Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 19. október.

Sorglega svalt

Ný plata dúettsins CYBER heitir SAD :'( og já, þessi sorgmæddi broskall er partur af plötutitlinum. Farið er um tónavelli víða í þessu ævintýralega verki.

Ég elska CYBER og hef alla tíð gert, allar götur síðan ég skrifaði lítið eitt um plötuna CRAP (2016), sveitin þá búin að vera starfandi síðan 2012. Ég lýsti CYBER sem græðlingi úr Reykjavíkurdætrum og plötunni (CYBER IS CRAP eins og hún hét í raun og sveitin reyndar líka) sem vel til fundnu jaðar-hipphoppi sem einkenndist af óræðum og tilraunakenndum stemmum. Næst var það HORROR (2017) og nú fór maður að sjá og fíla alla þessa frábæru framsetningu sem þau hafa stundað. Það er tónlist en þetta er gegnumgangandi gjörningur líka. Í dómi um Horror nefndi ég – á innsoginu – BDSM-klæðnað, bleika jogginggalla og Aktu taktu múnderinger og tónlistin var: „straumlínulagaðri og áhlýðilegri en ekki um of … taktar letilegir og hljóðmotturnar drungalegar … Heildaráran er skuggaleg og súrrealísk“. Og bandinu hef ég fylgt síðan. Ári síðar kom hið glæsilega verk BIZNESS út, snilldarkonsept þar sem fylgst er með viðskiptamanneskju í einn dag og hópurinn að sjálfsögðu íklæddur viðeigandi bankadrögtum (og mikið sem það var undurfurðulegt að sjá!). Það var svo 2020 sem VACATION kom út, óður til sólarstrandaferða en með þessum sérstaka CYBER-hætti. Tónlistin að verða pússaðri og jafnvel poppaðri. Samt „skringidrungi“ yfir – ég var í stuði þegar ég skrifaði dóm – og tala þar um að platan sé fjarlæg en lokkandi og yfir henni kvíðbogi! Plata sem átti að vera glaðleg varð það ekki samkvæmt meðlimum, aðallega vegna COVID-19. Úr dómnum: „Fyrsta lagið, „pink house paladino“, byrjar eins og inngangsstef að Miami Vice þætti í leikstjórn David Lynch. Sveittur saxófónn býður okkur velkomin en snemma snýst lagið upp í súrrealísk blíðuatlot og það er rappað letilega yfir sólbökuðum drunga.“ Takk fyrir.

En hvað er á seyði á SAD :'(? Þetta er fjölskrúðugasta plata CYBER til þessa, ferðalagið frá innhverfu myrkrarappi heldur áfram og við erum mætt á akur úthverfðrar tilraunagleði þar sem allt má. Fjör. Og flipp. En listrænt ágengt er þetta að vanda. „Arena“ opnar plötuna, hægstreymt og dulúðugt þó það bresti á með gargi og geðveiki undir rest. Platan er dálítið svona, erfitt að giska inn í hvað bærist á bakvið næsta horn. „dEluSioN“ er að sama skapi dularfullt, svalt rafpopp og gangur þess og taktforritun til fyrirmyndar. Þessari ljúfu stemningu, á CYBER mælikvarða, er svo fallega rústað með „NO CRY“, Prodigy-legum og nett geðveikislegum stuðtrukki. Líkt er með „PORN STARR“ sem er hávaðapopp af bestu gerð. Nú byrjar maurasýran að vætla fyrir alvöru. Hið magnaða „something‘s wrong…“ er nákvæmlega það og nánast óþægilegt. Nornahvísl og Die Antwoord andrúmsloft og stemningin öll hin afkáralegasta. Kemur þá ekki Jónsi í Svörtum fötum inn í „The Event“ og fer á hreinum kostum. Lagið er einslags hetjupopp sem er búið að draga þrisvar sinnum í gegnum jólatréspakkningarvél. Undarlegt, skrámað en á sama tíma geislandi. Ég veit varla hvað ég er að tala um lengur. Ótrúlegt lag. „OVERprotected“ er einhvers konar ballaða í blábyrjuninni en þróast svo út í dansflipp. „I don‘t wanna walk this earth“ er enn eitt CYBER-poppið, vírað en helgrípandi um leið og lokað er með „PROM“, vögguvísu að hætti hússins.

CYBER lýtur eigin lögmálum og það fullkomlega og þó ég hafi hent inn einhverjum nöfnum til að hjálpa til við skilning er þetta um leið algerlega hliðstæðulaust. „CYBER IS UNIQUE“ gæti allt eins verið nafn plötunnar.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: