveless, sína aðra plötu. Fyrsta breiðskífan, Isn‘t Anything, kom út 1988. Báðar þykja plöturnar mikil öndvegisverk og hafa báðar öðlast stöðu tímamótaplatna. Sérstaklega síðari platan en uppátektarsemi og framsýni Kevins Shields, lagasmiðs og hljóðarkitekts sveitarinnar, hvað möguleika gítarsins í dægurtónlist áhrærir þóttu með miklum ólíkindum og er hann hæglega með áhrifameiri rokkgítarleikurum sögunnar.
Sérstaklega er hann á miklum stalli hjá X-kynslóðinni, þeirri sem ólst upp við grugg og neðanjarðarrokk í kringum 1990. Þetta fólk (já, og ég tilheyri því) hefur beðið eftir þriðju plötu Shields og félaga með öndina í hálsinum í nú 22 ár. Plötunni atarna, sem kallast einfaldlega „m b v“, var síðan nánast hent út um síðustu helgi, var smellt upp á youtube-setur sveitarinnar með engum fyrirvara. Neðanjarðarrokksheimar og hökustrjúkarar víða um lönd eru að melta gripinn í þessum töluðu orðum og eru áhöld um hvernig til hefur tekist, nema hvað.

Forsaga

En vindum okkur fyrst í smá forsögu. Fljótlega eftir að Loveless kom út 1991 var farið að tala um næstu plötu og tónlistaráhugamenn að vonum spenntir (þetta ár, 1991, er ótrúlegt ár. Það ár komu líka út Nevermind, Spiderland, Screamadelica, The Low End Theory og Blue Lines!). Sagan segir að fullkomnunarárátta Shields hafi riðið útgáfu hans, Creation, að fullu og vissulega var Loveless erfið fæðing. MBV, eins og hún er jafnan skammstöfuð, gerði samning við Island í kjölfarið og Shields hóf að byggja eigið hljóðver sem var klárað í apríl 1993. Síðan þá hafa fréttir af „nýju“ plötunni verið stöðugar en aldrei hefur neitt verið fast í hendi. Geðveiki, ritstífla, andleysi og hinu og þessu hefur verið slengt fram sem ástæðum en aldrei hefur fengist staðfesting á neinu af þessu. Shields sagði þá í einu viðtali að hann hefði einfaldlega „misst það“ í kjölfar Loveless.
Bandið kom svo saman aftur árið 2007 til að leika á tónleikum. Sú virkni ýtti loks á að mál yrðu kláruð og platan hefur verið að skríða saman hin síðustu ár. Lokaupptökur fóru fram í Írlandi í síðasta mánuði og svo var plötunni dúndrað út um síðustu helgi eins og áður segir.

Hvernig er?

Í eina tíð fór maður í búð, keypti, upp í strætó, handlék, setti á fóninn, hlustaði og hringdi kannski úr símanum hjá mömmu og pabba í vin til að boða fagnaðarerindið. Í dag er þetta ögn hraðvirkara.
Platan liggur í heild sinni á youtube núna og fyrir tilstuðlan samfélagsvefja eins og Tísts og Fésbókar eru viðbrögð og skoðanaskipti bæði fljót og ör. Ég ætla ekki að dæma í þessum „fréttapistli“ en vil þó segja að hljóðheimurinn er kunnuglegur, engar áhyggjur þar. En svo er togast á um þetta hefðbundna, eitthvað sem fylgir ávallt útgáfum af svona tagi. Eftirvæntingin er það mikil að það má nánast sjá hvernig Fésbókin tútnar út í þessum löngu MBV-umræðuþráðum. Hallelúja segja sumir, sverja og sárt við leggja og vei þeim sem rengja æðsta prestinn Shields. Aðrir eru vonsviknir yfir þeirri staðreynd að platan nýja getur aldrei framkallað sömu hughrif og þegar menn og konur voru rjóð í kinnum að soga í sig tónlist í fyrsta skipti á unglingsárum. Annaðhvort er platan góð eða ekki, burtséð frá sögulegu byrðinni, er eitt viðhorfanna sem er flaggað, en aðrir vilja meina að sögulegur og menningarlegur aðdragandi spili óhjákvæmilega inn á það hvernig fólk meðtaki plötuna og skynji. En tékkið bara á þessu. Hún er í „eins smells“ fjarlægð eins og sagt er.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: