grey mist - umslag


Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 19. mars, 2016

Kaldhömruð fegurð

Platan Grey Mist of Wuhan er eins konar óður til kínversku iðnaðarborgarinnar Wuhan. Það er Arnar Guðjónsson sem vinnur plötuna og gefur út í gegnum Aeronaut ehf.

Honum nafna mínum Guðjónssyni, Laufskáladreng, er margt til lista lagt og hefur hann komið að margvíslegum þáttum tónlistarlega á löngum ferli. Hann hóf ferilinn í dauðarokki, færði sig yfir í rokk, hefur snert á poppi, samið bakgrunnstónlist, auglýsingatónlist, gallsúra tilraunatónlist, tekið upp, útsett og svo má telja. Arnar er mikill hæfileikamaður, hljóðfæri leika í höndum hans og hann er það sem kalla má náttúrubarn, tónlistin streymir greiðlega um æðar hans og hann getur gert það sem honum sýnist á þeim vettvangi að því er virðist.

Það var fyrir fimmtán árum síðan sem platan Leðurstræti kom út í takmörkuðu upplagi hvar hann og bróðir hans Sigurður bjuggu til kaldranalega hljóðmynd við að því er virtist ímyndaða kvikmynd. Frábær plata og eitt af því besta sem ég heyrði það árið. Sú plata skaut eðlilega upp kolli er ég sigldi inn í þessa hér en um er að ræða tónlist við borg eins og Arnar hefur lýst yfir í viðtölum. Í stað þess að tónsetja kvikmynd hefur Arnar tónsett kínversku borgina Wuhan sem hefur á að skipa rúmlega tíu milljón íbúum og er hrikaleg iðnaðarborg, stórkarlaleg og fráhrindandi – en, og þar erum við komin að útgangspunkti plötunnar, um leið falleg á furðulegan hátt. Kaldhömruð fegurð, líkt og úthverfi austur-evrópskra stórborga búa gjarnan yfir. Arnar vinnur með þessi hughrif sem hafa sótt á hann þegar hann hefur heimsótt borgina en þangað hefur hann farið tvisvar í tónlistarlegum erindagjörðum.

Platan hefst á stemmunni „Mysterious mist engulfs the city“ og þar er tónninn sleginn. Fjarlægar kórraddir liggja undir drungalegum hljóðgervli, framvindan hæg og naumhyggjuleg. Það er eitthvað sorglegt við þetta – hjartatosandi. Í næsta lagi á eftir, „Through the suburbs in a brown bus“ spennist andrúmsloftið upp, verður hryllilegra, og hljóðgervillinn leiðir þetta taktvisst áfram. Hljóðgervillinn á stjörnuleik á plötunni, minnir mig á köflum á evrópska frum-raftónlist frá enda áttunda áratugarins og upphafi þess níunda (sjá t.d. „Overwhelmed by the structure“). Arnar læðir líka inn því sem kalla mætti kínverska áferð og svei mér þá ef Jean Michel Jarre gægist ekki líka stundum fyrir hornið!?

Maður er algerlega kominn inn í borgina við fjórða, fimmta lag. Stemmurnar eru ólíkar í lund en samt er rauður (grár?) þráður í gegnum þær allar. Platan er melankólísk en mest angurvær, það er orðið. Falleg og fráhrindandi, bæði í senn. En fyrst og síðast algerlega frábær – stórkostleg. Þetta er fullkomlega skeytin inn, allt dæmið.

Það sem ég vil aðallega koma að hérna er að þessi drengur, nafni minn, er snillingur. Það orð er sannarlega útjaskað en hér á það við í sinni réttu mynd. Mér verður hugsað til Jóhanns Jóhannssonar t.d. og tónlistar hans við Sicario og Arnar er á mjög svipuðum slóðum; gæðalega, innsæislega, hæfileikalega. Megi hann hafa færi á að sinna þessari guðsgjöf sinni af sæmilegum efnum um ókomna tíð. Það væri gott karma fyrir heiminn.

One Response to Plötudómur: Arnar Guðjónsson – Grey Mist of Wuhan

  1. Frábær dómur, enda flott músik

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: