Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. desember.

Allt fram streymir …

Vegferð píanistans Eydísar Evensen hingað til hefur verið allrar athygli verð. Plötur hennar tvær fram að þessu, Bylur (2021) og The Light (2023), hafa notið talsverðra vinsælda og tónleikaferðalög í kringum þær hafa verið tíð. Fyrir stuttu kom svo þriðja platan hennar, Oceanic Mirror, út á XXIM Records sem er merki á vegum Sony Music Entertainment.

Í fréttatilkynningu kemur fram að platan varpi upp mynd af allra handa strögli mannskepnunnar er lífið bankar á dyr en innblásturinn kemur frá hugleiðsluæfingum sem Eydís hefur verið að iðka að undanförnu hvar djúp tenging hennar við náttúruna er undirstrikuð. Þessi þráður rennur í gegnum plötuna alla og bindur hana saman.

Erfitt að fanga
Ég sá Eydísi flytja tónlistina sína á nýafstöðnum múm-tónleikum. Það var giska magnað að sjá hversu innvikluð hún var í flutninginn, hvarf inn í lögin sín ef svo mætti segja og eftir hvert og eitt lag var eins og hún væri að vakna úr „transi“, reigði höfuðið aftur og andvarpaði. Komin aftur til okkar eftir nokkurra mínútna flug inn í tónlistarveröld þar sem fólk missir sig, týnir sér, hverfur – og það með jákvæðum formerkjum.

Eydís samdi Oceanic Mirror er líf hennar var bundið áskorunum og til viðbótar við píanóleik má finna raftónlistarhljóma, fyrir tilstuðlan Osmose Expressive E-hljóðgervilsins. „Mig langaði til að setja inn hljóð og hljóma sem erfitt er að fanga,“ segir Eydís sjálf. „Þetta á ekki að kæfa píanóið samt, en gefur vonandi til kynna ögn meiri dýpt en áður.“

Tilraunastarfsemi
Oceanic Mirror er plata hvar samstarfsfólk er áberandi. Ari Bragi Kárason trompetleikari kemur við sögu, Ásgeir líka og svo Janus Rasmussen. Ari Bragi samdi „Eternal“ og „Vault“ með Eydísi og spilar í „Dimmuborgir“. Þar syngur Ásgeir líka á meðan Janus (Kiasmos, Bloodgroup) kom að byggingu og samningu lokalagsins, „Oceanic Tide“. Öldufall var ákveðið leiðarljós þar, stórar sem smáar haföldur, og Janus hvatti Eydísi áfram í tilraunastarfsemi þar, hvort heldur í að renna nöglunum eftir píanóinu eða þá að opna og loka penna – með tilheyrandi klikkhljóðum.

Himneskar smíðar
Platan hefst, náttúrulega vil ég segja, með „OM“, hljóðið sem er grunnstefið í hugleiðsluheiminum. „Ambient“-legin inngangssmíð
sem virkar æði vel. „Helena‘s Sunrise“ fangar það sem í þeim titli er, tónlistin skríður letilega upp og áfram. Gestir plötunnar koma mjög sterkt inn verður að segjast. Viðkvæmnislegur trompetleikur Ara í „Eternal“ smellpassar þar inn og Schola Cantorum á stórleik í „Friðarglymur“, þar sem þjóðernisbrag er smekklega stráð yfir framvinduna.

„Dimmuborgir“ er klár hápunktur verksins, himnesk söngrödd Ásgeirs fer með þá smíð inn á aðrar lendur hreinlega. Nefnt „Oceanic Tide“ lokar þá plötunni með glans, rafskruð dúar þar undir og viss mikilfengleiki er tosaður fram. Eydís syngur í laginu, eitthvað sem gerir mikið fyrir það. Söngurinn setur smíðina út fyrir meginramma plötunnar á vissan hátt og þessi „tilraun“ er ansi lofandi upp á möguleg framhaldsverk að gera svo ég oti þeirri hugmynd fínlega að.

Eydís túraði plötuna í haust, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum og í febrúar á næsta ári verða nokkrir tónleikar í Bretlandi auk tónleika snemma í janúar í sjálfu Lincoln Center, New York.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: