Tvíeind Markéta Irglová og Glen Hansard skipa Swell Season sem sló í gegn í gegnum kvikmyndina Once.

Áfram veginn …

Forward er ný plata Swell Season, dúetts sem Markéta Irglová og Glen Hansard skipa. Bæði eiga þau ríkar Íslandstengingar þótt með ólíkum hætti séu.

Platan nýja er sú fyrsta í sextán ár en Swell Season sló í gegn á sínum tíma í gegnum kvikmyndina Once og tónlistina sem henni fylgdi. Það var svo í maí á þessu ári sem dúettinn lagðist í tónleikaferð um Evrópu til að fylgja Forward eftir og vatt ferðalaginu svo áfram um Norður-Ameríku og lýkur því ekki fyrr en í þessum mánuði. Það var í mars 2022 hins vegar sem Swell Season fór í stutta tónleikaferð til að fagna fimmtán ára afmæli téðrar Once. Seldist upp á hana á örskotsstundu og í kjölfarið var ákveðið að fara í aðra og lengri tónleikaferð um Bandaríkin í ágúst 2023.

Þessi veltingur allur varð svo kveikjan að nýju efni. Eitthvað sem átti að vera ný smáskífa þróaðist svo út í heila breiðskífu, Forward, sem samanstendur af átta lögum eftir þau Hansard og Irglovu og skipta þau með sér aðalrödd. Aðrir sem að hljóðfæraslætti koma eru Joe Doyle (bassi), Marju Gaynor (fiðla/víóla), Bertrand Galen (selló) og Piero Perelli (trommur og slagverk). Upptökustjórinn Sturla Mio Þórisson leggur þá og gjörva hönd á plóg en platan var tekin upp í Masterkey Studios sem hann og Markéta eiga á Íslandi. Þar er Íslandstenging Markétu en Glen Hansard hefur aftur á móti verið aufúsugestur á Fróni um alllanga hríð og lék hann m.a. sem aðalnúmer á Bræðslunni fyrir margt löngu.

Platan er giska fjölbreytt þegar allt er saman tekið. „Factory Street Bells“ opnar hana og hrjúf en þekkileg rödd Hansards fyllir hljóðrásirnar. Írsk ljúflegheit einkenna það, öðruvísi er ekki hægt að lýsa því, og verkamannarómantík svífur yfir vötnum. „People We Used To Be“ er sungið af tvíeykinu í sameiningu, falleg og blíð rödd Markétu fléttast þar á sannfærandi hátt saman við söngrödd Hansards. Myndbandið var tekið upp í Prag og vísar í kvikmyndina frægu sem gerði Swell ­Season-meðlimi að stjörnum. „Stuck In Reverse“ er gnístandi söngur, hvar Hansard fer mikinn í ástríðufullri túlkun. „I Leave Everything For You“ ber svo með sér hina hliðina, áreynslulausa fegurð í boði Markétu hvar píanóið eitt leiðir. Ástríðan er sú sama en það sem gerir plötuna – og dúettinn – er þverstæðan í parinu, grófur og skeggjaður Íri með tékkneskri stúlku en Markéta var ekki nema nítján ára er Once kom út.

Restin af plötunni er með þessu sniði, ljúfsárar smíðar frá ­báðum aðilum. „A Little Sugar“ er einföld þjóðlagastemma úr ranni Hansards á meðan Markéta leggur fram „Pretty Stories“, nokk epíska smíð sem er lokað með glæstu strengjaklifri. Eins og ég sagði í upphafi: þægilega fjölbreytt plata en bundin saman af anda þessa einstaka tónlistarfólks.

Markéta lét svo hafa þetta eftir sér í fréttatilkynningu vegna plötunnar: „Við kölluðum plötuna Forward því orðið kom stöðugt upp í nokkrum af lögunum sem við höfðum verið að vinna að saman … Orkan sem við þekktum svo vel er við unnum saman daglega við að semja fyrir margt löngu kom aftur til baka og fyllti herbergið. Nýtt efni fæddist er við tengdumst aftur sem gamlir vinir í nýjum aðstæðum.“ Hún segir jafnframt að líklega hafi eitthvað hreiðrað um sig í undirmeðvitundinni á sínum tíma, hlutir sem komust ekki út fyrr en fjórtán ára hléið var að baki og fundu sér svo farveg í líki lagasmíða á Forward.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: