Myrkraprins Ozzy Osbourne var rokkið holdi klætt og vafði fólki um fingur sér. — Ljósmynd/Morten Skovgaard.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 24. júlí.

„Mamma, nú kem ég heim“

Ozzy Osbourne, magnaðasti forsöngvari rokksögunnar, er genginn, 76 ára að aldri. Sjarmi þessa einstaka manns var botnlaus og var hann tákngervingur uppreisnarinnar og lífsstílsins sem fylgir einatt þungarokkinu.

Á Youtube er að finna ótrúlega klippu af Ozzy Osbourne í sjónvarpssal þar sem hann flytur opnunarlag fyrstu sólóplötu sinnar, Blizzard of Ozz. Lagið, „I don’t know“, er flutt af ótrúlegri ákefð og ástríðu, líkt og Ozzy sé að stíga á svið í fyrsta sinn. Árið er samt 1980 og hann búinn að vera í bransanum í tíu ár, sem stafnlíkneski Birmingham-sveitarinnar Black Sabbath sem í raun réttu fann upp þungarokkið á fyrstu plötu sinni, samnefndri henni (1970). Með honum í sjónvarpssal er gítarhetjan Randy Rhoads sem ólíkt húsbónda sínum lést langt fyrir aldur fram, aðeins 25 ára (flugslys). En þessar fimm mínútur eða svo sem tekur að skila laginu eru hreinustu töfrar. Máttur tónlistarinnar raungerist svo fallega. Maður sér að Ozzy líður vel og hann veit að það borgaði sig að láta reyna á sólóferil. Textabrot úr laginu kjarnar líka viss eigindi þessa ótrúlega manns sem fangaði okkur öll með hreinum og gjörsamlega ómótstæðilegum sjarma. Því það var aldrei neitt stórkostlegt plan í gangi, það var ekki verið að reikna neitt út: „Don’t ask me / I don’t know“.

Saga Ozzys Osbournes er ævintýri líkust ef ekki lygileg. Og algjör öskubuskusaga. Hann og félagar hans ólust upp í útjöðrum Birmingham eftir seinna stríð og eins og hjá svo mörgum blasti verksmiðjan ein við. Æska Ozzys var vörðuð erfiðleikum, hann var misnotaður kynferðislega af eldri drengjum og reyndi að svipta sig lífi nokkrum sinnum. Hætti svo í skóla fimmtán ára og sat í fangelsi sautján ára fyrir búðahnupl. Hann fer síðan að hljómsveitastússast fljótlega upp úr því og svo fer að Black Sabbath fær heldur en ekki vind í dökkleit seglin. Áhrif þeirrar sveitar á þróun þungarokksins eru einfaldlega alger en formið var hreinlega fundið upp af þeim félögum. Ozzy drekkur sig síðan úr bandinu, mætti segja, við endaðan áttunda áratuginn en endurreisir sig með sólóplötu eins og nefnt er að framan. Hann verður síðan „til“ á níunda áratugnum, ekki bara sem farsæll tónlistarmaður heldur líka sem rokkið holdi klætt, fyrirbæri í raun og sann sem hafði áhrif langt út fyrir oft heftandi reglugerðir þungarokksins. Þrátt fyrir að eiga feril sinn undir þungarokki var Ozzy lífsglaður sprelligosi, af honum geislaði og ég er ekki hissa á þessum miklu viðbrögðum við andláti hans en þau ná langt út fyrir raðir málmhausa. Ozzy kunni lagið á afþreyingarbransanum, eins og sjá mátti t.d. í hinum stórskemmtilegu þáttum The Osbournes, hvar Ozzy gekk um eins og uppvakningur, litlu eldri en sá sem hér skrifar.

Það var aldrei neitt stórkostlegt plan í gangi. Eða hvað? Nú verður mér hugsað til lokatónleika Black Sabbath sem fóru fram í Birmingham nú fyrir stuttu, 5. júlí. Mikil veisla og allar helstu goðsagnir þungarokksins til kvaddar. Ozzy deyr svo 22. júlí, rúmum tveimur vikum síðar. Samdi hann ekki bara við ljáseigandann svo það mætti koma þessu frá? Ef einhver hefði getað komið slíku í kring er það náttúrulega myrkraprinsinn sjálfur!

Ég minnist stórkostlegrar athugasemdar við eitt Youtube-myndbandið frá einhverjum aðdáandanum. „Oftast nær er eins og Ozzy ráfi ringlaður um sviðið og viti varla hvar hann er. Engu að síður er hann alltaf langflottastur. Það hefur enginn roð við þessum manni!“ Það voru „betri“ söngvarar til en Ozzy en hann bjó yfir dálitlu sem ekki er hægt að þjálfa, læra eða vinna sér inn. Í honum var óbrjótanlegur andi, „sólskin“ eins og einn vinur minn orðar það í fjasbókarkveðju, og eilífðar rokksköddun upp á ellefu eins og hetjurnar okkar í HAM skilgreina það. Einfaldlega bestur. Langbestur.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: