Club Cubano (Live at Mengi) er plata eftir bassaleikarann góðkunna Halla Guðmunds, Harald Ægi Guðmundsson.

Hljómsveitin Club Cubano leikur tónlistina, sem er öll eftir Halla, og það í Mengi eins og titillinn gefur til kynna. Halli hefur gert alls kyns tónlist í gegnum tíðina og er stílleg hamhleypa, skoðar, kannar og drekkur í sig sem óður væri. Platan á undan þessari, Tango for one, var í bossanova-stíl en þessi plata hér er undir sterkum kólumbískum og kúbönskum áhrifum. Í Club Cubano eru þeir Hilmar Jensson (rafgítar) Jóel Pálsson (tenor/sópran saxófónn) Daníel Helgason (tres gítar, orgel og upptökustjórn), Matthías Hemstock (trommur), Kristofer Rodriguez Svönuson (slagverk) og Halli sjálfur sem leikur á rafbassa.

Íslenskir tónlistarmenn hafa endrum og eins farið suður á bóginn, líkamlega sem áhrifalega, og komið til baka með gull. Tómas R. og Kúba, Hjálmar í Jamaíku, Bubbi og Kúba og gleymum ekki rómönsku gítarplötunni hans Túngumál. Los Bomboneros og Ingvi Þór, Sammi Jagúar og svo má áfram telja lengi vel. Halli er kominn í þennan góða hóp.

Spilamennskan hér er þétt og góð og það virkar vel að hafa áhorfendahróp á milli laga. Ýtir undir stemningu. Lögin eru öll eftir Halla eins og nefnt hefur verið og í áðurnefndum stíl. Lögin eru mismunand að gerð, stundum er farið á fullt, sveiflan hamslaus en önnur lög ballöðukenndari. Ég skynja gáska í hraðari lögum, lög sem líkjast höfundinum mætti segja. Orkurík, innileg, ástríðufull – beint af augum! Það er síðan eðlilega unun að hlusta á ÞESSA hljóðfæraleikara spila enda valinn maður í hverju rúmi. Gítarsprettir, blástur og slög, allt gengur þetta dásamlega upp og unun er á að hlýða.

Hvað næst Halli minn? Það er spurning sem ekki er auðvelt að svara, miðað við fjölskrúðugheitin sem á borð hafa verið borin hingað til….

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: