Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 19. júlí.

„Allt sem er gott er gott“

Drop P er ný plata hljómsveitarinnar Gróu sem farið hefur með himinskautum í litlu neðanjarðarsenunni okkar. Útlönd munu nú fá að njóta í ríkari mæli en áður en platan kemur út á One Little Independent.

Það er svo margt sem er hressandi við Gróu, eina áhugaverðustu rokksveit sem fram hefur komið hér á landi lengi vel. Neðanjarðar- og tilraunarokk já en þeir sem hafa séð sveitina á tónleikum – örgustu sýruhausar sem dagfarsprúðir millistjórnendur – geta ekki annað en hrifist af lífinu, ærslunum og ástríðunni sem streymir frá henni.

Gróa er þannig í umræðunni og sveitin virk og hefur t.d. verið að spila reglulega á erlendri grundu. Vegur hennar hefur reyndar vaxið svo að sveitin er komin á mála hjá One Little Independent Records í Bretlandi, sem gefur m.a. út Björk, Kaktus Einarsson, Ásgeir og fjöldann allan af öðru íslensku listafólki, auk þess sem nöfn eins og Crass, Skunk Anansie og A.R. Kane eiga þar skjól.

Og það var OLI sem gaf út nýjustu plötu Gróu, Drop P, í upphafi júní. Um fjórðu plötu sveitarinnar er að ræða og var hún tekin upp í Sundlauginni sumarið 2023 af Alberti Finnbogasyni. Atli Finnsson (sideproject) hljóðblandaði og Sarah Register hljómjafnaði. Garðar Erlendsson og Tumi Torfason leggja til brass, Marta Ákadóttir blæs í saxófón af mikilli list og argentínska pönkhljómsveitin Blanco Teta lagði gjörva hönd á plóg í laginu „beauty tips!“.

Gróa fór af stað með miklum krafti á útgáfusviðinu. Fyrsta platan, samnefnd henni, kom út árið 2018 og plata tvö, Í glimmerheimi, ári síðar. Svipaðar plötur þar sem verið er stíga fyrstu skrefin með hráu og gáskabundnu síðpönki sem minnir á The Raincoats og ESG. Reglubókin langt í burtu og skapað án hiks eða hræðslu. „Strípað og „amatörlegt“ síðpönk, tilraunakennt en um leið lokkandi,“ skrifaði ég í dómi um þá síðarnefndu fyrir RÚV. Þriðja platan, What I like to do, kom svo 2021 og bar með sér áherslubreytingar. Platan er losaralegri og formlausari en tvær fyrstu plöturnar, sérstakt, þar sem þróun sveita er venjulega í hina áttina. Mikið um gítaróhljóð, hávaða og læti, eins og maður væri rekandi inn nefið í æfingarhúsnæði Sonic Youth árin 1984/5.

Síðan eru liðin fjögur ár og rýnir því óneitanlega forvitinn um stöðu mála. Hvað er í gangi á Drop P? Fjölskrúðugheit koma upp í hugann þegar henni er rennt. Fyrsta lagið, „birdshit“, ber með sér miklar Slits-vísanir, „Typical Girls“ svífur yfir vötnum. Flott og áberandi slagverk stýrir málum. Í næsta lagi, „ugh“, erum við í faðmi sveitanna Melvins og Amphetamine Reptile. Níðþung, hæg og dáleiðandi riff. Í „screwdriver“ er enn önnur áhersla þó að groddalegt jaðarrokk tíunda áratugarins sé áberandi í undirlaginu.

Fyrst og síðast er það þó gáskinn og þessi lífsorka sem er yfir og allt um kring. Þægilegt hispurs- og hirðuleysi um hvað fólki kann að finnast. Hversu harkalega sem fólk strýkur á sér hökuna yfir þessu er það þessi sprúðlandi spilagleði sem er hjarta bandsins. Lögin kunna að brokka áfram í svölum síðpönksgír en rífandi óp og köll meðlima hleypa hins vegar birtu inn. Platan liggur um leið – ekki ósvipað þeirri síðustu – í hálfgerðum spuna eður flæði (titillagið) og þannig séð er erfitt að pinna stílinn nákvæmlega niður. Og það er alltaf gott!

Talandi um flæði, þá held ég að ég flæði bara yfir í orð sem ég setti inn í skrif mín um What I like to do á sínum tíma: „Stundum – jafnvel oft – þarf ekki að flækja hlutina mikið. Með Gróu er alveg ljóst hvað í gangi er frá fyrsta tóni. Hér er ástríða, orka, sköpun, óþreyja, galsi, skemmtan og gleði. Það er varla púls mælanlegur í þér ef þú nemur þetta ekki eftir ca. hálft rennsli í gegnum eitthvert Gróulagið.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: