Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 10. maí.

Eins turns tal

Hekla heldur áfram að móta sinn einstaka hljóðheim á plötunni Turnar sem út kom fyrir stuttu á vegum Reykjavik Record Shop.

Ég hef virkilega notið hljóðheims Heklu undanfarin ár, á stutt- sem breiðskífum. Það eru góð tíu ár síðan ég heyrði fyrstu plötuna hennar, sex laga plötu samnefnda henni. Ég varð mjög hrifinn. Þarna var komin fram einstök tónlistarkona, með rík sérkenni. Drungaleg tónlist, naumhyggjuleg, falleg, dreymandi og umlykjandi. Fagurfræði „goth“-sins einkennandi, líkt og allar götur síðan. Ris og rof (sex laga) kom svo út 2016 og 2018 var það platan Á, sú fyrsta í fullri lengd. Sprungur (sex laga) kom svo 2020 og Xiuxiuejar 2022. Turnar er því þriðja plata Heklu í fullri lengd. Reykjavík Record Shop sér um útgáfuna og dreifingu hér á Íslandi í samstarfi við bresku útgáfuna Phantom Limb sem hefur sinnt útgáfu á Heklu undanfarin ár.

Platan var m.a. tekin upp í (og nefnd eftir) miðalda kastalaturni í dreifbýli Frakklands og á plötunni bætir Hekla við sellói, rödd og kirkjuorgeli. „Inni“ opnar plötuna. Draugalegt hljóð í fjarska, ómur í þeremíninu sem hún hefur algert vald á, þetta stórmerkilega hljóðfæri sem hefur poppað upp í gegnum tónlistarsöguna misreglulega („besti þeremínspilari sem ég hef heyrt í“ var haft eftir Iggy Pop á BBC). Hljóðið hækkar, það eru brak og brestir og hljóðmyndin verður næsta illúðleg. Tónlist Heklu er kvikmyndaleg, það er engin tilviljun að Jóhann Jóhannsson komi upp í hugann er hlustað er. „Kyrrð“ tekur við, jú, ber svona sæmilega nafn með rentu og a.m.k. er aðeins slakað á hættunum sem fólust í upphafslaginu. Ég heyri í orgelinu, finnst mér, og andrúmið er svakalegt. Mér finnst ég líka heyra í söngrödd. Athugið, að þetta er ekki tónlist sem æpir á þig eða hristir þig til og á köflum heyrist ekki hljóða skil. Platan læðist upp að þér, umleikur þig og tekur eiginlega bólfestu í þér. Altæk einhvern veginn. Orgelið kemur síðan sterkt inn í blálokin og kryddar smíðina með smá furðum. „Ókyrrð“ er næst, en ekki hvað. Hærri í hljóðblönduninni, ýtnara. Og þannig gengur á út plötuna. Þetta er ekki eintóna verk, ekki frekar en síðasta plata. Það eru tilbrigði við stef út í gegn. Ég get rætt fram og til baka um einstök lög en það er heildarupplifunin sem er fyrir öllu. Fjörutíu mínútur af tjörulöguðu tónspori sem er til skiptis ægifagurt og óttalegt. Heimur sem er afdráttarlaus að byggingu og lítil grið gefin út í gegn. Sem betur fer.

Ég hef lýst þróun Heklu í gegnum árin sem línulegri, þetta verður nefnilega bara betra og betra. Hún er með fullkomið vald á því sem hún er að gera, ekki bara hljóðfærinu sínu heldur og því sem hún vill miðla með því. Dómar, lofsamlegir, hafa nú birst í Pitchfork, The Line of Best Fit og Quietus, smekkmótandi tónlistarmiðlar allir sem einn en það væri samt óskandi að hún flygi enn hærra. Ég verð bara að segja það.
Hekla mun opna fyrir Autechre 15. ágúst en þessi áhrifaríki raftónlistardúett mun þá koma fram í Silfurbergi, Hörpu. Það er eitthvað rétt við þetta og sem hreinn hljóðarkitekt á hún ýmislegt sammerkt með Bretunum mögnuðu. Tónleikarnir ku þá fara fram í myrkri. Nei, það er ekki eitthvað rétt við þetta, það er allt rétt við þetta!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: