Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 28. desember.

Nú andar SiGRÚN sæla

Monster Milk er breiðskífa eftir ­SiGRÚNU en lengi var von á einni. Í raun réttri er þetta fyrsta plata hennar í fullri lengd en ­stuttskífur hennar hingað til hafa verið öldungis ­frábærar.

Monster Milk er tíu laga plata, rúmur hálftími að lengd og hæglega með því allra besta sem ég hef heyrt í ár. Sigrún Jónsdóttir, eða SiGRÚN, kom fyrst fyrir sjónir okkar sem meðlimur í Wonderbrass, kvenblásturssveitinni sem lék með Björk á tónleikaferðalagi árið 2007. Sigrún spilaði á básúnu þar og í kjölfarið lék hún t.d. með Sigur Rós og Florence and the Machine. Sem sólólistakona á hún nokkrar stuttskífur að baki, mislangar. Tvær komu út 2016, Hringsjá og Tog, afstrakt smíðar eða eins og ég ritaði á sínum tíma: „Á fyrri plötunni vissi maður vart hvað var handan við hornið í hverri og einni lagasmíð, stíllinn þægilega frjáls og óheftur. Á Tog er eins og aðeins meiri bygging fái að vera og glefsur úr list Bjarkar skjóta upp kolli.“ Smitari (2017) var þá vel tilraunakennd en svo fór Sigrún aftur í „poppið“ á Onælan. Í dómi sem birtist í blaði þessu í september 2018 segir m.a.: „Lögin eru mýkri og meira aðlaðandi, harkan og hornin sem einkenna stuttskífurnar fá hvíld. Sigrún syngur þá meira, gefur sig meira og er einhvern veginn meira í stafni en áður.“ Þremur árum síðar kom svo út ósungin, sex laga klarinettukeyrð plata, Arfur. Plata sem varð til í vinnsluferlinu við þessa plötu.

Onælan er annars frábær plata, djarft tilraunaverk hvar höfundurinn siglir keikur á milli sýruskers og poppbáru. Jafnvægið á milli hins skrítna og hins áhlýðilega er einkar gott, ekki ósvipað og hjá lærimóðurinni sem hún túraði með 2007. Monster Milk datt inn seint í haust og ég heyrði hana fyrst á RVK Bruggfélag Tónabíó hvar nemandi minn í LHÍ, DJ special guest, var að þeyta skífum (ýta á takka, renna sleðum). Eyrun sperrtust óðar upp og platan fellur vel í þá ríku uppskeru sem við erum að fá í tilraunapoppinu, iðulega úr ranni kvenna (Lúpína, Iðunn Einars, K.óla, Sunna Margrét, neonme og fullt annað sem ég er ábyggilega að gleyma).

Það fyrsta sem ég tók síðan eftir er ég settist niður til að hlusta (eða hvar ég var. Á hjólinu, í vinnunni, í símanum) var umslagið. Hvílík snilld (flettið því upp til að sjá það í allri sinni dýrð). Það næsta sem ég tók eftir, eðlilega, var opnunarlagið. „The air you breath“ (skrifað svo) hljómar rosalega, djúpur bassi hefur það og tónandi rödd Sigrúnar kemur inn. Eftir mínútu erum við komin inn á óhlutbundið tónaland þar sem lagið brotnar niður og við heyrum rafskruðninga og geislasverðshljóma áður en við loks skreiðumst í gang á ný. Það er ekkert gefið eftir sem fyrr í listrænni ágengni get ég sagt ykkur. Það eru flottar línur í „Of mjúk til að molna“, lag sem kallast á við temað á Onælan, þar sem fjallað var um mýkt sem styrk (ég veit, óhugsandi hlutur fyrir foreldra okkar, afa og ömmur).

Tónlistin á Monster Milk er Sigrúnar, í raun réttu framhald af Onælan en hún er ljúfari og hljómbetri, ekki eins hvöss og hráleikinn sem þar var að finna, sem skrifast held ég mest á reynsluleysi, er ekki. Lögin hér eru ævintýraleg, þetta er tölvupopp sem tikkar Bjarkarlega áfram, vísar stundum í himnatónlist Juliu Holter en rúllar á sama tíma í grjóthörðum, jaðarbundnum töktum (sideproject koma t.d. við sögu í „Driving“).

Platan er þannig vel móðins, hefði ekki getað komið út fyrr en akkúrat núna um leið og hún vex, eðlilega, upp úr frjóum jarðvegi íslensku tilraunatónlistarsenunnar sem þrífst í svefnherbergjum Reykjavíkur og listrýmum þeim sem hægt er að hagnýta undir þess háttar sköpun. Er ég hrifinn? Já!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: