Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 10. júní, 2017

Allar dyr upp á gátt

The Four Doors of the Mind er fjórða plata Dynfara, sem leggur upp með stemningsríkt svartþungarokk. Um þemabundið verk er að ræða sem byggir á sjúkdómi sem leiðtoginn, Jóhann Örn Sigurjónsson, glímir við.

Sit hér við vinnuskrifborðið og handfjatla sérdeilis fallega vínylútgáfu af þessari nýjustu plötu Dynfara. Vínylplatan sjálf er sérstaklega flott; ljósblá og gegnsæ. Plötumiðarnir gullbryddaðir og umslag sömuleiðis. Umslagshönnun öll og myndskreyting er í takt við mikilúðlegan titilinn, The Four Doors of the Mind, sem kallar eðlilega fram risavaxnar konseptplötur áttunda áratugarins (hönnunin er á vegum Metaztasis, sem hefur unnið fyrir stór nöfn úr svartþungarokkinu eins og Watain og Behemoth).

Þessi plata er enda bundin í stóreflis konsept, rétt eins og plötur proggrisanna gömlu. Tónlistin hverfist um kenningar ævintýraskáldsagnahöfundarins Patrick Rothfuss, sem fjalla um seiglu hugans gagnvart sársauka (Dyrnar fjórar tengjast svefni, gleymsku, geðveiki og dauða). Við þetta bætast svo tilvistarspekileg ljóð hins alíslenska og mjög svo dimmsýna Jóhanns Sigurjónssonar (já, og nafna Jóhanns Dynfara!). Verkið er innblásið af glímu Jóhanns við sjálfsofnæmissjúkdóminn colitis ulcerosa. Já, það eru stóru málin sem eru undir hérna!

Við þetta allt leggja Dynfarar svo tónlist. Ásamt Jóhanni, sem syngur, spilar á gítara, dragspil og bouzouki, skipa sveitina þeir Jón Emil Björnsson (trommur, gítarar og flauta), Bragi Knútsson (gítarar) og Hjálmar Gylfason (bassi). Ég nefndi svartþungarokk í innganginum, en sá geiri er við góða heilsu í dag á landi elds og ísa. Ekki er að undra að velflestar íslenskar svartþungarokkssveitir eru dásamlega ofsafengnar og illvígar en Dynfari stendur vel utan við þann ramma og hefur verið á nokk einstöku róli alla sína tíð. Svartþungarokkið er vissulega nokkurs konar platti sem sveitin stendur á en útfærslan er melódísk, alla jafna, og tekur t.d. inn áhrif frá síðrokki að hætti Mogwai og Godspeed You Black Emperor! Tónlistin er einkar stemningsrík, tilraun mín til að þýða hið svokallaða „atmospheric“ forskeyti en „atmospheric black metal“ er orðið að viðurkenndri undirstefnu þeirrar undirstefnu (hér myndi ég setja hlæjandi kall). Dynfari gerir vel í því að svipta upp sorgbundnum stemmum og þrúgandi andblæ sem tengir sterkt inn í umfjöllunarefnið og er tónlistinni fimlega sveiflað úr gotneskri, sveimkenndri og hefðbundnari rokkkeyrslu yfir í grófari svartþungarokkskafla. Eins og segir er þetta fjórða plata sveitarinnar en áður hafa samnefnd plata komið út (2011), Sem skugginn (2012) og svo Vegferð tímans (2015) en sveitin breytist úr dúói yfir í kvartett árið 2014. Dynfari hafa haldið glettilega fast í sama stíl frá upphaf þó að eðlileg fínpúsning hafi átt sér stað í boði reynslunnar og tímans.

Það var Stephen Lockhart sem tók upp plötuna, Íri sem búsettur er á Íslandi og hefur tekið upp með fjöldanum öllum af íslenskum svartþungarokkssveitum. Haukur Hannes hljóðblandaði og hljómjafnaði. Útgáfutónleikar plötunnar verða í kvöld á Gauknum þar sem sérstakir gestir verða hljómsveitin Auðn. Hluti af ágóða tónleikanna mun renna til Crohn’s og Colitis Ulcerosa-samtakanna (CCU).

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: