Flæði Cell7 hefur frá upphafi ferils verið í fremstu röð íslenskra rappara. — Ljósmynd/Juliette Rowland.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 17. janúar.

Heyr roðann í austri

Ragna Kjartansdóttir, sem notar listamannsnafnið Cell7, hefur verið miðlæg í rappsenu Íslands allt síðan heyrðist í henni fyrst um miðjan 10. áratuginn en þá var hún hluti af rappgenginu/sveitinni Subterranean. Á þeim tíma voru bara þau og Quarashi að sinna hipphoppi/rappi útgáfulega en um aldamótin brast svo á með fyrstu bylgju íslenska rappsins er Rottweiler og fleiri gerðu allt vitlaust.

Þrjár breiðskífur
Það var árið 2013 sem Cell7 gaf út sólóplötu, Cellf, og hreppti hún m.a. Kraumsverðlaunin fyrir hana. Sex árum síðar kom platan Is Anybody Listening? út þar sem m.a. er að finna smellina „City Lights“ (sem hafði komið út sem smáskífa 2017) og „Peachy“. Plata sú var tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna fyrir árið 2019 eða Nordic Music Prize, verðlaunahátíð sem var keyrð af by:Larm-hátíðinni í Osló og ætti ekki að rugla saman við Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs, Nordic Council Music Prize. Þrír Íslendingar voru tilnefndir þá og hélt Ragna utan ásamt þeim Hildi Guðnadóttur og Countess Malaise í febrúar 2020, korter í covic, og var það Hildur sem hlaut verðlaunin fyrir tónlist sína við Chernobyl-þættina.

Þriðja platan, Deep Cuts, kom svo út í liðnum október og inniheldur hún níu lög. Fimm þeirra hafa þegar komið út sem smáskífur: „It’s Complicated“ sem var tilnefnt sem hipphopplag ársins 2020 á Íslensku tónlistarverðlaununum en um upptökustjórn þar sá Arnar Ingi (Young Nazareth). Lagið „Thinking Hard“ var þá unnið í samstarfi við Moses Hightower á meðan „Fix It“, „U-N-I“ og „All My Friends“ urðu til í samvinnu við Kristin Gunnar Blöndal. Önnur lög eru „Nightsky“, þar sem Magnús Jóhann sjálfur er á tökkunum, Kristinn Gunnar vinnur „Runnin“, „Whatevah“ og „Stay Right Here“ með Rögnu.

Minna hipphopp
Deep Cuts er ólík síðustu verkum Cell7, m.a. að því leytinu til að hipphoppið er minna og meira um nokkurs konar ballöður, hvar maður heyrir að Ragna er að horfa inn á við. „It‘s Complicated“ rúllar plötunni af stað, hér er gott grúv og flæði og sálarrík stemning undirstingur lagið. „Fix It“ siglir um róleg mið í upphafi en það herðist á því um miðbikið. Hér er uppgjör, það heyrist vel, og hjartað meyrt (jafnvel sárt, eins og táknmynd í „nærbuxum“ vínylútgáfunnar ber með sér). „Runnin“ er í svipuðum rólegheitagír, sálartónlistarballaða eiginlega. „U-N-I“ viðheldur þessari djúpu rökkurstemningu, lag sem liðast um og læðist. „Whatevah“ rennur um sömu röst og A-hlið plötunnar ber með sér ljúfsáran, íhugulan brag. „Stay Right Here“, sem opnar B-hliðina, ber með sér meira stuð og „Thinking Hard“, hvar sjálfir Moses Hightower eru með í för, grúvar þétt. Að mörgu leyti er Ragna ansi djörf á plötunni, í stað þess að spýta út rapprímum með derhúfu á höfði svífur hún um eins og sálardjassdíva. Sade á fyrri hliðinni, Angie Stone á seinni hliðinni. Segi svona. Magnús Jóhann stýrir „Nightsky“ og heldur sig á rólegum nótum mestanpart og plötu er svo lokað með „All My Friends“ þar sem stemmarinn er keyrður upp, meiri pæjustælar, meiri grallaraskapur.

Samúræjar og prinsessur
Vínylútgáfan er glæsileg og umslagið prýðir afar svöl mynd sem tónar við umslag síðustu plötu. Mig skortir þekkingu hér viðurkenni ég en framan á Is Anybody Listening? er Ragna sem samúræi en núna er hún prinsessa, með dreka og snák með sér. Asía, Kína, Japan, þetta kemur upp í takmarkaðan, vestrænan hugann. Vínyllinn sjálfur er dumbrauður og „nærbuxurnar“ innihalda táknríkar myndir. Falleg umgjörð utan um fallega tónlist og alveg klárt hvar hjarta Rögnu slær.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: