Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 1. nóvember.

Ómþýðar vistarverur

RAKEL hefur verið viðloðandi íslensku tónlistarsenuna lengi vel og allt frá 2021 hafa komið út smá-, deili- og stuttskífur frá henni, sóló sem og í samstarfi við aðra. Hún hefur líka komið fram með fjölmörgum þjóðþekktum tónlistarmönnum og hljómsveitum, s.s. Lóni, Ceasetone, Nönnu, Damon Albarn, Kaktusi Einarssyni, Axel Flóvent o.fl. Nú stígur hún, ég vil segja loks, fram með breiðskífu, tíu laga plötu sem kallast a place to be (lágstafirnir eru hluti af stílnum/framsetningunni). Svart/hvítar kynningarmyndirnar segja sitthvað um innihaldið, sem er í senn gotabundið og innilegt (listamannsnafnið er RAKEL en ég nota Rakel út textann, svona oftast nær).

Einvala lið tónlistarfólks
Platan varð til á Stað í Hrútafirði, sveitabænum þar sem afi Rakelar ólst upp, en hann stofnaði þar, ásamt bróður sínum, vegasjoppuna Staðarskála árið 1960 sem er óefað ein frægasta matarstoppistöð landsins. Rakel starfaði þar á sumrin og hefur verið að sækja þetta annað æskuheimili sitt heim í ríkari mæli undanfarin ár, m.a. til að semja tónlist. Einn afrakstur þessara ferðalaga er platan a place to be. Hin danska Sara Flindt ferðaðist með Rakel á milli hljóðvera á Íslandi og í Danmörku og tóku þær plötuna upp í skorpum yfir tveggja ára tímabil (Sara (sem ZAAR) og RAKEL gerðu saman plötuna While We Wait árið 2022 ásamt Salóme Katrínu). Á plötunni nýju spilar einvala lið tónlistarfólks en þar má nefna Nönnu og Ragnar úr Of Monsters And Men, Skúla Sverrisson, Kasper Staub (Lowly), Salóme Katrínu, Berg Þórisson, Björgu Brjánsdóttur og Ómar Guðjónsson. Það er OPIA Community sem gefur út en um er að ræða hugarfóstur tónlistarmannsins Ólafs Arnalds og umboðsmannateymis hans.

Natin dagbókarskrif
Rakel hefur sýnt af sér þúsundþjalamennsku sem tónlistarkona eins og sést á þeim mannskap sem hefur starfað með henni. Fyrir þessa plötu velur hún lágstemmda gírinn, verkið er eins og töfra- eður huliðsheimur þar sem hlutirnir eru værir og jafnvel viðkvæmnislegir. Saklausir eiginlega. Natin dagbókarskrif í öryggi svefnherbergisins, umbreytt í tóna og hljóma. Lagið „always“ opnar plötuna, hlýtt gítarpikk tikkar undir hlýrri röddu Rakelar, hæglætis píanóglingur er þarna líka og seiðandi bakraddir óma í fjarska. Dulúðugt. Á „rescue remedy“ er þessari stemningu viðhaldið, smá blástur en þessi höfugi söngvaskáldagír stýrir á endanum málum. Við höldum áfram, „i am only thoughts running through myself“ státar af raddleiðréttingarforritun, er dulítið skrítið og virkar eins og ákveðin ábending: Það er verið að skapa, prófa og reyna, þrátt fyrir að hæglætisandrúmið ráði mestu.

Framvindan brotin upp
Í „brushstrokesmadeoflight“ er aldeilis settur rauður pipar í framvinduna, organdi rafmagnsgítar ryðst inn um miðbikið, mikill svona 10. áratugar jaðar- og gotarokksfílingur. Nefnd Salóme og Skúli Sverrisson kíkja rækilega við í „pickled peaches“ og samsöngur þeirra Rakelar og Salóme er áhrifaríkur. Lokalagið er „staður“, nema hvað, leitt af hvíslandi en í senn sterkri og sannri rödd höfundarins. Þetta er djarfur frumburður verður að segjast, í stað þess að glenna sig og vera með læti fær friðsemd og ró að gegnsýra hljóðrásir. Það er einhver helgi bundin við þessa aðferðafræði, eitthvað ævintýralegt og á köflum er þetta eins og Cocteau Twins hefðu ákveðið að beita fyrir sig kassagíturum í stað þeirra rafbundnu. Segi svona. Allt í allt stöndugasti frumburður og það verður spennandi að fylgjast með næstu skrefum listakonunnar.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: