„Virðátta“ Magnús Jóhann og Óskar Guðjónsson tala sama tónmál.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 1. mars.

Andar sem unnast

Fermented Friendship er dúettaplata eftir þá Magnús Jóhann og Óskar Guðjónsson. Leikandi létt verk, ómþýtt en á sama tíma með tilfinnanlegri dýpt.

Má ég kalla þá mágusa, báða tvo, þá Magnús Jóhann og Óskar Guðjónsson? Tilheyra hvor sinni kynslóðinni en risar hvor á sinn hátt. Óskar einn allra besti saxófónleikari og djassisti sem landið hefur alið og Magnús allra handa þúsundþjalasmiður, jafnvígur á slaghörpuna, útsetningar, upptökur og skipulagningu framsækinna tónlistarhátíða. Báðir áberandi í íslensku tónlistarlífi og bæði gaman og gott að sjá þá sameina sköpunarkrafta. Umslag vínilútgáfunnar er býsna glúrið, með tveimur útskornum gluggum sem minna á „pásutakka“. Viss naumhyggja – en þó ekki – eins og í tónlistinni. Svart og hvítt umslag en ólmandi grænn litur á bak við gluggana. Sá græni prýðir innanbækling þar sem er að finna viðlíka ólmandi texta eftir Berg Ebba. Myndverkin á Steingrímur Gauti á meðan umslagshönnun var í höndum Halldórs Eldjárns. Og bakhliðina fyllir frábær augnabliksljósmynd eftir Evu Schram.

Á plötunni eru tíu lög, hún er 43 mínútur og 15 sekúndur, allt eins og það á að vera. Og lagabálkurinn skiptist jafnt á milli þeirra félaga. Bergur Þórisson tók upp og hljóðblandaði en platan var spiluð inni í Norðurljósasal Hörpu vorið 2023 þar sem öll ljós voru slökkt að undanskildum ljóstírum gamalla lampa á miðju gólfi. Götz-Michael Rieth sá svo um hljómjöfnun.

En hvernig er platan svo? Fyrstu rennslin leiddu í ljós giska heilsteypt verk sem einkennist af því sem ég lýsi í inngangi. Þetta er blíð plata og umvefjandi, með hálfgerðu „ambient“-sniði og hér með upplýsist að ég komst ekki að því fyrr en eftir á að lagasmíðum væri skipt niður. Slíkt veit eðlilega á gott, því þó að höfundarnir séu tveir er stemningin ein. Og það er ekki létt verk að draga fram ólík stílbrigði. Platan hefst með lagi Magnúsar, „Jóhannes Kjarval“, og það læðist inn eiginlega. Píanóleikurinn er einfaldur til þess að gera og fljótlega byrjar Óskar að blása. Rólega. Maður heyrir bæði tón og hvernig hann blæs, hljóðneminn fullkomlega upp að vörum einhvern veginn og ofurnæmur. Lagið rís svo lítið eitt (smá Badalamenti) og Magnús flytur sig yfir á hærri nótur. Og svo er farið aftur niður, á upphafsplanið. „Achari Ghost“ býr yfir stríðnislegum píanóhendingum, það er teiknimyndabragur á laginu. Óskar styður við og hækkar sig eftir því sem á líður. „Tilfinningatöffarinn“ er hins vegar rökkurballaða, mótífið þungt og melankólískt. Óskar lyftir því svo með melódíuklifri og við lokin fer fram hljóðfærasamtal. Áhrifaríkt, menn að spila hvor inn á annan. Lög Óskars eru eðlilega öðruvísi en þó ekki svo. „Greindargerjun“ er leitt af blæstri fremur en slögum, hægstreym smíð og aðlaðandi. Um miðbik fellur á með hlýju, einskonar píanóatlotum ef svo mætti að orði komast. „Hundaeigandi“ (frábærir titlar hjá Óskari) er spaugsamara, lag sem fer fetið og ertir hlustandann. Hvað er að fara að gerast? „Stelpuskott“ líður hins vegar tært áfram, framvinda – sem spilamennska – eins og í draumi. „Virðátta“ er ekki ósvipað, fagurt eins og spegilslétt vatn á stilltum vetrardegi. Ég hef ekki greint öll lögin niður en mynd plötunnar lesandi góður ætti að vera orðin nokkuð skýr.

Þráðurinn í gegn er nefnilega einn og óslitinn þar sem listamennirnir renna hvor inn í annan að heita má. Hljómrænir andar sem unnast, eins og Jónas kvað.

One Response to Plötudómur: Magnús Jóhann / Óskar Guðjónsson – Fermented Friendship

  1. Fermented Friendship er leikandi létt en djúp; ómþýtt samrunaferðalag Magnúsar og Óskars þar sem hljómrænir andar renna saman í óslitinn þráð
    Regard Unissula

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: