Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 30. ágúst.

Hverjum klukkan glymur

A Matter of Time er ný breiðskífa eftir Laufeyju Lín. Rýnt er í verkið og tónrænt stöðumat á ferli hennar tekið.

Ég var í þeirri stöðu í fyrra að vera að kynna list Laufeyjar fyrir fólki sem var … hvað getum við sagt … dálítið hallandi í áttina að fínu tónlistinni. Þannig að Laufey í þeirra augum – og eyrum – var eðlilega alltof poppuð, markaðsmiðuð og ómerkileg. En ég lét náttúrulega engan komast upp með slíkt kjaftæði. „Viljiði framsækni og nýsköpun?,“ spurði ég, eilítið hvass. „Að taka eldgamlan stríðsáradjass, klæða hann upp fyrir Tik-Tok kynslóðina og selja hann svo í bílförmum. Síðast þegar svona gerðist var þegar Amy heitin Winehouse flaug sem hæst. Þannig að slakiði aðeins á kæru vinir …“ Í viðbót við þetta sem ég er að lýsa er svo öll tónlistarfærnin, hæfileikarnir og sjarminn botnlausi. Laufey á sína farsæld skuldlaust og hnykkir enn frekar á henni með þessari gæðaplötu hér, A Matter of Time, sem er hennar þriðja.

Ég ætla ekki að reifa feril hennar til þessa sérstaklega. Mig langar frekar til að greina innihaldið hér og lýsa því fyrir ykkur, kæru lesendur …

Platan byrjar á laginu „Clockwork“. Eru jólin komin? Þetta lag sendi mig a.m.k. þangað, það er hlýtt og draumaverksmiðjulegt og kirfilega í þeim stíl sem Laufey hefur verið að vinna með. Gömul dægurtónlist og djass, snarkið í 78 snúninga plötunum, maður heyrir það nánast. Laufey er lunkinn textasmiður og „Snow White“ er allsvakalegt að því leytinu til. Valdeflandi lýsingar þarna og kynjapólitískar. Ég sný textanum úr ensku: „Heimurinn er sjúkur staður / A.m.k. fyrir stelpur / Fólkið vill fegurð, hið granna vinnur alltaf.“ Textinn er beinskeyttur og þær óeðlilegu kröfur sem heimur samfélagsmiðla setur á konur eru vegnar og metnar.

„Too Little, Too Late“ er tilfinningaleg miðja plötunnar, rífandi ástaróður þar sem allt er sett upp á borð. Lagið er út frá sjónarhóli karlmanns að sögn Laufeyjar og hún túlkar hjartasár og hryggð yfir brostnu sambandi með einkar sannfærandi hætti.

Platan er í sama skapalóni og fyrri plöturnar en maður verður engu að síður var við breytingar og vissa þróun. Stríðsáradjassinn, Hollywood-stemningin, henni er að takast að renna þessum straumum inn í eitthvað sem við getum farið að kalla „Laufeyjar-popp“. Fyrirmyndirnar blasa ekki jafn harkalega við og þær gerðu í upphafi, þær hafa miklu heldur tekið sér bólfestu í þeim töfrasprota sem Laufey veifar af fáheyrðu öryggi hér. Besta plata hennar til þessa og ég sagði við konuna mína þar sem platan fyllti stofuna: „Þetta er bara komið!“ Ég veit samt eiginlega ekki hvað á að vera komið eða hvað ég var að meina nákvæmlega, ég fylltist bara af einhverri vissu. Frá upphafi hefur Laufey og hennar fólk haldið þétt um spaðana og ferillinn hefur verið keyrður af natni og festu. En þetta er ekki lengur þessi unga stúlka frá Íslandi sem er að gera sniðuga hluti með gamlan djass, þetta er listakonan Laufey sem er með alla þræði í hendi sér. Manneskjan sem hendir í fullóþægilegt strengjaískur í lokalaginu, manneskjan sem syngur eins og engill, manneskjan sem hefur öðlast vald til að gera það sem hana fýsir og ekkert annað. Þetta er hennar heimur, við bara búum í honum.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: