Opinn Ásgeir kynnir okkur nýja tónheima á Crossing Borders. — Ljósmynd/Matti Kallio.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 10. janúar.

Yfir mæri og mörk

Crossing Borders er ný þreföld plata eftir gítar- og „fjölstrengja“-leikarann Ásgeir Ásgeirsson. Undanfarin ár hefur hann sýnt fram á mikinn metnað og dirfsku í tónlistarsköpun, hvar heimurinn allur er undir og reyndar Ísland rækilega líka því að árið 2020 fór Ásgeir með íslensk þjóðlög á framandi slóðir í hinum svofellda þjóðlagaþríleik sínum en á þremur plötum tengdi hann þau við tyrkneska, búlgarska og íranska tónlist – svona meðal annars! Nánari upplýsingar um það verkefni má meðal annars nálgast á Bandcamp-setri Ásgeirs. Kveikjan að þessari útþrá allri og þessum heimstónlistaráhuga ef ég má kalla það svo hófst annars árið 2009 er Ásgeir fór í námsferðir til Austur-Evrópu og Mið-Austurlanda. Áhrifaríkar ferðir, sannarlega.

Íran, Jórdanía og Indland
Nýi þríleikurinn kemur út í einum þreföldum pakka og inniheldur lög eftir Ásgeir flutt af íslensku, írönsku, jórdönsku og indversku tónlistarfólki. Matti Kallio, „finnska undrið“, hljóðblandaði allar þrjár plöturnar ásamt því að spila á nokkur hljóðfæri. Upptökur fóru fram í Reykjavík, Teheran, Amman og Kolkata og verkefnið allt hefur tekið um fimm ár. „Þrjár ólíkar plötur með sama konseptinu í einu verki,“ segir Ásgeir sjálfur í fjasbókartilkynningu. Lögin séu „spiluð af fólki, fyrir fólk, samin og útsett af undirrituðum“.

Ásgeir lýsir tónlistinni sem djass/heimstónlist en glöggt má heyra að eitt flæðir inn í annað nokkurn veginn hömlulaust og þessi nálgun vafalítið meðvituð. Það væri að æra óstöðugan að þylja upp allt tónlistarfólkið en það er listað samviskusamlega í vínilkápunni glæsilegu sem hýsir þetta nýjasta ævintýri Ásgeirs.

Samsláttur vesturs og austurs
Pistilritari sló stutt á þráðinn til höfundar og spurði hann að einu og öðru. Ásgeir segir hugmyndina að þessum þríleik hafa fæðst á svipuðum tíma og hann undirbjó þann fyrri en hér hafi hann viljað skapa bræðing með eigin tónsmíðum, nokkurs konar frumsömdum djassi.

„Það er eðli málsins samkvæmt ekki sama hvernig vestrinu og austrinu er slegið saman tónlistarlega,“ útskýrir hann. „Og margar eru þær mislukkuðu tilraunirnar.“ Hann segist vera skotinn í þeirri hugmynd að gefa frekar sjaldan út en koma þá frekar bústnum verkum frá. Ásgeir segir að fyrstu tvær plöturnar, sú íranska og sú jórdanska, hafi verið ákveðnar en indverska platan, sem er sú þriðja, hafi verið meiri tilviljun.

„Ég sem sagt lærði á indversk hljóðfæri í gegnum netnámskeið sem dr. Rajeeb Chakraborty Sarod stýrði í covid,“ rifjar hann upp. „Ég kynntist Rajeeb ágætlega, hann er að búa til tónlist fyrir Bollywood-myndir og svona og hann sló til þegar ég bauð honum í samstarf.“

Tími til að hvílast
Ásgeir gerist sultuslakur er ég spyr hann út í framhald á þessu verkefni. „Nú þarf ég aðeins að bakka frá og leyfa þessu að setjast,“ segir hann hugsi og það má greina sátt við unnið verk í gegnum línuna. „Þetta er búið að vera ansi rúmfrekt undanfarin ár og hefur gengið á orku og slíkt. Mig langar m.a. til að koma þessu betur á framfæri og leika þetta á hljómleikum hérlendis til dæmis. Þess má þá geta að eitt laganna er í sjónvarpsþáttunum Danska konan. Mér var bent á að tónlistin færi vel við sjónvarpsþætti og ég ætla að kanna það svið aðeins.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: