Image may contain: 1 person, sunglasses

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 3. júní, 2017

Áleitin værðarstef

Tómas Jónsson er ein af vonarstjörnum hins íslenska djass, en plata hans, samnefnd honum og auk þess hans fyrsta, læðist lymskulega undir skinnið á hlustandanum.

Lagið sem opnar þessa plötu kallast „Einn“ og er það við hæfi. Lag númer eitt, plata númer eitt og höfundurinn, sem nefnir hana eftir sjálfum, stendur og fellur með henni – einn. Þrátt fyrir tiltölulega ungan aldur hefur píanó- og hljómborðsleikarinn Tómas Jónsson leikið með margvíslegum tónlistarmanninum íslenskum en á þessari plötu stígur hann fram sem listamaður og ber á borð fyrir okkur eigin tónsmíðar, alls tíu talsins.

Tómas útskrifaðist frá FÍH fyrir fimm árum og sama ár hlaut hann tilnefninguna „Bjartasta vonin“ á Íslensku tónlistarverðlaununum (og þessi plata hér var tilnefnd sem plata ársins í Opnum flokki á sömu verðlaunum í ár). Síðustu ár hefur Tómas leikið með fjölbreyttum hópi listamanna, bæði á hljómleikum og á hljómplötum, hérlendis og erlendis og sem dæmi hefur hann unnið með Ásgeiri Trausta, Hjálmum, Memfismafíunni, Fjallabræðrum, Helga Björnssyni, Sigríði Thorlacius, Uni Stefson, Björgvini Gíslasyni, Brynhildi Oddsdóttur og Skafrenningunum og einnig var hann í uppfærslu Vesturports á Í hjarta Hróa hattar.

Tómas hefur keyrt samnefnda sveit í tengslum við eigið efni þar sem þeir Guðmundur Óskar Guðmundsson, Magnús Trygvason Eliassen, Rögnvaldur Borgþórsson og Hilmir Berg Ragnarsson koma við sögu. Leggja þeir gjörva hönd á plóg hvað þessa plötu varðar en uppistaðan er samt sem áður píanó- og hljómborðsleikur Tómasar. Og lagið sem ég nefndi í upphafi, „Einn“, slær um margt tóninn fyrir það sem koma skal. Lagið hefst á forrituðum takti, mjúkum og þægilegum, og síðan kemur píanó Tómasar inn og dansar ofan á framvindunni. Hið vélræna hittir hið lífræna, lagið rúllar áreynslulaust áfram en um leið er erfitt að skilgreina stílinn nákvæmlega. „Upphaf“ rúllar t.d. í takt við „ambient“-skotinn hljóðheim Sigur Rósar en lög eins „Seigla“ nikka nett til áttunda áratugarins. Það lag gæti hæglega stutt við listræna ítalska bíómynd frá 1978. Tómas leyfir sér líka að vera glettinn, „Kúrekalag“ inniheldur mexíkóskan mariachi-blástur og Ennio Morricone gægist fyrir hornið. Uppbrotið er þó ekki dólgslegra en það að lagið passar fullkomlega við allt annað hér. Tómas er að draga úr djassbankanum, sannarlega, en skimar um leið í aðrar áttir. Samþætting þessa alls hljómar þá eðlilega og sannfærandi og er helsti styrkur þessa mjög svo ágæta frumburðar. Þetta er allt saman svo þægilega kunnuglegt eitthvað – en um leið ekki. Plötuna má nálgast á streymisveitum eins og Bandcamp og Spotify en er og til á forláta vínyl.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: