Saman Hróðmar Sigurðsson og Ingibjörg Elsa Turchi eiga plötuna +1 saman. — Ljósmynd/Sandra Barilli.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 23. ágúst.

Tvíeyki í „plússandi“ gír

Platan +1 er eftir þau Ingibjörgu Elsu Turchi og Hróðmar Sigurðsson. Gítar og bassi stíga þar samkvæmisdans í leitandi verki, en tvíeykið á þegar að baki ansi tilkomumikinn feril, sitt í hvoru lagi og saman.

Á plötunni vinnur parið bæði með rafeiginleika hljóðfæranna ef svo má segja og þá lífrænu, „acoustic“ eins og það heitir á ensku. Margvíslegir straumar, stíllega, koma saman í einum punkti á +1 og hér má nema djass, rokk, spuna, „ambient“ o.s.frv. Það er Reykjavík Record Shop sem gefur út en sólóplötur þeirra hjóna hafa komið út þar, Hróðmar Sigurðsson (2021) og Meliae (2020) og Stropha (2023) eftir Ingibjörgu og var plötunum rækilega hampað af gagnrýnendum á sínum tíma. Öll lög á +1 eru eftir þau hjón (utan „Children’s Playsong“ sem er eftir Bill Evans) og þau sjá um allan hljóðfæraleik utan að Elvar Bragi Kristjónsson leikur á flygilhorn í „Balance“. Um upptökustjórn sáu Hróðmar Sigurðsson og Örn Eldjárn, um hljóðblöndun sáu Ívar Ragnarsson og Hróðmar Sigurðsson og Ívar hljómjafnaði.

„Erfiðast var að finna flötinn,“ tjáði Hróðmar mér í útgáfuhófinu vegna plötunnar. Við stóðum á stéttinni fyrir utan Reykjavík Record Shop á Klapparstígnum og nutum júlísólar (já hún kom. Stundum). Í búðinni hefur djasssena landsins átt nokkurs konar heimavígi lengi vel og alltaf gott að koma þar og fagna útgáfum, sjá þetta hæfileikafólk í raunheimum. „Við vorum hugsi yfir því hvernig best væri að tvinna þessi hljóðfæri saman,“ bætti Hróðmar við. „Þetta er svo nakið, ólíkt fullri hljómsveit, þannig að það var meira en að segja það að lenda samspilinu.“

„Sunray“ opnar plötuna, hljómahaf sem er dálítið „skúlískt“ (með vísun í Skúla Sverrisson). Undir lok lagsins fáum við smá gresjutóna, fetilgítar með Ry Cooder-ískum hætti getum við sagt. „Cooper“ er meira afstrakt, ákveðinn bassi stýrir en í kring gítarhendingar að hætti hússins. Ég skil betur núna af hverju titillinn á dómi mínum um fyrstu plötu Hróðmars er „Göróttar gítarlykkjur“. Tilraunakennd smíð sem er mun „óþægari“ en upphafslagið. Eftir stutt millispil („Interlude“) er komið að „Hause“, lagi þar sem gítar og bassi fylgjast vel að. Hljóðfærin í dásamlegri hringhendu og smíðin í senn innileg og heimilisleg. Lag sem ber nafn með rentu!

„Balance“ opnar hlið B, mínimalísk stemma hvar nefnt flygilhorn kemur við sögu. „Interlude II“ er óttalegt, draugalegt jafnvel, meiri andblær en lag. „Krónos“ tikkar í þessari naumhyggju sem Ingibjörg kann svo vel. Bassinn drífur það áfram og Hróðmar fyllir upp í með skapandi, áhrifaríkum línum. Sumar nálægt, aðrar í fjarska og hljóðblöndunin hér er glæst.

Þau Ingibjörg og Hróðmar leyfa sér eitt og annað hér, þetta er ekki plata með einum heildrænum tón út í gegn – stíllega – en hins vegar eru heildræn áhrif falin í því að heyra má tengda anda minnast í gegnum tónlistina. Sum lögin eru tilraunakennd, önnur í melódísku flæði, og mögulega er fallegasta verkið hér það sem þau sömdu eigi sjálf, lag Evans, sem lokar plötunni. Frábær flutningur þar og áran æðisleg. Ef hægt er að líta á þessa plötu sem vissan sandkassa, það sé verið að prufa sig áfram að einhverju leyti, verið að finna flöt eins og Hróðmar nefndi, verð ég eindregið að benda í áttina að melódíska skapalóninu sem stýrir för í Evans-smíðinni og „Hause“ reyndar líka. Núningurinn þar og samspilið, þetta er bara dásamlegt.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: