Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 27. september.

Slepptu takinu …

Mansöngvar er ný tvöföld plata eftir Jón Hall Stefánsson. Ljóðrænan er dásamleg hérna, hversdagsvinjetturnar ekki síðri og tónlistin undurflott og öðruvísi.

Jón Hallur Stefánsson er allra handa menningarmaður, sinnir tónlist, þýðingum, ljóðlist, skáldsagnagerð og útvarpsmennsku svona meðal annars. Ég hafði lítt kynnst tónlistarþættinum hjá honum viðurkenni ég, er ekki alveg á réttum aldri, en get ekki stillt mig um að nota tækifærið hér og nefna plötuna Svarthvít jól sem var gefin út undir nafni Teina árið 2009. „Full af angurværð og kímni,“ eins og ég reit innblásinn ein jólin á fjasbókarvegginn minn. „Kaldhæðnar vangaveltur um eigindi jólanna en hún er líka uppfull af fegurð og hlýju. Svo góður balans á öllu einhvern veginn. Grínaktugheit í bland við lúmska samfélagsrýni.“ Las síðan á snjáldruvegg Guðmundar Andra Thorssonar að einhverjar snældur hefðu komið út með honum í gamla daga og svo er það líka platan 13 tímar og fleiri lög sem kom út árið 1989 í flutningi Jóns Halls og Lesta frá Reykjavík.

Allt um það. Mansöngvar er 22 laga verk og glæst er það. Þetta er söngvaskáldatónlist þar sem lágvær, pínu hrjúf og þekkileg (vinaleg) söngrödd Jóns leiðir lögin sem eru í senn melódísk og angurvær og engan veginn venjuleg. Jú, þau tikka til þess að gera áfram í hefðbundnum vestrænum hljómagangi en það er eitthvert „x“ í þeim öllum sem gefur þeim bæði vigt og sérstöðu. Á vissan hátt er þetta mjög íslenskt, Spilverkið, Hrekkjusvín og sérstaklega Megas koma í hugann. Einstakt skáldlegt innsæi þess síðastnefnda og samfélagslegt raunsæi Spilverksins hvar grámósku hversdagsins er lýst á einlægan, launfyndinn hátt, þetta hangir yfir framvindunni á Mansöngvum. Píanóið er í burðarrullu og leikur Jón á það sjálfur en lögin eru mismunandi útsett. Stundum strípuð, stundum gerir slagverk, blástur, strengir og annað krydd vart við sig.

Ég var svo heppinn að upplifa Mansöngva í Hörpu þar sem Jón flutti plötuna ásamt bróður sínum Hermanni, Ólafi Birni Ólafssyni, Braga Ólafssyni og Júlíu Mogensen. Þar var ég að heyra lögin í fyrsta sinn og nam þá vel þennan einstaka lagasmíðastíl, hvar lögin fara eiginlega bara þangað sem þeim hentar. Jón lýsti sköpunarferli lagasmíðanna fyrir Rás 1 á þann hátt að þetta væri eins og að vera í hálfgerðu vímuástandi, „þar sem textarnir flæða inn í ómótaða melódíuna“. Lögin flæddu þannig út í Hörpu, grallkennd, kenjótt, ertnisleg. Djúpskandinavískur hljómur einhvern veginn en á sama tíma minnir stemning laganna mig á ameríska nýbylgju sirka 1990/2000. Jeff Mangum (Neutral Milk Hotel), Will Oldham, Robert Pollard (Guided by Voices). Tom Waits og Bob Dylan ekki langt undan heldur. Þetta skakka og skælda, þessi rífandi ófullkomleiki, þessar furðufraseringar í talsöngnum. Pönkrætur Jóns voru þá augljósar á tónleikunum. Bassaleikarinn í Purrki Pillnikk takk fyrir og svo bróðir Jóns sem hagaði sér eins og hann væri mættur á svið með The Bad Seeds.

Mansöngvar fjallar um ástina í öllu sínu veldi. Ástin hér er stór, smá, hversdagleg og epísk og stundum birtist hún best í því þegar við sleppum takinu eins og er margítrekað í samnefndu lagi. Það lag er einstaklega fallegt og brýtur magnað píanóspil það upp um miðbikið á einkar áhrifaríkan hátt. Einlæg smíð, sönn og alvöru, líkt og Jón sé að hleypa okkur inn í innstu kytrur sem hann er í raun réttri að gera út alla plötuna.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: