Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 24. janúar.

Flottheit úr flauelskjallaranum

Í dag finnst mér það huggulegt, já þægilegt, þegar mér berst tónlist með gamla laginu. Mike Pollock, Michael Dean Odin Pollock, og Siggi Sig., Sigurður Sigurðsson, hafa verið að búa til tónlist saman í fjölda ára og sumt af því hefur ratað á plötur, alls sjö talsins reyndar. Nýjasta útspil þeirra, Sirius, kom út síðasta sumar og í ágúst barst mér símtal sem ég missti af (var í sundi). Þar var á ferðinni sjálfur Mike Pollock, fyrrverandi gítarleikari Utangarðsmanna og seinna í Bodies, Frökkum og Das Kapital svona meðal annars. Goðsögn í raun réttri og ég viðurkenni að ég var upp með mér og það þrátt fyrir að vera þegar málkunnugur Mike. Hann var óðamála er ég hringdi til baka („þú veist hvernig ég er Arnar, það er allt eða ekkert!“ sagði hann og hló sínum einkennandi hrossahlátri) og vildi ólmur koma á mig diski. Rennerí þessa tiltekna dags gerði svo að verkum að við náðum ekki að hittast en disknum var lætt inn um lúguna hjá mér síðar sama dag.

Heimabruggsstíll
Gamli hátturinn hélt því allan daginn, fyrst símtal, ekki tölvupóstur eða „Messenger“ og svo geisladiskur, ekki Spotify-hlekkur. Heimabruggsstíllinn er alger þegar að plötunni kemur, brenndur diskur (eða svona hálfbrenndur) í grannvöxnu hulstri og glæsimynd af þeim félögum, hvar þeir brosa innilega mjög, prýðir umslagið. Sirius var tekin upp af Sigga í Studio Sogaver og leika þeir félagar á öll hljóðfæri utan að Rubin, sonur Mike, á eitt gítarsóló og Jens Hansson þeytir saxófóninn í einu lagi. Þeir Mike og Siggi hafa nú starfað saman í fimmtán ár, ferli Mike er lýst að ofan en Siggi starfaði með sveitum eins og Kentár, Tregasveitinni og Blúsbandi Bjögga Gísla.

Drjúpandi keyrsla
Ég ákvað að skrifa um plötuna í miðju fyrsta lagi. „Sage“ er eftir Mike og það er heillandi hráleiki í því. Söngrödd hans er næsta einstök, pönkuð, en smíðin kallaði fram hljómsveitina The Jacobites, sem Nikki nokkur Sudden rak ásamt Dave Kusworth. Tékkið endilega á því bandi. Það er síðpönksrót í laginu sem náði mér á núll einni, dökkvuð ræsisrómantík sem fer beint í hjartað.

Næsta lag, eftir Sigga, er hefðbundnara. Og þó. „Trouble“ tikkar áfram í einföldum blúsrokktakti en samt læðast austurlensk áhrif inn, meðvituð eða kannski ómeðvituð vísun í Sirius. Síðan er trukkað í gegnum lag Leiber og Stoller, „Drip Drop“, áður en næsta lagi Mike er svipt upp. Neðanjarðarblærinn á plötunni er að mestu frá honum kominn, lög hans búa yfir þekkilegu skringi og sjarma.

Mike á það þó til að sigla um eðlilegri mið, eins og á „Sacred“. Ljúf eyðimerkurballaða, minnir smá á Green on Red eða Giant Sand (nei, Pollock sleppur ekki við jaðarinn eftir allt saman, þó hann reyni að vera eðlilegur!)

Styrkjandi hispursleysi
„Tecumseh Valley“ er Townes Van Zandt-ábreiða, fallega flutt af Sigga. Á síðustu þremur lögunum er nokkurs konar djamm og þar rís titillagið hæst, trans-bundin stemma. Platan í heild rennur vel og örugglega og það er auðheyranlegt að vinátta þeirra er djúp bæði og gefandi. Það er styrkjandi hispursleysi á sporbaug um Sirius og er það vel.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: