11217943_10153113294474926_1117904037324617449_o
Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 18. júlí, 2015

Meira pönk, meiri fræði!

• Ráðstefna um allra handa neðanjarðartónlist í Portúgal
• Yfir 250 fræðimenn hvaðanæva úr heiminum

Í síðustu viku sótti ég ráðstefnu í Porto sem hafði með neðanjarðartónlist að gera. KISMIF (Keep It Simple Make It Fast – Crossing Borders of Underground Music Scenes) eins og ráðstefnan kallaðist fullu nafni var nú haldin í annað sinn og fræðimenn á ýmsum stigum í sínum ferli flykktust til borgarinnar.

Umfangsmikið

Magnið af fyrirlestrum var sláandi, yfir 250 talsins á þremur dögum. Dögunum var skipt í þrjá hluta, innan hvers og eins hluta voru svo fimm „riðlar“ samtímis og fimm fyrirlestrar í hverjum og einum. Keyrslan var hröð – í anda ráðstefnuheitisins – og hver fræðimaður fékk tæpt korter til að buna vísdómnum út. Margbreytileikinn í efnistökum var tilkomumikill, pönk í Portúgal, rokkmömmur, tyrkneskt þungarokk, neðanjarðarblaðaútgáfa, eðli hausaskaks, tengslamyndun hjá „emo“-krökkum, sýrubillíhátíðir í Finnlandi. Já, ég veit, þetta er eiginlega of gott til að vera satt. Dick Hebdige, höfundur hinnar áhrifamiklu bókar Subculture: The Meaning of Style og Dave Laing, höfundur One Chord Wonders, fyrstu fræðibókarinnar um pönk, héldu þá lykilræður. En auk þess klikkuðu skipuleggjendur ekki á því að tengja ráðstefnuna við umfjöllunarefnið og tónleikar, kvikmyndasýningar, bókasýningar og alls kyns uppákomur voru hluti dagskrár.
Nú er ég búinn að fara á nokkrar fræðaráðstefnur og það eru nokkur gegnumgangandi minni í þeim öllum. Internetið t.a.m. virkar aldrei og ef það er hægt að koma því í gang er það eftir dúk og disk með tilheyrandi riðlunum (ég er fyrir löngu hættur að taka áhættu og spila hljóðdæmi af skrá en ekki þjónvarpinu (youtube)). Skipulag er misgott eðlilega en fordómar fyrir hinum „hægu“ Portúgölum gufuðu fljótt upp. Þeir keyrðu ráðstefnuna alveg jafn vel og hverjir aðrir. Betur í sumum tilfellum; notkun á samfélagsmiðlum var t.a.m. til fyrirmyndar þó að hitt og þetta hafi verið í tómu rugli (heimasíða ráðstefnunnar var t.d. óttalegt torf og ekki beint í anda einfaldleikans sem boðaður er í viðfangsefninu).

Sérkennilegar samkundur

Félagsfræðingurinn í manni fer líka ósjálfrátt í gang á svona samkundum og það er dálítið kostulegt að greina þessa viðburði með slíkum gleraugum. Óskráðu reglurnar, endurteknu stefin og kunnuglegu staðalímyndirnar – þetta á við um pönkráðstefnur sem klassískar. Sumar kraftbendilssýningarnar eru eins og flugeldasýningar á meðan aðrir eru með allt niðrum sig. Það eru ungu og æstu fræðimennirnir sem mala og mala hver við annan á milli fyrirlestra og svo reynsluboltarnir sem láta sig oftast hverfa; nýta tækifærið og spjalla við gamla félaga á leynilegum veitingastað í stað þess að hlusta á rausið í spjátrungunum. Svo er daðrað og drukkið, ó já, og á degi tvö mæta nokkrir glaseygðir um hádegið, búnir að týna símanum sínum. Á þriðja degi er lunginn af gestum orðinn heiladauður, einfaldlega vegna of mikillar kenningaítroðslu (og þegar þú ert í Portúgal í júlí þá stelstu að sjálfsögðu á ströndina).
Já, við erum öll mannleg og þurfum að hlýða því en ég ætla heldur ekki að gera lítið úr mikilvægi þessarar ráðstefnu. Þessi geiri dægurtónlistarfræða sem var í brennidepli, að rýna neðan grundu, er á miklu skriði um þessar mundir og mikilvægt að koma líkt þenkjandi sálum saman. Það er þessi tengslamyndun, „networking“ eins og Engilsaxar kalla það, sem hefur allt að segja og byggir undir áframhaldandi rannsóknir, skilning og þekkingaraukningu.
Meira pönk, meira helvíti … meiri fræði!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: