bowie blackstar

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 16. janúar, 2015

 

Ó, svo mannlegur…

Nýjasta plata Davids Bowies, Blackstar eða ★, reyndist svanasöngur hans og dauði hans kom okkur öllum í opna skjöldu. En þegar hlýtt er á gripinn er greinilegt að Bowie ætlaði hann sem sína hinstu kveðju.

Fyrir þremur árum dæmdi ég The Next Day, endurkomuplötu Bowies, og hafði þetta um hana að segja í niðurlaginu: „Fín plata. Ekki frábær. Þrjár af fimm. Á 0-10-skalanum er þetta 7,0. Platan er ekki fullkomin og hvað með það? Mér finnst eins og Bowie sé búinn að koma sér fyrir í nokkurs konar startholum með þessari plötu og það með reisn. The Next Day minnir mig dálítið á Black Tie, White Noise frá 1993 sem var sömuleiðis endurkomuplata. Fín plata en meira eins og forsmekkur. Tveimur árum síðar kom svo meistaraverkið Outside út. Ef mark er takandi á sögunni, og hringrás hennar, þá bíð ég spenntur eftir næstu skrefum…“

Þau „skref“ komu út á afmælisdegi Bowies, 8. janúar síðastliðinn, en tveimur dögum síðar var hann allur eftir baráttu við krabbamein. Sá slagur hafði farið fram á laun og fréttirnar því sem reiðarslag fyrir gervallan tónlistarheiminn og heiminn allan reyndar ef út í það er farið. Ég hef sjaldan, nei aldrei, upplifað önnur eins viðbrögð. Þau hafa verið þvert á öll kynslóðabil og engu hefur skipt hvaða tónlist tendrar helst í fólki. Allir virðast hafa verið snortnir af Bowie. Það er enda hafið yfir allan vafa að helsti dægurtónlistarmaður – og um leið listamaður – 20. aldarinnar er fallinn frá; áhrif hans, listfengi og óviðjafnanleiki svo gjörsamlega sér á parti.

Eðlilega, eins og sjá má, gæti ég rætt um Bowie sem slíkan á næstu síðum en einbeitum okkur nú að verkefninu sem leysa skal, það er að rýna í þessa síðustu plötu hans. Hana vinnur hann með ungum djössurum og hún er að áferð allt öðruvísi en síðasta verk (ekki að það komi á óvart í tilfelli Bowies). En það sem meira er um vert, þetta er til muna betra og stöndugra verk og vex hægt og örugglega í eyrunum eftir því sem hlustað er. Eins og ég sagði í upphafi; á síðustu plötu var Bowie að endurræsa og inn á milli gæðalaga voru sprettir út í tómið. Hér er hins vegar um afar heilsteypt verk að ræða, öll sjö lögin hafa eitthvað við sig og standa, hvert á sinn hátt, keik og klár. Tíu mínútna titillagið opnar hana, dulúðugt verk og magnað myndbandið undirstrikar að Bowie ætlaði sér ekki endilega á vinsældalista með Svörtu stjörnuna (þó að hann sitji þar víða nú). Næstu þrjú lög á eftir eru með tilraunakenndum blæ, „’Tis a Pity She was a Whore“ er klætt í skikkju utangarðsdjassins, „Sue (Or in a Season of Crime)“ er brjálæðislegt og kæfandi, „Lazarus“ er einnig svakalegt, og skýrasta dæmið um hvað í gangi var hjá Bowie þegar maður skoðar texta og myndband. Dauðinn blasir við.

Síðustu þrjú lögin eru hefðbundnari, öll þó í dökkleitum, angurværum gír eins og reyndar platan öll. Þetta er þung plata og það hangir skuggi yfir. En hún er ekki þunglyndisleg, meira ljúfsár og í henni undarleg blanda af sorg og sátt; eftirsjá, ótta, reisn, auðmýkt og æðruleysi. Já, dauðastríðið kallar fram tilfinningakokteil og þegar rýnt er í textana er Bowie að lýsa þessari togstreitu

Þessi plata er náttúrlega einstök og merking hennar breyttist og tók aðra stefnu við andlát listamannsins. Allt í einu varð þetta að risastórri hugleiðingu, táknmynd eður kveðju frá manni sem vissi í hvað stefndi.

Áhrifaríkast af öllu er „Dollar Days“ og ég þakka hér með vini mínum og Bowie-aðdáanda, Ívari Páli Jónssyni, fyrir að benda mér á þetta. Líkt og Ívar segir réttilega „felldi hann grímuna – kannski í fyrsta skipti á ferlinum – og gaf okkur innsýn í örvæntingu sína í lokaorrustunni“. Þetta er hárrétt lesið því að þegar dauðinn knýr dyra verða hlutirnir síst einfaldir, ekki einu sinni fyrir mann sem virtist eiginlega ekki af þessum heimi. Sjá þetta textabrot hér:

„I’m dying to/Push their backs against the grain/And fool them all again and again/I’m trying to/It’s all gone wrong but on and on/The bitter nerve ends never end/I’m falling down/Don’t believe for just one second I’m forgetting you/I’m trying to/I’m dying too.“

Mann setur hljóðan við að lesa þetta og gæsahúðin sprettur fram hér og nú. Mikið er talað um snilligáfu Bowies, að hann hafi ekki verið af þessum heimi o.s.frv. En voru það kannski, þegar öllu er á botninn hvolft, þessi óskaplegu mannlegheit hans sem heilluðu okkur fyrst og síðast? Líf hans var listaverk en hann nálgaðist það á sannan og ástríðufullan hátt, frá fyrstu sekúndu til hinnar síðustu, og með því náði hann til okkar. Að því leytinu til lék hann aldrei tveimur skjöldum. Far í friði, vinur minn, og takk fyrir allt.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: