Ljósbrigði Nýja platan frá Ólöfu Arnalds er göldrum bundið verk. — Ljósmynd/Anna Maggý.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 3. janúar.

Svart og hvítt, gamalt nýtt

Það er gaman að geta loks handfjatlað nýja breiðskífu frá Ólöfu Arnalds en meira en áratugur er liðinn frá síðasta verki (Palme, 2014). Þessi nýja plata, Spíra, kemur út á hinu stönduga Bella Union og góð dreifing og sjáanleiki því tryggð enda hef ég lesið lofsverða dóma um hana í stærstu tónlistartímaritum Bretlands og víðar. Ólöf er reyndar nú þegar gildandi nafn í alþjóðaheimi tónlistarinnar, fyrsta plata hennar, Við og við, vakti mikla athygli enda ein af eftirminnilegri plötum „fyrsta“ áratugarins (kom út 2007) og síðustu áratuga ef út í það er farið. Plata sú kom út á 12 Tónum en Innundir skinni (2010) og Sudden Elevation (2013) komu síðan út á One Little Independent og treystu stöðu hennar enn frekar, hér heima sem erlendis.

Sköpunargleðin upptendruð
Platan nýja minnir nokkuð á fyrstu plötuna, Við og við. Ég ætlaði svona varla að þora að minnast á það, enda eru poppheimar venjulega undirlagðir af áherslunni á hið nýja og núið og afturhvörfum oft mætt með tortryggni. En svo er þetta sem ég heyri óneitanlega nefnt sérstaklega í formlegum kynningartexta. Þar segir að sköpunargleðin sé upptendruð á nýjan leik og platan minni á frumburðinn um margt: Spíra sé sungin á íslensku, útsetningar strípaðar og hljóðfæraleikur í senn natinn og nálægt þér. Flest lögin eru þá „fyrstu töku“ lög sem voru fönguð í Sundlauginni alveg eins og þegar Við og við var tekin upp. Maður Ólafar, Skúli Sverrisson, upptökustýrir Spíru og leikur líka á bassa og gítar. Davíð Þór Jónsson leggur einnig til píanó og gítar en hann og Ólöf túruðu heiminn saman fyrir u.þ.b. fimmtán árum.

Hennar heimur
Upptökuaðstæðurnar sem lýst er hér að framan skila inn mögnuðu verki. Þetta er heimur sem maður gengur inn í og hann lýtur eigin lögmálum. Hérna er fegurð allt um kring og þetta er eitt af þessum verkum sem þú vilt týna þér í og í raun getur þú ekki annað. Það er erfitt að stússa í e-u öðru er rödd Ólafar fer af stað (miðja vegu á milli kornabarns og eldri konu, eins og Björk lýsti henni, lýsing sem er ansi glúrin verður að segjast). Þessum teningum er kastað í fyrsta lagi, „Heimurinn núna“. Þar er þessi forna baðstofustemning í hendingum og fraseringum en á nákvæmlega sama tíma er bernskt sakleysi í tóninum. Tónlistin rennur eftir þjóðlagalínum en samt ekki, það er skringi hérna sem er Ólafar og engrar annarrar. Framvindan er eftir þessu og oftlega leggst á með ægifegurð. Sjá t.d. titillagið, einstaklega falleg túlkun á sambandi foreldris og barns. Gítarinn er miðlægur í hljóðfæraslættinum en stundum læðist píanó inn, sjá t.d. „Tár í morgunsárið“. Á köflum hljómar Spíra eins og þessar handanheimsplötur Nico eða þegar Sandy Denny fer á háflug. Tónlist sem er hvorki gömul né ný, þrífst í einhverju andrúmi sem er utan við allt. Já, það er stundum skratti erfitt að lýsa tónlist get ég sagt ykkur!

„Ólafarleg“ tónlist
Ég tók viðtal við Ólöfu í febrúar 2007 vegna Við og við þar sem hún segir m.a. frá því að hún hafi byrjað að semja lög tveimur árum fyrr, lög sem hún vissi ekki almennilega hvað ætti að gera við. „Ég vissi ekki alveg hvað mér fannst en svo þegar ég fór að vera minna feimin byrjaði ég að bera þau undir vini og félaga. Ég spurði hvort þeim fyndist þetta ekki eitthvað skrítið en ég fékk oftast þau svör að þau væru þvert á móti mjög „Ólafarleg“. Ég fór í lokin að sætta mig vel við þá skýringu og leyfði lögunum þá bara að vera eins og þau væru, þau yrðu bara að hafa sinn gang. Það má segja að ég hafi ákveðið að hlýða lögunum og tekið að þjónusta þau.“ Megi þessi þjónusta endast lengi vel.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: