Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 29. nóvember.

Allar dyr opnar

Ég hef fylgst grannt með Bríeti undanfarin misseri og hrífst af þeim karakter sem hún býr yfir. Frábær söngkona sem er með þessa stórstjörnutakta fullkomlega á valdi sínu. Þeir eru henni mjög náttúrulegir en hún kann líka að „spila leikinn“. Tónlist Bríetar hefur verið með ýmiss konar sniði undanfarin ár en á stuttskífunni sem er til umfjöllunar hér eru stigin mjög ákveðin skref inn í kántrígeirann eða „americana“ svo við víkkum þetta aðeins. Um er að ræða fyrsta hluta þríleiks þar sem sungið er á ensku en lagið sem opnar stuttskífuna er „Cowboy Killer“, einslags framhald af hinu vinsæla „Rólegur kúreki“.

Einstök rödd
Ég sá Bríeti flytja þetta lag á tónleikunum Boðhlaup söngvaskálda á State of the Art-hátíðinni nú í haust. Frábært lag, í öruggum kántrístíl, flæðið og framvindan með þeim hætti að halda mætti að Bríet væri starfandi í söngvasmiðju í miðbæ Nashville (og lagið var reyndar samið þannig og þar en þarlendir höfundar komu og að skrifunum. Íslenskir samverkamenn Bríetar lögðu líka gjörva hönd á plóg, þeir Arnar Ingi, Þormóður Eiríksson og Magnús Jóhann).

„Until then“ kemur strax á eftir og sami „Ameríku“-andi liggur yfir en lagið er nær þjóðlagahefðinni en kántríi. Blíð, túlkunarrík og einstök rödd Bríetar leiðir það með glans og ég fer að hugsa um drottningar þarna ytra eins og Margo Price, Nikki Lane, Kacey Musgraves og fleiri. Frábærar listakonur sem hafa náð langt, m.a. með því að snúa lítið eitt upp á kántríformið sem á það til að vera íhaldssamt.

„Sweet Escape“ brokkar áfram um gresjuna, gáskarík smíð á meðan „Bang Bang“ hallar sér í poppvænni, rafbundnari áttir. Engu að síður er Nashville-hljómurinn yfir og undir og línunni því haldið. „Voice Memo 05.07.23“ er eins og nafnið gefur til kynna, skissa, sem Bríet hefur væntanlega tekið upp á snjallsímann sinn. Hæglætissmíð og hrá og dálítið svalt að henda þessu þarna inn, bæði upp á almennt uppbrot að gera en þetta virkar líka eins og undirstrikun á því að hér er listakona sem fer sínar eigin leiðir.

„Walk out the Door“ lokar plötunni, ballaða sem bergmálar, líkt og þetta væri lokalag í einhverjum Twin Peaks-þættinum. Dulúð sveipar það og svalleikinn hérna undirstrikar að Bríet ætlar alls ekki að tjalda til einnar nætur.

Sannfærandi nútímakántrí
Platan sem heild er sannfærandi, það er verið að búa til nútímakántrí og Bríet hefur sýnt fyrir löngu að það form jafnhattar hún eins og önnur. Það verður forvitnilegt að heyra hvert næstu skammtar taka okkur. Ég gleðst í öllu falli innilega yfir því að það sé verið að taka ferilinn svona föstum tökum og það er ekkert víst að þetta klikki eins og maðurinn sagði.

Ég ætla ekki að giska inn í framhaldið en á fyllilega von á því að þessi hljóðheimur – sem passar henni afskaplega vel – verði þróaður áfram, heflaður til og tálgaður. Það er mín lærða ágiskun ef svo mætti segja. Í öllu falli býr Bríet yfir mörgum og góðum kostum sem ætti að vera hægt að nýta fallega í þeirri vegferð sem hún stendur núna frammi fyrir. Gangi henni vel. Kveðja, Arnar.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: