Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 20. september.

Upp og niður stigann

Blokkarbarn er önnur hljóðversplata Ástu Pjetursdóttur, plata sem hefur verið í vinnslu í heil sex ár. Spurningin um hvað hugtakið „heima“ felur í sér er miðlæg í textum sem hljóðmynd.

Það var á vori 2019, síðasta „venjulega“ árið fyrir covid, sem Ásta tróð upp á Músíktilraunum og reif í hjartastrengi flestra með ótrúlega einlægum flutningi, studd rödd og gítar. Í dómi um plötu hennar sem kom út það sama ár, Sykurbað, skrifaði ég m.a. og vísaði í Músíktilraunir: „Í einu laginu, titillagi þessarar plötu, beygði hún af og það augnablik mun aldrei líða mér úr minni.“ Í dómnum kemur þetta og fram, sem tengist beint inn í verkið sem við ætlum að greina hér: „… í spjalli við hana á dögunum varð okkur tíðrætt um fullkomnunaráráttuna, sem er helsti plagsiður Vesturlandabúans í dag. Fólk hikar, allt þarf að vera 100%, og við verðum af svo góðri list fyrir vikið.“

Ég heyrði svo í Ástu í útvarpinu um daginn og þar ræddi hún þetta öðrum þræði, tilfinninguna um að vera ekki nógu góð o.s.frv., tilfinning sem aftrar okkur öllum. Vonandi gerir Ásta sér grein fyrir því að það er styrkjandi fyrir aðra þegar þessar hömlur eru orðaðar beint. Að ekki sé talað um að snara svo út listaverki, sem ég handleik nú er ég rita þessi orð, sem sönnun á því að það er hægt að yfirstíga þessar hömlur.

Plötur Ástu til þessa eru ólíkar. Sykurbað var þjóðlagakennd, Joni Mitchell og Joan Baez á sveimi. „Gítarplokk og nokkuð voldug rödd sem fer vel með knýjandi stemningunni í lögunum,“ sagði ég í dómi. Blokkarbarn er aftur á móti fjölbreytileg, snert á danspoppi t.d., og mörkin þanin. Platan var unnin með Árna Hjörvari og var hljóðfæri Ástu, víólan, notað á ýmsa lund, sem var meðvitað. Tónlistarkonan, sem er klassískt menntuð, segir að það hafi komið að því að hún hafi farið að fjarlægast víóluna og fundist hún – og námið sem undirstingur færnina – heftandi. Hins vegar tók hún hana með sér inn í „blokkina“, hikandi, og lét hana þjóna sér, „með frelsi og sköpunargleðina í fyrirrúmi“, eins og segir í fréttatilkynningu.

Tildrög plötunnar eru athyglisverð. Ásta fann til gamla hljómsnældu þar sem heyra má hana syngja og spjalla við föður sinn. Ásta segir: „Í barnslegum söng mínum á kassettunni heyri ég sakleysi og sköpunargleði sem klassískt nám komst langt með að kæfa. Á Blokkarbarni hefur mér tekist að tengjast stelpunni á kassettunni aftur.“ Jafnframt nefnir hún glímuna við „tilfinninguna að snúa aftur heim eftir langan tíma, horfast í augu við breytingar og endurskilgreina hvað „heima“ þýðir“.

Stórar spurningar sem ég ætla svo sem ekki að svara en flestir þekkja það að vilja halda í einhvern kjarna, vera „maður sjálfur“, á meðan okkur er vikið af leið í sífellu fyrir tilstilli alls kyns krafta. Platan opnar með bút af kassettunni en svo er það hið heimilislega „Kaffi hjá Salóme“. Lagasmíðin sem slík er ekki ósvipuð því sem heyra mátti á Sykurbaði en hljóðmyndin er fyllri og margslungnari. Klassíski bakgrunnurinn nýtist vel í söng, hljómaröðun og ýmislegri glúrni og lagið svona hálfgert kammerpopp mætti segja. Þarna er ljóst að það má nýta hluti, sem áður heftu, til frelsis og frjóleika. „Bakgarðurinn“ er dekkra, skringibundið en áhrifaríkt. Hvass söngur og ófyrirséðar sveigjur og beygjur. Og svo er alls konar. Ábreiða á „Afmæli“ Sykurmolanna, „Ástarlag fyrir vélmenni“ sem er sveittur klúbba-„banger“ og svo lög eins og „Berglind“ sem hefði þess vegna getað verið á Sykurbaði.

Ásta er komin heim eða a.m.k. langleiðina. Frelsi og frjóleiki sagði ég um „Kaffi og Salóme“, tvö orð sem eiga vel við um plötuna alla.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: