Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 1. febrúar.

Í raun- sem draumheimum

Í raunheimum er ný plata eftir Nýdönsk en átta ár eru frá síðasta verki, Á plánetunni jörð. Platan var tekin upp í Real World-hljóðveri Peters Gabriels.

Nýtt ár, ný plata með Nýdönsk! Ég skal segja ykkur það. Og upptökur í einu frægasta hljóðveri heims, eins og komið er inn á í kynningu en hljóðver Gabriels er staðsett í Wiltshire á Englandi.

Nýdönsk er gæðasveit mikil, ein sú allra besta sem við eigum ef við förum í heildstæðan samanburð á íslenskri dægurtónlist. Turnarnir tveir í framlínunni, Daníel Ágúst Haraldsson og Björn Jörundur Friðbjörnsson, ólíkir en samt sem einn og síðan þeir Jón Ólafsson, Stefán Hjörleifsson og Ólafur Hólm, allir með sínar ómissandi rullur. Þetta er hljómsveit, samstillt, og tónlistin ber þess merki.

„Raunheimar“ opnar plötuna, hálfgildings titillag. Þetta er bjart og óskammfeilið popplag í millitakti, lag sem býður okkur velkomin og bandið grúvar af miklu fumleysi (öll spilamennska út í gegn er frábær. Þétt, góð og áreynslulaus. Og hljómurinn sömuleiðis framúrskarandi). „Hálka lífsins“ er kenjóttara og um leið nýdanskara mætti segja. Björn Jörundur sér um versin með sinni einstöku rödd og unun er á kjarnyrta íslenskuna að hlýða („Er hálka lífsins komin á það stig / Að mér sé loksins riðið á slig“ og „Með böggum hildar / Engar afsakanir teknar gildar“). Daníel Ágúst kemur síðan engilblíður inn í viðlagið. Þetta fer vel af stað.

„Framtíðarvið“, eftir Jón Ólafsson (texti eftir Björn Jörund og Daníel), býr yfir svipaðri launskringi, hefst með hörðum skuggagíturum en opnar síðan ljúfan faðm sinn í viðlaginu. Platan er eigi eintóna, lögin eru níu, en nóg af fettum og brettum út í gegn. Daníel syngur „Framtíðarvið“ en fóstbróðir hans Björn Jörundur semur og syngur næsta lag, „Ég veit hvað kemur næst“, sem er ljúflingssöngur að hætti hússins. Hápunktur plötunnar er svo eftir Ólaf Hólm trommara. „Máni Dagur“ er við frábæran texta Björns Jörundar og Daníels, afar falleg, hægstreymin og gæsahúðarmyndandi smíð, glæsilega útsett, leikin og sungin. „Fyrsta skiptið“ er stórgott, bítlískt popp eftir Daníel og „Fullkomið farartæki“ var ekki að ósekju eitt vinsælasta lag síðasta árs. Grípandi gúmmelaði sem gæti bara verið eftir Nýdönsk. Svo skrítið lag í raun. Dempað, gotabundið vers og svo stóreflis viðlag. Ólíkir kaflar mjög en lagið gengur fullkomlega upp. Plötunni er lokað með rósemd. Tvö síðustu lögin eru „Draumheimar“ eftir Björn Jörund og lokalagið er „Þagnarmúr“ Ólafs. Fallegar smíðar, báðar tvær, og mynda hæfandi endi á vel heppnuðu verki.

Ég renndi nokkrum eldri plötum sveitarinnar er ég ritaði og mikið öldungis er þetta gott efni. Snilldarsmíðar í hrönnum. Þetta er frábær tónlist, frábær popptónlist og nýdanskir ná enn og aftur að setja vel heppnaðan snúning á þetta einstaka skapalón sem til varð fyrir öllum þessum árum. Því það er meira en að segja það að halda hópinn í áratugafjöld, spila saman, skapa og spinna. Búa til eitthvað úr engu og dreyma upp list, list sem snertir. Platan heitir Í raunheimum og vissulega er verið að syngja um hversdaginn og lúmsk ævintýri hans. Ástir og erfiðleikar og allt saman magnað upp í krafti samvinnunnar, hópsins. Jú, þetta var gert í „raunheimum“ („Real World“) en Nýdönsk er fyrst og síðast á feiknaflugi í draumheimum, nú sem endranær.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: